Líf í árvekni: Snúðlausir Edinborgarar

sunnudagur, 8. janúar 2006

Snúðlausir Edinborgarar

Þá er Snúðurinn minn farinn heim til Íslands aftur eftir jólafríið; við vöknuðum klukkan sex í morgun til að skila honum á flugvöllinn í Glasgow í tæka tíð fyrir brottför klukkan ellefu. Engar umferðarsultur á leiðinni aldrei slíku vant svo að við vorum heldur snemma í því en þær stundir liðu alltof hratt. Skottan háskældi þegar hún horfði á eftir bróður sínum og mamman líka, innan í sér. Jæja, við verðum víst að harka af okkur og vera dugleg að skæpa og símast á.

Af flugvellinum fórum við inn í miðbæ Grænastaðar og röltum í nokkrar búðir á Sauchiehall göngugötunni okkur til huggunar; ég eignaðist brúna prjónaderhúfu og Skottan fékk gallabuxur, fjórar treyjur, eina flíspeysu, stuttermabol og prjónaða jakkapeysu. Barnafötin öll á samtals 22 pund í Primark, álíka og ein af þessum flíkum myndi kosta í Hagkaup. Allt vasklaust fyrir börn í landi Skota.Myndin hérna hægra megin var tekin í vikunni þegar við heimsótt- um hina hroðalegu dýflissu Edinborgar. Þar eru á mjög svo mynd- og leikrænan hátt sagðar ýmsar hryllingssögur af Edinborgurum fortíðar; s.s. mannætum, líkræningjum, morðingjum, böðlum og fórnarlömbum þeirra. Vel gert en ekki fyrir viðkvæmar sálir... Mitt í hrollvekjandi og dramatískri leiðsögn um pyntingatækjahvelfinguna gall við gemsastefið oní tuðrunni minni - á línunni var formaður skákfélagsins Hróksins að þakka fyrir Krumma. Notalegt :)

1 ummæli:

McHillary sagði...

Hæ kæra Vilborg! þær eru skuggalegar dýflissurnar, úfff..pyntingarhvelfingin var agaleg, vona að ferðin hafi gengið vel hjá Matta.. okkur gengur vel með piparkökurnar og sætindin ;)
Við erum með myndasíðu: www.barnanet.is/1777, þar er ein góð af þeim piltum, tekin á laugardaginn. svo er bloggið mitt www.machillary.blogspot.com. Bestu kveðjur, Hildur