Elsku mamma
takk fyrir að kenna okkur
að setja blauta vettlinga og sokka á miðstöðina
raða stígvélunum
og koma inn þvottahúsmegin
þegar við vorum búin að vera úti að leika
elsku mamma
takk fyrir að sauma á okkur öll þessi föt
(allt frá ungbarnatreyjum upp í diskógalla)
þvo af okkur, snýta og skeina,
baða okkur á laugardögum
sjóða taubleiurnar
og þvo allt í höndum áður en vélin kom
hengja út í frosti og snjó
brjóta saman og ganga frá
og strauja endalaust
staga í alla þessa sokka
sem voru með hælinn útúr og jafnvel tána líka
og sjá til þess að værum ekki
til fara einsog niðursetningar
þótt við værum þessir endemis
hrakfallabálkar og trassar
elsku mamma
takk fyrir að elda ofan í okkur matinn
í öll þessi ár og búa alltaf líka til eftirmat
(kakósúpu, grjónagraut, makkarónusúpu,
rabbarbaragraut, ávaxtasætsúpu og Royal búðing
með karamellubragði svo eitthvað sé nefnt)
baka allar þessar jóla – og snúðakökur,
pönnukökur og vöfflur með kaffinu
smyrja nesti, hita kakó,
sópa og skúra gólfin,
skrúbba baðkarið og þurrka rykið
þrífa klósettið og ryksuga stofuna
elsku mamma
takk fyrir að vekja okkur (margsinnis) í skólann
láta okkur læra heima
greiða flækjurnar úr stelpunum á hverjum morgni
og koma strákunum reglulega
í klippingu til Gulla
gefa okkur pening fyrir möluðum ís úr Öldunni
og brjóssigg í kramarhúsi úr Sigmundabúð
kenna okkur að signa okkur
og syngja okkur
í svefn öll þessi kvöld
elsku mamma
takk fyrir að láta pabba aldrei rassskella okkur
þegar hann kom heim af sjónum
þótt við ættum það ábyggilega oft skilið
og þú værir stundum aldeilis hissa
á því hvernig við gátum látið
og ættir ekki til eitt einasta orð
elsku mamma
fyrirgefðu að við skildum svona oft
hafa rifist og slegist eins og bestíur
verið gikkir og löt við að sendast og hjálpa til heima
stungið af úr kartöflugarðinum
til að leika okkur í druslunum í bílakirkjugarðinum
sporað út nýskúrað gólfið
stolist til að vaða og fara í jakahlaup
sulla og drulla okkur út
uppi í skurði og niðri í fjöru
og hafa ekki leyft þér nema örsjaldan
að klára blaðið og kaffibollann í friði
elsku mamma
takk fyrir að kenna okkur
að haga okkur eins og manneskjur
taka til hendinni
harka af okkur og vera ekki alltaf að klaga
standa alltaf með þeim sem eru minnimáttar
og að ást í verki er mikilvægust alls
elsku mamma
takk fyrir passa börnin okkar þegar pabbi lofar að gera það
hafa áfram af okkur áhyggjur þótt við séum orðin stór
og hringja í okkur oftar en við hringum í þig
takk fyrir svo ótal ótal margt
en fyrst og fremst þó
fyrir að vera
mamma okkar
- til Katrínar Gunnarsdóttur 65 ára þann 25. janúar 2006
1 ummæli:
Þökk fyrir öll þessi fallegu orð
,þó að ég eigi það ekki skilið
ástarkveðja Mamma.
Skrifa ummæli