Líf í árvekni: Listin að lesa

þriðjudagur, 10. janúar 2006

Listin að lesa

Ofangreindur titill er á bókinni sem ég var að byrja á, einstaklega ljúf og skemmtileg bók eftir Árna Bergmann um listina að lesa (hvað annað!) og þá sælu tilfinningu ,,að muna allt í einu við lestur eitthvað mikilvægt sem við vissum áður, en höfðum gleymt". Hann skrifar líka um höfunda og gagnrýnendur og bókmenntafræðina; sem sé sitthvað tengt þessarri ástríðu að þurfa eilíft að vera að lesa og/eða skrifa. Fyrsta skáldsagan sem skildi eftir sig spor í sálu Árna var ævisaga Davíðs Copperfields; hann táraðist af samúð yfir móðurmissi Davíðs. Fór að velta því fyrir mér hvaða bók ég man fyrst eftir að hafa lesið og lifað mig inn í en get engan veginn munað það. Manst þú kannski hvaða bók snerti þig fyrst?

Rámar reyndar í að hafa stautað mig í gegnum Gagn og gaman og Litlu gulu hænuna með pabba og mömmu til þess að ná tökum á listinni að lesa. En fyrsta skáldsagan? Upp í hugann koma hinar ýmsu barnabókaseríur: Enid Blyton eins og hún lagði sig, bækur Astrid Lindgren og Anne Cath Vestly, Gunnubækur og Lottubækur, múmínálfarnir, Grímur grallari, Tinni og Ástríkur.

Hvað tók svo við? Þegar ég var tíu ára að passa litlu frænkurnar mínar á Blönduósi komst ég í skáldsögu um frönsku byltinguna, sem Halla frænka hafði harðbannað mér að lesa því hún væri svo óhugnanleg. Hún skrökvaði sko engu um það! Nú man ég líka að ég sökkti mér ung á kaf í bókaþrennu sem mamma átti um kvenhetju sem var einmitt á dögum í Frakklandi byltingarinnar, Catherine held ég að hún hafi heitið. Og svo var það Sven Hazel og Góði dátinn Svejk. Atómstöðina las ég fyrst þegar ég var tólf ára. Kannski það hafi einmitt verið fyrsta skáldsagan sem snerti mig. Sagan um Uglu.

Ég man hins vegar alveg hvaða fræðibók ég las fyrsta og hafði á mig djúp áhrif. Hún hét Kapítalismi, sósíalismi, kommúnismi og var í kiljuritröð Máls og menningar. Hef líkast til verið 10-11 ára og man hvað mér leist ágætlega á sósíalismann, nema þetta með að senda börn öll til uppeldis á sérstökum barnaheimilum á meðan foreldrarnir voru við vinnu. Undarleg hugmynd það!

Auk Árnabókar er ég líka að lesa Miðaldabörn, sem Matta vinkona sendi í jólapakkanum, mér til mikillar gleði. Ritgerðir fræðimanna um barnæsku á miðöldum, ritstýrt af þeim Torfa Tulinius og Ármanni Jakobssyni, þeim mikla gáfumanni. Er hálfnuð og þykir lesningin sérlega áhugaverð, finnst samt vanta einhverjar spekúlasjónir um hvað börn höfðu fyrir stafni á fyrri öldum. Hefur enginn skrifað neitt ennþá um leiki barna fyrr á tímum? Í Egilssögu er sagt frá því að drengir hafi leikið knattleik með kylfu og bolta (með banvænum afleiðingum fyrir suma reyndar) - fullorðnir menn léku knattleik hver við annan, og drengir hver við annan - líkt og gert er enn í dag. Svo hafa nú fornleifafræðingar fundið stöku leikföng í moldinni, leikfangabát á Barðaströnd til að mynda.

Nýbúin með Valkyrjurnar eftir Þráin Bertelsson. Þrælspennandi sakamálasaga og aldeilis drepfyndin ádeila á ríkisstjórn lýðveldisins, nýríka matvörukaupmenn og tíðarandann yfirleitt í íslensku samfélagi. Skellti upp úr hvað eftir annað við lesturinn. Þráinn er snillingur.

Á jólanóttina las ég Goðsagnir í aldanna rás, inngangsbók að ritröð sem Argóarflísin hans Sjóns og Penelópubók Margrétar Atwood tilheyra. Lítil bók en góð. Snertir reyndar ekkert á norrænum goðsögum, sem voru dálítil vonbrigði.

