Minn
heittelskaði lifir nú sína hinstu daga. ,,Þannig er þetta bara," sagði
hann sjálfur á þriðjudagskvöldið fyrir tveimur vikum þegar ég sagði honum að
læknirinn hefði sagt að sjúkdómurinn væri að ágerast hratt og nú væri ekki
mjög langur tími til stefnu. Við vitum ekki hve margar vikurnar verða sem við fáum
enn að eiga saman; enginn veit sína dánarstund, hvorki ég né þú. Hver dagur er
dýrmætur sem aldrei fyrr; hvert bros og blíðuhót og hvert orð mælt af skilningi mikilsverð gjöf.
Björgvin
hefur átt erfitt með að tjá sig undanfarnar vikur en þær síðustu tvær hefur orðunum fækkað enn örar og nú er svo komið að
hann getur aðeins látið veikróma í ljós að hann óski eftir einhverju sem ég átta mig á
hvað er með því að spyrja einfaldra spurninga sem hægt er að svara
játandi eða neitandi. Inn á milli koma þó stuttar og skýrar setningar sem bera því vitni að skilningurinn er enn til staðar og hugurinn starfar.
Síðustu vikuna hefur Minn alveg verið bundinn við rúmið en kemst þó með stuðningi inn í
nálæg herbergi á þriðju hæðinni. Við höfum flutt þægilegasta hægindastólinn okkar upp úr stofunni
og inn á skrifstofuna mína á sömu hæð og af og til sest hann þar um stund og hlustar á tónlist sem hann setti inn á lítinn spilara í haust. Vökustundunum fækkar óðum og síðustu tíu
daga hafa þær verið á bilinu 4-6 á sólarhring og sjaldan samfelldar því hann þreytist
fljótt og dottar eftir stutta vöku. Matarlystin er mun minni en áður og áhuginn á öllu því sem er ytra dvínar jafnt og þétt.
,,Skynjunin
er alltaf að minnka,“ sagði hann furðuskýrt við mig fyrir fáum dögum og hafði þá ekki sagt
svo langa setningu um talsverðan tíma. Hann er smám saman að sætta sig við að
hann verður að halda sig á þriðju hæðinni því að stigarnir okkar eru
snarbrattir og hann stendur varla undir sjálfum sér. En það er erfitt og að
undanförnu hefur hann verið eirðarlaus, fundist hann þurfa að fara eitthvert,
stendur upp og leitar í skápnum að fötum, finnur til litla tösku, kemur fram á
gang, finnst að það sé ,,best að leggja í hann“. Þegar ég spurði hann í gærkvöldi um miðnæturbilið hvert förinni væri
heitið svaraði hann dálítið undrandi og umkomulaus: ,,Ég hélt að við værum að fara eitthvað.“ Og ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki einmitt þannig að hann sé
að undirbúa langferðina miklu sem við eigum öll fyrir höndum á endanum. Hver er
ekki eirðarlaus áður en farið er í ferðalag?
Frekari
krabbameinslyfjameðferð hefur verið hætt að ósk Björgvins, enda skilar hún ekki neinum árangri. Lyfjagjöfin sem hann fær núna miðast öll að því að halda niðri sjúkdómseinkennum eins og flogum og höfuðverkjum og gera líðan hans eins góða og í
mannlegu valdi stendur. Þau hrífa til þess sem þau eru ætluð og fyrir það er ég óendanlega þakkát að Minn
heittelskaði er ekki með neinar líkamlegar kvalir, hvorki höfuðverki né ógleði.
Hjúkrunarfólk sem geislar af hlýju og umhyggju kemur til okkar á hverjum degi frá Heimahlynningu
líknardeildar LSH og þau má ég kalla til hjálpar hvenær sem er, að nóttu eða degi. Vinir og ættingjar hafa líka komið til aðstoðar hver af öðrum, fært okkur eldaðan mat og skotist í búð eftir þörfum sem er svo óskaplega gott því þá þarf ég ekki að verja dýrmætum tímanum í þess háttar þegar bæði Minn heittelskaði og börnin þarfnast mín mest.
