Líf í árvekni: Sjálfrátt líf

laugardagur, 14. janúar 2006

Sjálfrátt líf

,,Meira hvað maður gerir allt ósjálfrátt... allt lífið á enda!" sagði vinkona mín og dæsti þegar við einu sinni sem oftar áttum spekingslegar samræður um ástina, hamingjuna og sérdeilis um vandann við að taka góðar ákvarðanir. Stundum getur manni þótt svo erfitt að gera upp hug sinn að margur sleppir því iðulega og þykist ekki hafa neitt val. Maður bara ,,verður“ að lifa lífinu á þennan hátt eða hinn og slengir ábyrgðinni á annarra axlir. Þannig getur maður kennt öðrum um ef illa fer og vorkennt sjálfum sér í leiðinni.

En slíkt líf, þar sem hver hreyfing er líkust ósjálfráðu viðbragði við áreiti, það er ekkert líf. Að lifa til fulls er að að vita að maður er sjálfráður um eigin viðhorf og eigin hamingju og að á hverju einasta augnabliki hefur maður val. Við erum stöðugt að velja og hafna – líka þegar við veljum að aðhafast ekkert og stöndum kjur – og það getur kostað þó nokkurt hugrekki að viðurkenna það. Það er ekki alltaf auðvelt að standa undir ábyrgðinni sem í því felst að vera manneskja. Sá sem það gerir verður að kasta frá sér hækju sjálfsvorkunnarinnar. Hann finnur í staðinn frelsi sem honum var áður hulið sjónum; frelsi til að lifa sjálfráðu lífi.

Þetta textakorn hér að ofan er líka að finna í þessari bók, á síðunni sem tileinkuð er 3. september, en einmitt þann dag fyrir 40 árum ákvað móðir mín sig að drífa sig inn á sjúkraskýli eldsnemma morguns og fæddi þar í heiminn sitt fimmta barn 40 mínútum síðar, þá 24 ára gömul. Ljósmóðirin nafna mín var kölluð út en ég var víst á undan henni á staðinn, enda skemmra að fara...

Ég deildi skrifstofu í tæpt ár með vinkonunni sem kveikti þessar djúphyglispælingar um sjálfrátt og ósjálfrátt líf - var á þeim tíma að þýða mikið snilldarverk, skáldsöguna The Hiding Place eftir Trezza Azzopardi - vinkonan var Þórunn Valdimarsdóttir sagnfræðingur og skáldkona, og skrifstofan okkar var ,,á milli lífs og dauða" eins og hún orðaði það svo skemmtilega, þ.e. í Fischersundi, á milli útfararstofu og strippbúllu, sem ég held að séu báðar núna horfnar yfir fyrirtækjamóðuna miklu - nema að það sé kannski búið að grúppa þær og setja niður annars staðar - að minnsta kosti stendur í sundinu núna stórt og mikið hótel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Yndislegt að lesa skrifin þín kæra systir, fær mann alltaf til þess að brosa :)
Ástarkveðja Litla systir