Líka búin með bókina Sumarljós, og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson. Jón skrifar svo fallegan stíl, hver saga næstum einsog ljóð. Stundum tárast maður og hlær í senn, og aftur og aftur óskaði ég þess að ég hefði sjálf skrifað hina og þessa setninguna. Þorpararnir hans eru samt ekki tiltakanlega líkir þeim sem ég ólst upp með. Held að Dýrfirðingar séu ekki eins blóðheitir og Dalamennirnir hans Jóns. Kannski er það vegna þess að það er ekkert frystihús í Búðardal. Nema fólk hafi náttúrulega haldið miklu meira framhjá en maður frétti af...?

7 ummæli:

Katrín sagði...

ég held að bækurnar sem ég sökkti mér fyrst djúpt niður í hafi verið Lottubækurnar.
Ah, minningin um hvern veiðiþjófinn á eftir öðrum hvatti mig til að skrifa kjörbókarritgerð um fyrstu Lottubókina þegar ég var í 8. bekk. Man ekki betur en að ég hafi fengið hentuga einkunn fyrir hana!

Nafnlaus sagði...

Svara þér á blogginu mínu ;)

McHillary sagði...

Mín fyrsta uppáhalds barnabók var bókin Labba lætur allt fjúka! Ég fékk hana í 10 ára afmælisgjöf og varð ægilega skúffuð, langaði í eitthvað allt annað. Nema hvað, svo reyndist bókin vera hrein snilld. Það komu út einar 10 bækur um Löbbu í íslenskri þýðingu ef ég man rétt.Bækurnar eru eftir sænskan höfund, Merri Vik, og persónan Labba er táningsstelpa í Svíþjóð, afar seinheppin og sögurnar bráðskemmtilegar. Svona svolítil Bridget Jones síns tíma, held að bækurnar sé skrifaðar í um 1980. Nóg um það, hvernig gengur nú að koma sér í skólagírinn??

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Ef einhver sem þetta les hefur lesið eitthvað um og eftir jólin af nýjum bókum væri áhugavert að frétta af því. Alltaf gaman að vita hvað fólk er að lesa - eða að fólk lesi bara yfirleitt sko - og hvað því finnst þá um lesninguna.

Nafnlaus sagði...

Alveg fyrstu baekur sem madur las sjálfur... Man allavega eftir eftir saenskum bókum um skottlausan ketti, Pelle Svanslös, og svo Fimm Fraeknu eftir Enid Blyton, og finnskar strákabaekur um vinina tvo, Pertsa og Kilu, og sömuleidis finnskar strákabaekur um Villta vestrid. Einhverra hluta vegna dátt ég í Hvíta hvalinn eftir Melville, á finnsku, thegar ég var 10 ára og ód gegnum hana. Thar var bara eitthvad sem ég gat ekki sleppt. Svo voru svona sígiltar finnskar eins og Sjö braedur eftir Aleksis Kivi og svo fyrir strákana af mínu kynslód Óthekkti hermadurinn eftir Väinö Linna. Vid ólumst upp í skugga stridsminninga og Hermadurinn hjálpadi okkur ad höndla thaer. Svo komu i gaggó og menntó svona einsog Vonnegut, Steinbeck og vítaskuld Hringjadróttinssagan sem kom út akkúrat thegar ég var í menntaskóla. Sama tíma og ég fann fyrstu ìslendingasögur thyddar á finnsku, Laxdaelu og svo Eíriks sögu rauda og Fostbraedrasögu. Eda thannig. Annars, Villa, hét höfundur Sveiks ekki Jaroslav Hasek? Sven Hassel skrifadi strídsbaekur af svolitid ödrum toga, "Hersveit theirra fordaemdu" og "Gestapo" og svo framvegis...

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Sæll Tapio, gaman að heyra frá íbúum bláa hússins í Finnaskógum! Er einmitt með jólakortið ykkar sem bókamerki í bókinni sem ég var að byrja á núna í vikunni: Zen Mind - Beginners Mind. Liður í að efna nýársheit um daglega hugleiðslu sbr. mindful living ;)

Jú, Hasek skrifaði einmitt um hinn góða dáta og húsbóndann hans en Sven Hazel um sjálfan sig, Porta og fleiri kaldhæðna stríðsmenn þriðja ríkisins og ekki var meininginn að rangfeðra hinn góða dáta, nefndi þá bara svona í sömu andránni.

Spurning til Huldu: Takk kærlega fyrir varurðina, fletti þessu upp í orðabókinni og fann merkinguna skynjun. Líf í varurð: Líf í skynjun. Hvar rakstu á þetta mergjaða orð? Ekki frá því að þú eigir í vændum viku í Edinborg með útsýni yfir Meadows m.m.!

Nafnlaus sagði...

Varurdin er algengt ord i " Gangleri" timariti Gudspekifelags Islands. Eg er buin ad vera askrifandi fra tvitugs aldri.Varurdin er vist stig i hugleidstu sem aefist i hverstagsleikanum.Gaman vaeri ad skella okkur til ykkar.Erum ad spa!