Þá hafa þrír nánir vinir Björgvins nú sett saman vaktaskipulag þannig að þeir koma á víxl í Hallveigarkastala í eina til tvær klukkustundir síðdegis hvern dag þannig að ég hef tækifæri til að komast út undir bert loft, fara á kaffihús og hitta vinkonu, líta við í Hallgrímskirkju og vera ein með sjálfri mér og Guði eða fara í nudd og slökun. Ég hef dubbað þá vinina upp sem Skytturnar þrjár enda annast þeir nú þá fjórðu, hinn hugrakka D'Artagnan, undir kjörorðunum fallegu: Un pour tous, tous pour un - Einn fyrir alla, allir fyrir einn.
Fyrir þessa góðu hjálp getur Björgvin verið hér heima allt til loka lífs síns, á eigin heimili, umvafinn hlýju og kærleika fólksins sem hann elskar og elskar hann. Skottan okkar fær að njóta samvista við hann og um leið frelsi til að halda eigin daglegu venjum, sækja skólann og leika sér við vinkonurnar en getur skotist inn í svefnherbergi til pabba inn á milli og bunað út úr sér því helsta sem á daginn hennar hefur drifið, sýnt honum myndina sem hún teiknaði í dag, sent honum fingurkoss og kallað ,,Sjáumst!" áður en hún skottast niður stigann aftur. Og ég þarf ekki að skipta tíma mínum á milli sjúkrahúss og heimilis, með áhyggjur af öðru þeirra á meðan ég sinni hinu.
Þannig verður þessi sára reynsla átta ára dóttur okkar kannski lítið eitt auðveldari en ella og hún lærir, eins og við öll verðum að gera, að þrátt fyrir allt þá er dauðinn óaðskiljanlegur hluti af lífinu. Í hverfulleika lífsins, í staðreyndinni að það tekur enda, er ást okkar á lífinu falin, segir kanadíski líknarráðgjafinn Stephen Jenkinson og því er ég af hjarta sammála. Í heimildamynd um þennan merka mann bendir hann meðal annars á hversu einkennilegt það er að þetta eina sem við eigum örugglega öll fyrir höndum á endanum, það að deyja, er aldrei til umræðu. Hvergi í menntakerfinu erum við nokkru sinni frædd um dauðann. Á honum hvílir bannhelgi. Engu er líkara en við höldum að á meðan við nefnum dauðann aldrei á nafn getum við haldið honum frá okkur sjálfum og okkar nánustu. Og á meðan svo er, hvernig getum við þá búið okkur undir hann og lært hvernig má deyja vel?
Við tökum þetta samt bara einn dag í einu, hér eftir sem hingað til, og breytist staðan þannig að Minn þurfi meiri aðhlynningu en ég get veitt honum hér heima í kastalanum þá getur hann lagst inn á Líknardeildina í Kópavogi. Við ræddum um þann möguleika fyrir tveimur vikum þegar hann hafði enn málið og um það sagði Minn einfaldlega: ,,Ef ég þarf að leggjast inn, þá leggst ég inn."
Á
fimmtudag stóð til að við fengjum aðstoð Heimahlynningarinnar til þess að
Björgvin gæti farið í Kópavog til aldraðrar móður sinnar og kvatt hana en hún er
hjartveik og of fótalúin til þess að komast upp stigana okkar bröttu. Því miður þá
treysti hann sér ekki þann dag til að standa í fæturna og mókti að mestu allan daginn, tjáningin ógreinileg og óskiljanleg. Við töldum því ólíklegt að af
ferðinni yrði úr þessu þar sem afturförin hefur verið stöðug á hverjum degi
síðustu vikur. Í gær, laugardag, gerðist hins vegar nokkuð óvænt. Minn vaknaði um
hálfellefu óvenjuskýr í hugsun og tali og styrkurinn umtalsvert meiri en verið
hefur í meira en viku. Því varð úr að við lögðum í hann með góðri aðstoð einnar
af Skyttunum þremur sem renndi hjólastólnum yfir hindranir á leið út í bíl sem alvanur maður væri. ,,Það kom að því að þessar þrjár annir í Hjúkrunarskólanum kæmu að gagni,“ sagði Gummi kíminn.
