Líf í árvekni: Þriðjudagur í Meadows

þriðjudagur, 31. janúar 2006

Þriðjudagur í Meadows

Dagurinn í dag, 31. janúar, var sá kaldasti frá því að við fluttum hingað til Eiðinaborgar, heilar fimm frostgráður á mælinum og hrollkalt í eldhúsinu í morgun! Ekki var það þó svo gott að snjóaði; þetta hvíta á golfvellinum í bakgrunni myndarinnar er bara frosin dögg sem vísast verður horfin í fyrramálið því þá fer hitinn aftur upp fyrir frostmarkið. Skoðaði í dag í fyrsta sinn í návígi þetta minnismerki sem haft er innan rekkverks en gekk illa að ráða í máð letrið, sýndust það þó vera einhver trúartákn ofan til og fyrir neðan tilvitnanir í látin skáld. Að minnsta kosti var ein þeirra kunnugleg: ,,Time and Tide wait for no Man." Gúgglaði setninguna (eða setningunni? Hvort tekur sögnin að gúggla með sér þolfall eða þágufall?) og komst að því að hún mun runnin úr brunni málsháttasmiða vart yngri en frá öld sturlunga og hefur breyst nokkuð frá því að hún var fyrst fest á bókfell:

The earliest known record is from St. Marher, 1225 - "And te tide and te time þat tu iboren were, schal beon iblescet." A version in modern English - "the tide abides for, tarrieth for no man, stays no man, tide nor time tarrieth no man" evolved into the present day version. Here tide doesn't refer to the contemporary meaning of the word, i.e. the rising and falling of the sea, but to a period of time. When this phrase was coined tide meant a season, or a time, or a while. The word is still with us in that sense in 'good tidings', which refers to a good event or occasion and whitsuntide, noontide etc.

Samkvæmt þessu myndi áletruninni snarað sem svo að hvorki tíminn né tíðin bíði nokkurs manns. Leitaði ögn lengur og komst - mér ekki á óvart - að því að orðalagið á minnismerkinu var skráð fyrst af þeim mikla, skoska skáldjöfri og rómantíker Sir Walter Scott í bókinni 'Fortunes of Nigel' árið 1822. Skotar halda óhemjumikið upp á Scott, hafa stóra styttu af honum á Prinsastræti sem einhverjir kannast kannski við að hafa séð - hann er svona eins konar þeirra Jónas, Hannes og Einar Ben. í einum pakka.

Þjóðfræðimenntaðir lærimeistarar mínir eru þó ekki sérlega hrifnir af Scott og kenna honum um hið hræðilega "tartanry", en köflótt mynstur í hvers kyns litbrigðum er það skoskasta af öllu skosku - og víðfræg er sú ranghugmynd að hver hálandaætt hafi frá aldaöðli átt sitt eigið mynstur á tvídpilsin sín. Allt er þetta tilbúningur rómantíkeranna á 19. öldinni og víst enskur klæðskeri suður í Lundúnum sem valdi mynstur fyrir hina ýmsu burtflúnu hálandahöfðingja sem þar bjuggu búi sínu eftir að ýmsar kreppur - flestar af manna völdum - gerðu þeim lífið of erfitt fyrir norðan.

Sú saga er sögð að tartan-dæmið hafi allt saman byrjað þegar Walter Scott - úr því að við erum farin að tala um hann - hafi fengið alla yfirstétt Skotlands til að taka á móti Georgi IV. kóngi í köflóttu tartan árið 1822, þegar hann kom í sína fyrstu opinberu heimsókn norður fyrir mærin milli enskra og skoskra, og tókst í ofanálag að fá kónginn sjálfan til að dressa sig upp í köflótt. Goggi var stuttur og þéttvaxinn og köflótt klæddi hann víst engan veginn...


Engin í Meadows virðast dálítið óraunveruleg í kuldanum og slælegu skyggninu en voru þó enn dulmagnaðri í gær þegar svartaþoka lagðist yfir okkur, svo þétt að sjálfur Sérlokkur Hólms hefði tapað áttum á milli húsa og var þó ýmsu vanur í kolareyk Lundúnaborgar. Hér heima í Leven Terrace sáum við ekki til nágranna okkar sem snúa baki í sama garð og við.

Eins og hér sést er stutt fyrir okkur yfir á róló; húsið okkar er þarna næst í bakgrunn- inum, stofuglugg- inn er í hægri turninum. Nokkrar nýjar myndir í viðbót af skottunni eru á tenglinum Fjölskyldualbúmið hér efst og hægra megin á síðunni.

P.s. Sá mér til mikillar gleði í Fréttablaðinu á Netinu í gær að mér hlotnast starfslaun næsta hálfa árið!

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æðislegar myndirnar!
Var að skoða líka í albúminu á barnalandi, æðislega krúttlega myndir af Sigrúnu minni með snjóinn :)
Innilega til hamingju með starfslaunin elsku systa!
Hlakka til að lesa næstu bók ;)

Risaknús kveðja
frá Íslandinu góða,
Auður Lilja & kó

Nafnlaus sagði...

Við óskum Matta innilega til hamingju með litlu systur!
Risaknúskveðjur frá
okkur öllum
Auður Lilja & kó!

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...

matti seigja hæ

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Hér er mynd af Matta með vinum sínum í Edinborg, sem heita Gísli og Daníel:

http://www.barnanet.is/1777?sida=album_mynd&album=14089&mynd=276226

Nafnlaus sagði...

Gaman að sjá allar þessar myndir og ekki síður að lesa hér ýmsan fróðleik um Edinborg og lífið í Skotalandinu. hlökkum til að skoða þetta allt!