Líf í árvekni: En er það hræðilegt, mamma?

fimmtudagur, 10. janúar 2013

En er það hræðilegt, mamma?

,,Mér finnst svo leiðinlegt að ég skil ekki það sem pabbi segir," sagði Skottan á mánudagskvöldið þegar við vorum búnar að koma okkur fyrir í bólinu og ég var í þann veginn að hefja kvöldlesturinn um ævintýri galdrastráksins Harry Potter. ,,Hann er alltaf að segja eitthvað vitlaust. Áðan sagði hann að klukkan væri hálftvö þegar hún var sjö! Og svo segir hann oft ,,Villa" við mig. Og hann kallar Ísold alltaf vinkonuna í rauða húsinu!"

,,Já, ég skil vel að þér leiðist það," svaraði ég. ,,Þú skalt ekkert taka neitt mark á því sem hann segir þér um klukkuna í bili því að hann kann ekki á hana núna út af heilaæxlinu. Það truflar hann meira núna af því að geislarnir í geislastríðinu voru svo sterkir að það fór að koma vatn í æxlið og þá ýtir það meira á heilann. Og þá ruglast allar hugsanirnar í heilanum og orðin týnast og gleymast og hann kann ekki lengur að segja hvað klukkan er. Og það er líka í lagi þótt hann segi einhverja vitleysu um klukkuna því þú kannt næstum alveg sjálf á hana núna." 
Skottan og ,,vinkonan í rauða húsinu" skoða lífið oft frá
öðrum og skemmtilegri - og skynsamlegri - sjónarhóli en við hin. 

Hún sperrti brúnir, hissa. ,,Kom vatn í heilaæxlið?"
,,Já, og þá verður það þyngra. Þú veist hvað svampurinn sem við notum á krítartöfluna í eldhúsinu er léttur þegar hann er þurr?"
,,Já."
,,En þegar við dýfum honum í vatn, hvað gerist þá?" 
Litlar ljóstírur kviknuðu í augunum og hún brosti út að eyrum þegar hún skildi hvað ég átti við. ,,Þá verður hann rosa þungur!"
,,Einmitt. Og það er út af því sem pabbi þarf að taka allar töflurnar, til að losna við vatnið úr æxlinu og það getur tekið dálítið langan tíma. En æxlið er samt ekkert að stækka, geislastríðið stoppaði það allt saman, heldur þarf vatnið bara að fara burt og þá lagast hann smám saman."

Hún þagði eitt andartak og bar síðan upp nýja spurningu, röddin blandin ótta og kvíða: ,,En er það hræðilegt, mamma?"

Ég hristi höfuðið hægt. ,,Nei, það er ekki hræðilegt. En það er auðvitað leiðinlegt, bæði fyrir pabba og okkur, því að við eigum stundum erfitt með að skilja hvert annað og hann á erfitt með að segja það sem hann langar til að segja. Þannig að við verðum öll að vera þolinmóð því þetta tekur kannski langan tíma að lagast." 

Hún kinkaði kolli, var greinilega létt. Þegar ég byrjaði að endurtaka skýringarnar, svona til að árétta að pabbi væri ekki veikari en áður þótt hann væri farinn að ruglast enn meira í ríminu við að tala þá greip hún fram í ákveðin í bragði: ,,Nú ert þú að drepa tímann sem við höfum til að lesa Harry Potter!" 

Og þar með var málið útrætt, í bili að minnsta kosti, og galdrastrákurinn fékk sviðið.

Daginn eftir rifjaði hún orðaskipti okkar þó upp og bað um að fá að skoða litla, bleika svampinn sem ég hef til að þurrka af eldhústöflunni. Og velti fyrir sér hvort æxlið væri jafnstórt en ég fullvissaði hana um að svo væri ekki og sýndi henni um 2.5 sentímetra bil af svampinum. ,,Það er sirka svona stórt."
,,Það er nú samt dáldið stórt," sagði hún. Og ég lét ógert að nefna að eldra heilaæxlið, sem skorið var burt að hálfu árið 2007, var upprunalega tæpir 8 sentimetrar á langveginn, rúmir 4 þversum og á þykkt. Þess í stað vigtuðum við svampinn á eldhúsvoginni og komumst að því að hann var 10 grömm þurr og eftir að hafa verið dýft í vatn heil 92 grömm. Kreistum svo vatnið úr og hlógum að því hvað það væri gott ef við gætum farið svona með drekaskömmina. 


