Líf í árvekni: Trú, von og kærleikur

sunnudagur, 20. janúar 2013

Trú, von og kærleikur

,,En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur."
Myndin er tekin í fjörunni í Gott Bay á eynni Tiree vestur af Skotlandi stundu fyrir miðnætti í júní árið 2007.
Í skrifum mínum í þessum pistlum hef ég líkt lífinu við ævintýri. Hvert og eitt okkar er hetjan í eigin ævintýri, olnbogabarnið sem álítur sig lítils megandi en þreytir þó ýmsar raunir og styrkist af hverri og einni. Mætir óvæntum hjálparhellum á leiðinni, villist í dimmum skógi, drekkur kaffi úr brúsa og borðar eggjasamloku í rjóðri, finnur stíginn aftur, tekst á við ótætis drekann - í hvaða líki svo sem hann er - og að launum . . . fáum við kærleikann. Það eru sigurlaun hvers dags sem við leysum þrautirnar án þess að missa vonina og trúna á að á hverju sem gengur fari allt vel. Eða að minnsta kosti eins og það á að fara. Og höldum í trúna á að við getum ráðið við það sem lífið færir okkur og ef ekki, þá sé Æðri máttur til staðar sem getur séð um það sem ekki er í okkar höndum.

11. janúar: Avastin lyfjagjöf á deild 11 B.
Þessa dimmu janúardaga eru þrautirnar þær arna þyngri en nokkru sinni fyrr. Nú er svo komið að sjúkdómseinkenni Míns heittelskaða eru meiri og alvarlegri en svo að hægt sé að ganga út frá því að bjúgsöfnun eftir geislameðferðina sé einni um að kenna. Málstol og verkstol hafa aukist mjög ört undanfarnar tvær vikur og mátturinn til gangs og verka verður æ minni með degi hverjum, vökutímarnir sífellt færri. Geisla- og lyfjameðferðin í október og nóvember hefur því miður ekki skilað þeim árangri sem við vonuðumst eftir, þ.e. að hemja framgang heilakrabbameinsins enda þótt æxlin sjálf hafi ekki stækkað svo hægt sé að merkja á milli segulómmyndanna frá 11. desember og 2. janúar. Það sést ekki allt á myndunum, sagði læknirinn; einkennin segja sína sögu. Sjúkdómurinn er að ágerast og því getur aðeins lokið á einn veg.

Á föstudaginn fyrir viku fékk Minn heittelskaði nýtt æðahemjandi lyf sem dælt var í æð, Avastin, og mun fá aðra inndælingu um mánaðamótin. Það mun vonandi hafa þau áhrif að draga úr einkennunum, um tíma að minnsta kosti, því það vinnur gegn æðum sem æxlin mynda til að ná sér í næringu og eru lekar, þ.e. blóð dreitlar úr þeim út í heilavökvann og eykur á bjúginn. Í gær lauk annarri fimm daga lyfjalotu af Temomedac, sem er æxlishemjandi, og saman geta þessi tvö lyf hjálpað gegn einkennunum enda þótt þau geti ekki stöðvað framgang sjúkdómsins.

Í vikunni kom hjúkrunarfræðingur frá Heimahlynningu Líknardeildarinnar til okkar í Hallveigarkastala, ætlar heimsækja okkur tvisvar í viku á næstunni og vera okkur til halds og trausts hvenær sem við þurfum við, hvort sem er að nóttu eða degi. Það er gott að eiga þetta góða fólk að, sem og okkar hlýlega og ljúfa lækni, Jakob Jóhannsson. Hið sama gildir um góða vini og ættingja sem hafa verið okkur innan handar síðastliðna viku við ýmis verk hér heima til þess að auka öryggi Míns heittelskaða þannig að hann geti varið sem mestum tíma á þriðju hæðinni og sem minnstum í snarbröttum kastalastigunum.

10 töflur að morgni, 1 miðdegis og 6 að kvöldi,
 2-3 aukreitis eftir þörfum yfir daginn. Guði sé lof fyrir lyfin
sem öll gera sitt gagn til að bæta líðaninaog draga úr
einkennum sjúkdómsins.
Þau eru fleiri en eitt og fleiri tvö sem hafa boðið fram aðstoð og sagt eins og hjálparhellurnar í ævintýrunum sem Jón Árnason safnaði um landið á þarsíðustu öld: ,,Nefndu mig á nafn ef þú þarft lítils við." Ég hef samt ekki mikla æfingu i að óska eftir hjálp annarra, hef eiginlega ekki hugmyndaflugið í að átta mig á í hverju hún gæti falist.