Minn heittelskaði átti ljúfa stund með móður sinni og eldri bróður í stofunni þeirra í
Hamraborginni. Við drukkum kaffi, borðuðum köku frá hugulsamri frænku og fundum öll glöggt kærleikann og þakklætið í brjóstinu fyrir að Björgvin hefur verið hluti af lífi okkar. Gamlar minningar voru rifjaðar upp og bros birtist á vörum við endurminninguna um 25 ára afmæli hans á æskuheimilinu þegar heil hljómsveit spilaði fyrir vinahópinn og Minn lék með á munnhörpuna.
Kvöldið sem við töluðum um að nú myndi hann brátt deyja bar á góma þá staðreynd að Minn er ekki trúaður maður en við höfum ávallt verið sammála um að ég sæi um þann geira fyrir okkar beggja hönd. Ég rifjaði þá upp að mér þætti það merkilegt að hann skyldi ekki trúa á Guð en hefði þó sjálfur eitt sinn sagt mér frá mikilli og vandaðri vísindarannsókn sem sannaði svo ekki var um að villast að fyrirbænir hafa áhrif til góðs fyrir sjúka. Og það meira að segja aftur í tímann. Hann sagði þá með áhersluþunga: ,,Það er svo margt sem við skiljum ekki."
Ég er sannfærð um að það var fyrir bænir, kærleika og góðar hugsanir ykkar þarna úti sem Björgvin tókst í gær að hafa kraftinn sem til þurfti til að komast í Kópavoginn til að kveðja móður sína. Orkan var reyndar slík að hann borðaði kvöldmat með okkur í borðstofunni í fyrsta sinn í viku og naut þeirrar ánægju að tengdasonur okkar, sem var á leið að syngja á þorrablóti, tók fyrir okkur lagið If I were a Rich Man úr Fiðlaranum á þakinu. Brosið sem lék um varir míns á meðan við - og nágrannarnir- hlýddum á mikla baritónröddina hans Steina okkar var enn ein dýrmæta gjöfin þennan ljúfsára dag.
Hlýhugurinn sem birtist í góðum kveðjum ykkar, nýja pottablóminu á eldhúsborðinu, stóru bóka- og gjafakörfunni frá Forlagsfólki, snúðum, múffum, pönnukökum og elduðum mat, boði um nudd fyrir mig - allt er þetta svo óendanlega gott að fá.
Hafið öll kæra þökk okkar fyrir.
P.S. Og einnig þakklæti Hallveigar Fróðadóttur, kisu og kastalafrúar, sem kúrir nú hæstánægð í tágakörfunni frá Forlaginu :) Þið sem lítið við: Munið að greiða henni klapptollinn.
47 ummæli:
Faðmlag frá mér til þín Villa mín.
Anna Þóra
Elsku Vilborg, mig skortir orð til að lýsa þeim tilfinningum og hugsunum sem bærast með mér eftir lestur þessarar fallegu færslu. Ég hugsa hins vegar til ykkar allra og vona að óskir mínar um styrk og þolgæði skili einhverju.
Kær kveðja,
Steingerður Steinarsdóttir
Sæl Vilborg og þakka þér þessa færslu. Þú færir í orð tilfinningar og hugrenningar sem snerta djúpt. Bestu kveðjur til þín og þinna.