Ég hef oft leitt hugann aftur að þessari mikilvægu spurningu: ,,En er það hræðilegt, mamma?" Og dáist með sjálfri mér að því að Skottan, átta ára gömul, skyldi ekki ákveða strax að erfiðleikarnir vegna veikindanna væru hræðilegir heldur spyrja að því. Hversu oft höfum við, hin fullorðnu og ,,þroskuðu", ekki sjálf einmitt kallað yfir okkur vanlíðan og hræðslu með því að dæsa með sjálfum okkur um hversu ástandið sé hræðilegt? Í stað þess að horfa á stöðuna eins og hún er á raunsæjan hátt og láta helst ógert með öllu að fella um hana skelfingardóm. Sleppa stimplinum sem kallar fram bæði streitu og vanlíðan og kvíða. Væri ekki lífið miklu einfaldara ef við gætum tekið þetta skref til baka frá því sem við blasir og velt því ögn fyrir okkur hvað sé á seyði í raun og veru áður en við ákveðum að hræða okkur sjálf? Áður en hugurinn stekkur í ósjálfráða gírinn og endurtekur eins og páfagaukur: ,,Hræðilegt! Hræðilegt!"

Staðan hér í Hallveigarkastalanum er ekki hræðileg þessa dagana en víst er hún erfið, því verður ekki neitað. Þreytan og svefnsýkin hjá Mínum heittelskaða hefur vaxið talsvert ört síðustu daga og sömuleiðis málstolið, skilningur orðinn minni og jafnvægið svo slæmt að tvisvar eða þrisvar hefur hann hrasað og dottið á gólfið, án þess þó að slasa sig, til allrar hamingju. Við höfum gert okkur að reglu að vinna gegn vöðvarýrnuninni sem stafar af sterunum, einkum í ganglimunum, með því að fara í stutta gönguferð daglega á meðan birtu nýtur, svo fremi sem rigning og rok - og orkukvótinn - leyfa. Röltum okkur upp á miðjan Skólavörðustíg eða upp að kirkju og niður eftir aftur, eða í einhverja af bókabúðunum þremur eða fjórum sem eru í hverfinu okkar, lítum kannski í bolla hjá Kaffitári. Göngum ósköp rólega, nikkum til kunningja, öndum að okkur dagsbirtunni. Í gær og í dag urðum við þó að fella labbið niður, orkan dugar rétt í að ganga hér upp og niður stiga og á milli herbergja.

Yðar einlæg, rétt komin úr búðarferð, mynduð af
 Skottunni, eins og sjá má af sjónarhorninu.
Þannig að mér sýnist einboðið að doktor Jakob muni þegar við hittumst á morgun, fimmtudag, hækka aftur steraskammtinn sem hann lækkaði fyrir viku. Því þrátt fyrir bévítans aukaverkanirnar þá halda sterarnir þó niðri heilabjúgnum. Uppi í slopperminni er okkar ágæti læknir nú með nýtt lyf handa Mínum, sem heitir Avastin, sem á að reyna næst og sjá hvort kemur ekki að gagni. Þetta er svokallað æðahemjandi lyf, þ.e. það dregur úr nýæðamyndun og á þannig að draga úr blóðflæði til æxlanna og hafa  áhrif á vöxt þeirra. Það dregur einnig úr gegndræpi æðanna sem æxlin framleiða og á að draga þannig úr bjúg og bólgu. 

Læt frá mér heyra næst þegar eitthvað frekar ber til titla og til tíðinda í ævintýrinu okkar í Hallveigarkastala. 
Þangað til, megi Mátturinn vera með ykkur. 

PS
Hér í lokin er orðsending til þeirra meðal ykkar sem standa tengdamóður minni næst: Gamla konan var lögð inn á Landspítalann síðdegis í dag, miðvikudag, eftir byltu heima í morgun. Er ómeidd en mun verða þar í einhverja daga í aðhlynningu á lungnadeild (A-6) vegna hjartabilunar sem hefur valdið vökvasöfnun í lungum. Vænt þætti okkur um ef þið, elskulegu frænkur og frændur, gætuð heimsótt hana þangað og glatt með góðri og styrkjandi nærveru eftir því sem annríki daganna leyfir. Hún er ,,ekki bráðveik" eins og læknirinn í Fossvogi orðaði það í kvöld en þarf að fá lyfjagjöf við hæfi til að jafna sig. Streita vegna veikinda sonarins hefur eflaust haft sitt að segja fyrir heilsuna þannig að gott væri að efla með henni vonina og jákvæðnina, sem henni er nú annars af Guði gefin í brjóst alla jafna, og minna hana á björtu hliðarnar í lífinu. 
-V.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa, takk fyrir þetta, gott að fá að fylgjast með. Þið eruð í hug mér og hjarta <3 Ég átti að skila kveðju frá Lillian í Ástralíu til Sigrúnar eldri.
Knús,
Elín Lóa og co.

Nafnlaus sagði...

Hi, Vila...manged to get a translation of this blog and it has given me an idea of how things are for you on a daily basis. You amaze me with your explanations to Sigrun. It's great that you can be so direct and honest with one another. Translation was a bit muddled at the end but I think it meant that Bjorvins Mum is in hospital after a fall. I hope she makes a good and speedy recovery.
Take care.. all of you,
love
Morag D.x