Eða kannski tímann til að velta því mikið fyrir mér á milli þess sem ég raða í pilluboxin, svara í símann, elda, geng frá, þvæ þvotta, sinni barni, unglingi og Mínum, svara í símann, giska á hvað Minn vildi sagt hafa og verð glöð þegar það tekst strax í annarri eða þriðju tilraun, tek til skólanesti og aðstoða við heimanám, hringi í hjartveika tengdó, les kvöldsögu, hleyp upp og niður stigana, kaupi inn, tek úr vél, vaska upp, fer í apótekið, leita að gleraugum, símanum, teppinu, sjálfri mér...

Veit samt að það er ábyggilega margt sem þið gætuð gert til að létta okkur lífið. Og það er þess vegna fer ég nú að ráðum góðrar konu sem fyrir fáum mánuðum stóð í sömu þungu sporunum og ég geri nú, og bið ykkur sem viljið og getið veitt lið í annríki daganna að láta ykkur detta sjálfum í hug hvað gæti gert okkur Mínum og börnunum gott og stinga hreinlega upp á því við mig. Ég mun ábyggilega þiggja það með hjartans þökk og þá ekki síður góðar hugsanir og bænir um æðruleysi og styrk.

Botna þennan pistil á góðum tíðindum í veraldlegum efnum, nefnilega því að stjórn Listamannalauna gladdi mig í vikunni með úthlutun starfslauna í sex mánuði úr Launasjóði rithöfunda auk jafngildi eins í ferðastyrk - sem ég var satt að segja búin að steingleyma að ég hefði sótt um -  til að kosta mig til ferðar um Katanes á Skotlandi á söguslóðir Auðar hinnar djúpúðgu. Fannst þegar ég sá póstinn sem heimurinn væri að minna mig rétt einu sinni enn á að það er aldrei allt mótdrægt í lífinu og svo margt sem kona má vera þakklát fyrir, ekki síst möguleikann á að sinna því gefandi starfi að skrifa sögur.

Megi Mátturinn vera með ykkur.

11 ummæli:

rakelsteinars sagði...

Þetta er vel mælt elsku Vilborg "Að halda í trúna á að við getum ráðið við það sem lífið færir okkur og ef ekki, þá sé Æðri máttur til staðar sem getur séð um það sem ekki er í okkar höndum". Hugur og bænir eru með ykkur, Rakel

Vísnabálkar sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Vísnabálkar sagði...

Elsku frænka.
Hugur minn er hjá ykkur í þessu stríði. Megi guð styrkja ykkur og styða. Hjartans kveðjur. Helga Bergsdóttir

Nafnlaus sagði...

Elsku hjartans Villa og Björgvin, hugur minn er hjá ykkur <3
Knúz frá Lóu frænku.

Nafnlaus sagði...

Kæra fólk, þið sem standið henni næst. Það er erfitt að standa hjá og finna fyrir vanmætti sínum. Ykkur finnst þið lítið geta gert. Af eigin reynslu veit ég að þrek aðstandenda er lítið og oft óljóst hvað drífur þá áfram. Bjóðist til að elda matinn eða koma með eldaðan mat fyrir fjölskylduna. Bjóðist til að koma og leysa fjölskylduna af í einn eða tvo klukkutíma á meðan þau fara út og anda að sér frísku loft. Bjóðist til að fara og versla eða veita þeim svigrúm til að fara út íbúð. Þetta eru viðvik sem geta gert kraftaverk í lífi aðstandenda. Það veit sá einn sem staðið hefur í þessum sporum.
Gangi ykkur vel

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Elsku Vilborg

Ég veit ekki hvað segja skal, er orða vant. En ég hugsa til ykkar.

Kolbrún Hlín sagði...

Kæru vinur,
mikið sem mig tekur sárt að lesa þessi orð eins og mörg orð þín hafa glatt mig Vilborg. Hugur okkar Bjössa er hjá ykkur og vonandi getum við veitt ykkur einhverja hjálp á næstunni. Knús og hlýjar kveðjur af Kambsveginum.

Nafnlaus sagði...

You will find strength, Vila, my sister. Just be with your beloved.
I think about you and Bjorgvin and send my love.
Always
Morag D.x

Eygló Traustadóttir sagði...

Les fallegu og fróðlegu pistlana þína og sendi hlýjar hugsanir til ykkar.

Nafnlaus sagði...

Ég hugsa til ykkar og vona mér sé að takast að senda ykkur stuðning og hlýju elsku hjón. Anna Sigga.

Bára Waag Rúnarsdóttir sagði...

Kæra Fjölskylda

Ég fæ alltaf sting i hjarta þegar ég heyri og les um krabbamein, Sjálf missti ég 13 ára son frumburðinn minn úr heilaæxli eftir 15 mánaða baráttu, hver stund er dýrmæt og alveg ómetanlegt að geta verið heima. Megi guð styrkja ykkur og styða.
Kveðja Bára Waag Rúnarsdóttir