Páll
Elsu Villa, þakka þér fyrir að leifa okkur að fylgjast með, það er ómetanlegt. Þið Björgvin eru í hug með og hjarta, ég sendi ykkur allar mínar bestu kveðjur og þið eruð í bænum mínum elskan mín. Ég vildi óska að það væri eitthvað sem ég gæti gert- Dauðinn er hluti af lífinu og samt er svo sjaldan talað um hann, takk fyrir að tala um hann- takk fyrir að brjóta þögnina sem umlykur þetta tabú samfélagsins.
Þín Lóa
guð gefi þér enn meiri styrk,égþakka þér fyrir að leyfa okkur að muna að ekkert er sjálfsagt og við eða ástvinir okkar erum ekki eilíf,ég bið fyrir léttri heimkomu hins hugprúða riddara,kv,Margrét Bára Jósefsdóttir
Kæra Vilborg, takk fyrir sára en fallega lesningu sem snertir mig djúpt. Hjartans kveðjur til þín og þinna í kastalann þinn.
Kæra kveðja
Margrét Halldórsdóttir
Þú ert einstök, kæra frænka. Ég sendi þér og þínum mínar allra bestu óskir um styrk og kærleika ykkur til handa.
Mín kæra, kæra. Sendi þér hlýjasta faðmlag í heimi, sól og yl og yndi.
Þín ValgerðurB.
Kæra Vilborg takk fyrir að leyfa mér að fylgjst með baráttu Björgvins en hann var skólabróðir, jafnaldri og "strákurinn" í næsta húsi. Við lékum sama í þá gömlu góðu daga og margar góðar minningarnar um þá daga með krökkunum í hverfinu. Ég sendi.þér og Björgvini kærleikskveðju og ljós og birtu í baráttunni.
Kær kveðja Líney ( sem bjó á Digranesveginum)
Elsku Villa, þú skrifar svo fallega og af miklum styrk og yfirvegun, guð gefi ykkur styrk til að komast yfir þann erfiða tíma, sem fram undan er. Mun hugsa sterkt til ykkar og senda alla mína verndarengla ykkur til aðstoðar og snúllunni ykkar :-)
Kæra vinkona
Þó staðan sé sorglegri en tárum taki þá dáist ég að einlægni þinni og æðruleysi. Og alltaf heldur þú áfram að kenna okkur og fræða, ég er ekki viss um að þú vitir hvað þú hjálpar og hreyfir við mörgum með þessu bloggi.
Sendi þér knús og kaffi
þva M
Takk fyrir þín ljúfsáru skrif. Kveðja frá AÁG, ég mun senda góðar bænir til ykkar allra.
Við sendum okkar hlýjustu kveðjur til þín og fjölskyldunnar á þessum erfiðu tímum.
Magga og Arnar
Sendi ykkur öllum hlýjar kveðjur, fyrirbænir og óskir um styrk í erfiðleikunum.
Myndin af þeim bræðrum gleður mitt hjarta, ég hef lengi þekkt Jónas. Hugur minn leitar sífellt til ykkar kæra Villa.
Ragnheiður
Elsku Villa.
Takk, takk og meiri þakkir fyrir þín frábæru skrif. Þú veist ekki hvað þetta er óendanlega mikil hjálp fyrir aðra. Í kastalanum þínum er líka kvenkyns riddari, hugprúðari en aðrir riddarar og réttsýnni en aðrir. Skrif þín af virðingu og kærleik .....svoleiðis geta bara stórar menneskjur skrifað.
Allar fallegustu hugsanir til þín og óskir um fallega brottför Þíns og heimkomu hans til þess næsta, hvað sem það er.
Drífa
Knús á ykkur.
Bjössi bróðir.
Elsku Villa,
Kærleikurinn ykkar er
svo ljós og máttugur
að hann lýsir upp
Borgina, Kastalann
og leiðina heim.
Veran umvefur ykkur öll.
Raggan.
Hugsa mikid til ykkar alla leid frá Svíthjód!
Kærar kvedjur / Erica
Hjartans þakkir fyrir að deila þessu með okkur og gefa þannig dýrmæta innsýn í veruleika sem sjaldan er rætt um, kæra Vilborg. Mikill er styrkur þinn og æðruleysi við sorglegar aðstæður.
Með ósk um innilegar og dýrmnætar stundir saman, hlýjar kveðjur,
Kristín S. Bjarnadóttir
Heimahlynningu á Akureyri
Sæl Villa.
Hugsa til þín.
Megi góður guð styrkja þig og fjölskyldu þína.
Kveðja, Kristinn Jónasson
Sæl Vilborg;
ég er ein af mörgum sem hef fylgst með skrifum þínum undanfarið og dáðst að þeim styrk sem þú hefur sýnt. Ég þakka þér mikilvæga umfjöllun og fyrir að deila hugsunum þínum með okkur. Sendi þér og fjölskyldunni þinni bestu óskir og kærar kveðjur,
Bergþóra Valsdóttir
Ég samhryggist ykkur innilega. Megi guð veita ykkur styrk og megi dagarnir verða ykkur góðir.
Mig langar að koma fram nafnlusum skilaboðum til ykkar en ég þekki til sjálf til og veit um fólk sem hefur ekki átt neitt eftir nema að kveðja.
En það virðist vera þegar ekkert dugar við meininuði lengur þá virðst eitthvernveginn eins og "Lúpínuseyði" sem fæst í Heilsuhúsinu geti hjálpað fólki og vel þess virði, sama hver staðan er að reyna það.
Það er líka hægt að fræðast og lesa reynslusögur á Faceboo..
Elskurnar, gangi ykkur í alla staði vel
Elsku Vilborg
Takk fyrir að deila þinni djúpu visku og djúpu sorg með okkur hinum sem óttumst að setja orð á það sem sjaldnast er talað og skrifað um.
Takk fyrir að gefa okkur hinum þroskaða og eftirbreytniverða lífssýn, en ekki síður þroskaða sýn á endalok lífsins, sem er eins og þú segir hluti af lífinu sjálfu. Skrif þín og ást á eiginmanni snerta mig djúpt og hugur minn er hjá ykkur fjölskyldunni.
Megi brottför Björgvins af þessu tilverustigi verða friðsæl og fögur. Guð styrki þig og þína Villa mín.
Erna Arnardóttir
Ég hugsa til ykkar. Síðasta blogg var góð lesning og rifjar upp minningar.
Kveðja Friðgerður Guðmundsdóttir
Bata kveðjur frá gömlum nemanda hans Björgvin í iðnskólanum. Hann var mér frábær kennari.
Ólafur Loftsson
Guð blessi þig og fjölskylduna þína.
Góð kveðja,
Ómar
Guð blessi ykkur elsku fjölskylda og styrki.
Kveðja,
Þórdís
Ég las færsluna tvisvar sinnum - í fyrra skiptið í hljóði, en í það síðara fyrir manninn minn. Í bæði skiptin varð ég afskaplega sorgmædd yfir því, sem þið fjölskyldan gangið í gegnum. Hins vegar varð ég líka svo glöð yfir allri ástinni sem þið eigið, vinunum og fallegu gleðinni (þrátt fyrir allt).
Megi næstu dagar verða ykkur sem bestir - og góður Guð vera styrkur.
Kær kveðja,
Herdís
Takk fyrir að tala um þetta. Hef nýlega gengið í gegnum svipað með nákomnum aðila og tengi sterkt við þína fallegu frásögn af erfiðum tíma.
Sendi mínar hlýjustu hugsanir til ykkar og vona að síðustu dagarnir verði ljúfir og endalokin ekki of sár. Það kemur að því að dauðinn einn getur veitt líkn.
kveðjur Inga
Guð geymi ykkur öll
Þegar ég las þessa fallegu færslu þína Vilborg óskaði ég mér þess að vera sá maður orðsins sem allt getur bætt. Því miður er ég það ekki en aðstæðurnar kölluðu fram mynd sem ég tengdi við orð þín.
Rósirnar þrjár eftir Snorra Hjartarson
Upp um múrinn vaxa rósir
rauðar og bleikar
rammgert hliðið er læst
yfir glóa turnar við sól
milli skógar og lágra skýa
því opnast ekki hliðið
hljóma ekki básúnur og strengir
hann hlustar lotinn
allt er hljótt allt er kyrrt
dregur sverð sitt úr slíðrum
slöngvar því yfir múrinn
einum draumi hef ég lifað
draumur líf farið vel
og les þrjár rósir
eina rauða tvær bleikar
og hverfur til skógar
býr sér hvílu í hrundu laufi
rósin rauða við hjarta
rósirnar bleiku í hendi
riddari rósanna þriggja
Sigurður Jónsson
Knús til ykkar duglega fólk!
Þessa stöðu þekki ég allt of vel.
Gékk í gegnum þetta allt saman með mömmu sem kvaddi í júlí 2012 eftir harða baráttu við krabbamein í heila. Tveggja ára barátta þar sem hún hélt ótrauð áfram göngu sinni þrátt fyrir mikil veikindi og miklar lyfjameðferðir. Hetja, er orðið sem ég nota fyrir hana.
Ég verð að eilífu þakklát fyrir að hafa verið hjá henni og haldið í hönd hennar þegar hún fór. Og þó sorgin hafi verið og sé enn að því er virðist óyfirstíganleg þá finn ég mikinn létti því nú finnur hún ekki lengur til.
Mamma var orðin alveg ósjálfbjarga og gat ekki tjáð sig í restina. Hún gafst aldrei upp, heldur barðist fram að síðasta andardrætti.
Ég efast ekki um að Þinn viti að hann hefur alla þá ást og umhyggju sem hægt er að fá í þeim aðstæðum sem hann óviljandi hefur komist í.
Vona að þú og ástvinir ykkar komist klakklaust í gegnum sorgina og getið leyft Þínum að lifa með ykkur í minningunni.
Kossar og knús, sendi ykkur allan þann styrk sem hélt mér og mínum gangandi fyrir tæpu ári síðan.
Jóhanna
Kæra Villa.
Einlæg frásögn þín gefur okkur innsýn í þá erfiðu raun sem þið fjölskyldan gangið nú í gegn um. Maður fær ekki tára bundist við lesturinn því þú kannt svo vel að koma tilfinningum þínum í orð. Guð styrki þig og þína Villa mín.
Hulda G.
Í minningu konu minnar, Bjargar Ólafar, bið ég fyrir styrk til ykkar á þeim tímum sem framundan eru.
Kveðja, Ragnar Óskarsson
Þakka þér fyrir þessa grein sem kemur frá hjarta þinu til hjarta míns.
Við hjónin vorum í þessum sporum fyrir nokkrum árum . Páll minn kvaddi okkur í maí 2006.eftir erfiða baráttu .
Vilborg allt sem þú skrifar þekki ég og þegar ég sagði börnunum okkar að þakka fyrir að dauðinn væri líkn fyrir pabba þeirra eins og var á sínum tíma fyrir systur þeirra þá breyttist viðhorf þeirra til þess óumflýjanlega. Sendi þér og þínum hjartans kveðjur .Edda
Ofsalega fallegt blogg hjá þér Vilborg. Man eftir að hafa heimsótt í denn með mömmu (Öldu Sigmunds) og borðað marsipan held ég.
Blessi ykkur öll og vona að þið hafið það gott þessar síðustu en mikilvægu stundir.
Aldís Amah Hamilton
Þið hafið alla mína samúð. Ég sjálfur hef misst maka minn úr Heilakrabba. Það tók hana aðeins rúma tvo mánuði að klára þetta.
Þannig að ég skil þig vel og sendi þér baráttuknús.
Bestu kveðjur til ykkar. Hugurinn er með ykkur.
Bið innilega að heilsa Bjögga.
Mummi (úr rafeindavirkjuninni í gamla daga)
Kæra Vilborg.
- hér heima eru bækurnar þínar kennslubækur, fræðsluefni og bókmenntir. Æðruleysi þitt er áðdáunarvert. Megi góður Guð styrkjar fjölskylduna og leiðbeina til sátta við lífið og dauðann. Hugheilar kveðjur. kv bjarni dagur
Kæra Vilborg, einlæg og fögur skrif þín um óumflýjanlega staðreynd lífsins snertu hjarta mitt. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt eða orðið vitni að eins yndislegri framkvæmd á einum af erfiðustu verkefnum lífsins. Við Björgvin vorum samnemendur í framhaldsnámi í sálfræði við Háskóla Íslands og áttum þar ásamt öðrum samnemendum okkar margar frábærar stundir.
Ég anda að mér og sé ykkur fjölskylduna.... ég anda frá mér og sendi ykkur stórt knús.
Kær kveðja Pálína Erna Ásgeirsdóttir
Til ykkar sem standið í sporum sem við hin hræðumst,
Það er undarlegt hvað við erum hrædd við að ræða dauðann eins og við getum flúið þá staðreynd að hann nær okkur öllum á endanum. Hvað er dýrmætara en fá að fara með þá í kringum sem gefa af slíkum kærleika og alúð eins og þú lýsir Vilborg. Þá þurfum við ekki að hræðast það að vakna til eilífs lífs. Megi allir góðir vættir fylgja ykkur. Fylgja þínum heittelskaða í sína hinstu för. Megi góður guð gefa ykkur styrk.
Takk fyrir að skrifa til okkar af einlægni og frá hjartanu.
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Bestu og hlýjustu kveðjur til ykkar. Skrif þín snerta djúpt.
Embla Ýr (mamma Úlfs, bekkjarbróður Sigrúnar Uglu)
Risa, risa stórt knús á ykkur öll.
KVeðja Elín Svava Elíasdóttir frænka Björgvins(Sigrúnar)
Kæra Vilborg
vinkona mín sendi mér linkinn að fréttinni á Pressunni, en við höfðum verið saman í tíma hjá Björgvin haustið 2011. Ég hélt mikið upp á Björgvin og lagði mig fram við að standa mig vel í tímanum hjá honum, því ef maður skoraði hæst á prófi lét hann allan bekkinn klappa fyrir manni! Mér fannst gaman að sjá The Three Musketeers tilvitnunina hjá þér, því það minnir mig á fyndið atvik þegar Björgvin dró upp úr töskunni sinni sjónvarps- eða útvarpsloftnet, og sveiflaði því eins og sverði og byrjaði svo kennslustundina eins og ekkert hefði í skorist. Ég á ekkert nema góðar minningar af Björgvin og ég sendi ykkur báðum baráttukveðjur og vil að þið vitið að Björgvin opnaði augu mín fyrir sálfræðinámi og kem ég til með að hefja nám í sálfræði við HÍ í haust. Björgvin er frábær kennari og yndisleg manneskja og ég veit að þú sjálft ert ótrúlega sterkur einstaklingur.
Hjartans kveðjur
Fjóla Kristín
Kæra Vilborg
Við misstum dóttur/stjúpdóttur/systir okkar úr krabbameini í haust. Við vitum hvað þú gengur í gegnum þessa dagana. Yngsta dóttir okkar er 10 ára og tók þessu þannig að hún skyldi ekki afhverju hún ætti að vera sorgmædd þó að systir hennar væri að deyja, því að sjálf hefði hún systur sína alltaf í hjarta sér. En fljótlega eftir andlátið kom hræðslan þar sem hún hélt að krabbamein væri smitandi eins og kvef og hún var hrædd um að missa okkur foreldra sína. Gangi þér og þínum vel í gegnum þessa erfiðu reynslu. Þakka þér fyrir að vera svona opin og hjálpa við að dauðinn verði ekki tabú.
Bestu kveðjur til ykkar allra
Skrifa ummæli