Líf í árvekni: Með hækkandi sól

laugardagur, 22. desember 2012

Með hækkandi sól

Það er búið að standa til þó nokkuð lengi að kona gæfi sér tíma til þess að skrifa nokkrar línur um lífið hér á drekasambýlinu í Hallveigarkastala. En ég veit að þið skiljið af Fésbókarfærslum - og þá ekki síst sjálfhverfum deilingum tengdum ónefndri skáldsögu - að það er búið að vera í mörgu að snúast og eitt og annað þarflegt þurft að sitja á hakanum. (Hvaða haki er það annars sem átt er við í þessu orðatiltæki?)

Nú er komið fram yfir miðnætti dagsins sem átti að vera sá hinsti hér á jörðu og til allrar hamingju erum við nú öll hér enn og ekki nóg með það heldur fer nú daginn að lengja á ný og myrkrið að hörfa. Og þótt ég hafi steingleymt að mæta á tvenna jólatónleika í vikunni sem ég var búin að lofa sjálfri mér og öðrum að ég myndi sækja (fyrirgefðu Katrín og félagar í Háskólakórnum) þá er ég þó búin að lifa það að af að fara í Kringluna í fjögurra tíma verslunarferð í dag og ljúka við nær öll innkaup. ,,Og hvenær á ég svo að hafa tíma til að pakka inn öllum þessum gjöfum?" spurði ég sjálfa mig í hálfum hljóðum þegar við Skottan komum heim í kvöld og það stóð ekki á svarinu hjá henni: ,,Bara í nótt!" En sem betur fer þá er messa hins sæla Þorláks enn í 24 stunda fjarlægð og ekki lengi verið að skvera af nokkrum slaufuhnýtingum.

En þá er nóg sagt af mér, býst við að þið hafið meiri áhuga á að frétta af Mínum heittelskaða. Þegar geislameðferð og samhliða lyfjameðferð lauk 12. nóvember síðastliðinn sagði Jakob krabbameinslæknir okkur að það mætti gera ráð fyrir því að þreytan sem hún veldur - og fór vaxandi eftir því  sem leið á sex vikna meðferðina -  myndi ná hámarki eftir um það bil mánuð. Það stóð heima. Minn hefur orðið æ lúnari og það sem verra er, einkenni málstols byrjuðu að færast mjög í aukana. Segulómmynd var tekin af höfði hans 12. desember og niðurstaðan úr henni var... bæði góð og ekki eins góð. Góðu fréttirnar voru þær að upptaka skuggaefnis í gamla drekanum (æxlinu sem greindist 2006) er mun daufari en var fyrir meðferð. Það merkir að geislarnir hafa slegið niður frumubreytingar og vöxt á tveimur svæðum í æxlinu, þannig að þar er allt með kyrrum kjörum núna. Markmiði númer eitt náð.

Það var boðið upp á mömmumat á sjúkrahúsi allra landsmanna daginn sem ragnarök áttu að bresta á:
Kjötbollur í brúnni sósu og kakósúpa með tvíbökum.
Geislarnir voru enn áhrifaríkari á drekaungann, nýja æxlið sem óx í haust, enda er það minna og uppgötvaðist snemma. Það leit áður út á mynd eins og upplýst jólakúla en þar er upptakan af skuggaefninu sem er notað til að greina stöðuna einnig daufari og frumur í því æxli hafa að einhverju leyti steindrepist. Sem er ágætt út af fyrir sig... en hefur þær hliðarverkanir að enda þótt æxlisfrumur hafi ekki fjölgað sér þá hefur æxlið stækkað að umfangi vegna þessa. Það tútnar út af bjúg sem rennur á milli dauðra frumnanna og þótt rúmmálsaukningin sé aðeins fáeinir millimetrar þá munar um allt þegar gráu sellurnar eru annars vegar: Þær kunna ekki við neinar ýtingar af þessu tagi og fara sumar hreinlega í verkfall.

Þetta kalla læknirarnir pseudo progression eða gervistækkun. Til að bæta gráu ofan á svart (enn eitt undarlega orðatiltækið) þá veldur þessi (gervi)stækkun því að aukinn bjúgur myndast í kringum æxlið einnig. Sem veldur enn meiri þrýstingi. Reyndar hefur Minn verið á veikari gerð af sterum vegna heilabólgu af þessu tagi allt frá því 3. september sl., þegar ballið byrjaði og ör vöxtur nýja æxlisins olli skyndilegum bjúg. Málstolið sem varð þá hafði á fáum vikum þó að miklu leyti gengið til baka og geta til lesturs var orðin þokkaleg, en færni til að skrifa nánast horfin og talnaskilningur ekki mikill.

Af þessum ástæðum, þ.e. afleiðingum gervistækkunarinnar og heilabólgunnar, var á föstudaginn fyrir viku skipt upp í sterkari deildina af sterum, hressilega stóran skammt sem trappa átti síðan hratt niður á einni viku til að ræsa út bjúgmyndunina. (Tek það samt fram að þessir sterar eru alls ólíkir þeim sem svindl-sportistar smygla og fá brjóst af. Minn maður safnar ekki brjóstum, bara svo það sé á hreinu.)

En þrátt fyrir vel stóran skammtinn eru einkenni málstolsins samt sem áður búin að aukast mikið undanfarna viku og þreytan sömuleiðis, lestrargetan horfin veg allrar veraldar og ekki svo mikið sem hægt að leysa Sudoku fyrir byrjendur. (Minn er að öllu eðlilegu Sudoku-meistari mikill, er vanur að leysa eina í erfiðasta flokki fyrir svefninn á innan við korteri). Á sama tíma og þessu hefur undið fram, þ.e. frá mánudegi 17. desember, hefur staðið yfir fyrsta lota af sex í æxlishemjandi lyfjameðferð, þar sem prinsinn hefur tekið inn krabbameinslyfið Temomedac daglega í fimm daga, hvílir síðan næstu 23 daga. Þetta er sama lyfið og hann tók samfellt alla geislameðferðina, skammturinn bara stækkaður úr 100 mg. í 250 mg. Lyfið hefur hann þolað ágætlega (með því að taka einnig inn ógleðilyf) og hann lauk inntökunni í morgun, föstudag 21. desember.

Á miðvikudegi fannst okkur doktor Jakobi báðum að nú væri nóg komið og læknirinn okkar indæli mælti með innlögn á Landsspítalann þar sem Minn gæti hvílst og fengið sterana beint í æð þannig að bjúgurinn mætti sjatna fyrr, þar sem töflurnar bláu voru greinilega ekki að duga til. Á fimmtudagsmorguninn mættum við því eftir fyrirsögn hans á bráðamótttökuna í Fossvogi en þar í gegn þarf innritun á krabbameinsdeildina á Hringbraut að fara, samkvæmt reglum sem ábyggilega eiga sér góðar ástæður í sparlegum rekstri spítala þjóðarinnar.

Til þess að gera langa sögu stutta þá var Minn kominn upp í spítalarúm á krabbameinsdeildinni 11G (reyndar lánsrúm hjá 11F blóðlækningadeild af því að það er allt yfirfullt á G-inu) fimm klukkutímum og ellefu hvít-og grænsloppum seinna (já, ég taldi heilbrigðisstarfsfólkið sem ég talaði við um einkenni, sögu og lyf). Til stóð að prinsinn fengi undir sig sjúkrabíl þennan spotta á milli spítalabygginganna en vegna óvenjumikils annríkis hjá sjúkrabílunum - kannski voru svo mörg þarna úti að rekast hvert utan í annað í jólaumferðinni eða að detta niður af stressi - þá var biðin orðin svo löng eftir skutlinu að því var tekið fegins hendi þegar ég bauðst til að flytja Minn sjálf á Tojótunni okkar. (NB alveg ókeypis af minni hálfu, ólíkt því sem yfirleitt gerist um sjúkraflutninga).

Sumsé. Þarna á Landsanum er hann núna undir sæng og verður næstu dagana og fær sterana nú beint í æð, dálítið marinn á handarbökunum eftir stunguatlögurnar sem gera þurfti en að öðru leyti sæmilega haldinn. Sefur eftir því sem næði er til, matarlystin fín, blóðkornastaðan ágæt og blóðsykurinn til fyrirmyndar (þrátt fyrir súkkulaði-sykur-og-rotvarnarkökusneiðarnar sem boðið var upp á í gær!).


Tölvusneiðmynd sem var tekin í gær sýndi að ekki var um neina blæðingu að ræða frá æxlinu, né heldur nýjan vöxt frá því fyrir segulómmynd var tekin 12. des, og því er fullvíst að einkennin má rekja til fyrrlýstra aukaverkana af geislameðferðinni. Gærdagurinn var sá erfiðasti varðandi einkenni frá heilakrabbameininu til þessa. En sterarnir eru samt farnir að skila sínu því í dag fannst mér að staðan væri nokkru betri, að minnsta kosti varðandi getu hans til að tjá sig. Ég er orðin nokkuð flínk í okkar eigin sérhannaða tákn- og dulmáli, að ég tali nú ekki um hugsanalesturinn þar sem mér fer ört fram.

Mismælin eru vitanlega tíð og sem betur fer er húmorinn ekki farinn langt. Minn hefur sagt allnokkrum hvítsloppunum að tala við mig um sín mál, frá honum komi bara ,,tóm þvæla." Við hlógum bæði þegar hann vísaði doktor Jakobi á að tala við eiginkonuna með þessum orðum: ,,Ég kem bara með tóma stæla!"

Hversu lengi Björgvin minn þarf að vera á Landsspítalanum er óvíst. Við tökum þetta einn dag í einu með hækkandi sól og staðan er metin eftir því sem fram vindur og ,,Eyjólfur hressist" (þriðja furðulegheitamáltækið í einum pistli - hver var þessi Eyjólfur?). Læknirarnir lofa því að hann fá ,,jólafrí" á aðfangadag og kannski fær hann að vera heima á jólanóttina líka, hugsanlega jóladaginn hálfan að auki. Það kemur bara í ljós. Mikilvægast er að halda rónni og treysta því að allt fari vel. Það hefur verið mikill styrkur að fá kveðjur og styrk frá fjölda fólks í gegnum Facebook-síðuna og fyrir það er ég óendanlega þakklát. Ljósið og kærleikurinn skila sér svo sannarlega til okkar.

Að endingu vil ég síðan geta þess við þau sem eru vön að fá frá okkur jólakort að þetta árið koma engin kort úr Hallveigarkastala en það þýðir ekki að við séum ekki kát með kortin frá ykkur. Og við lofum upp á æru og trú að senda út kort á næsta ári. Þ.e. svo fremi sem heimsendir verði ekki boðaður - og efndur - á þeirri aðventunni.

5 ummæli:

Ingibjörgu sagði...

Þú ert dásamleg Villa mín og ekki spurning að Björgvin hressist, hugsa til ykkar og sendi hlýja og sterka strauma að vestan :-)

Jólakveðja frá Ingibjörgu Snorra og co.

Nafnlaus sagði...

Sendi til ykkar hlýjar hugsanir og kveðjur. Þú mátt þakka fyrir að geta "skrifað" þig niður þegar heim kemur. Vonandi gangið þið öll móti hækkandi sól.
kveðja Halla Signý

Nafnlaus sagði...

Elsku kæra Vilborg mín og fjölskylda, sendi ykkur kraftakveðjur og hlýjar hugsanir. Hvert lítið skref fram á við skiptir máli. Rétt eins og sekúndurnar tíu sem bætast við í dag umfram gærdaginn. Hugsa til ykkar dag hvern og vona það allraallrabesta.
Valgerður Ben

Daddi sagði...

Er með ykkur í allri baráttu við drekan vonda,meigi hann burtu fara,komi aldrei aftur svona,þér líði strax betur má ég bráðum vona!

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa og Björgvin og þið hin í Hallvegiarkastala, ég er með hugann hjá ykkur og sendi ykkur hugumheilar jólakveðjur og bataóskir <3
Knús og kossar
Lóa Frænka