Líf í árvekni: Vestan við sól og austan við mána...

laugardagur, 14. janúar 2006

Vestan við sól og austan við mána...

Nei, þetta er ekki Fangorn skógur Tolkiens að vetrarlagi heldur það sem við blasir úr útidyrum húss foreldra minna vestur á Þingeyri við Dýrafjörð. Mamma tók myndina 7. janúar sl. og sömuleiðis þá sem er hér fyrir neðan, en hún er tekin fyrir neðan heimili þeirra við Aðalstræti 39. Húsið sem blasir við er Hof, heimili móðurforeldra minna heitinna. Eiginlega má segja að ég hafi alist upp á þessum spotta, svona mestanpartinn að minnsta kosti.

Af veðurfari hér í Eiðinaborg er það hins vegar að frétta að hitastigið er þetta á bilinu sex til níu gráður, stundum rignir dálítið og stundum skín sól í heiði skamma stund, og við erum eiginlega farin að undrast þennan skort á vetri í landi Betu drottningar eftir heimsendaspár veðurfræðinga í haust um að framundan væri kaldasti vetur í þrjá áratugi. Það á kannski eftir að skila sér frostið... en það er allt í lagi því við eigum hlýjar lopapeysur og þykka sokka prjónaða úr íslenskri ull og kærleika að heiman.

Engin ummæli: