Hér er prinsinn hugrakki í drifhvítu líni með túrban og slöngur í boði heila- og taugaskurðdeildar LSH fimmtudagskvöldið 13. september, þar sem hann gisti yfir nótt eftir sýnatöku úr nýja æxlinu. |
18. september: Sjö spor af kapmellusaumi. |
Hjálparhellurnar tóku ósk um myndatökur vel. |
Fyrst er flöt plata, sem sést á myndinni hér í hægri hendi geislafræðingsins, hituð þannig að hún verður mjúk. Síðan er hún lögð yfir andlitið á geislariddaranum og útkoman verður eins og tilbúin gríman í þeirri vinstri. Viðkoman er eins og af volgum andlitsmaska, sagði hjálparhellan og prinsinn hugrakki taldi það rétt vera, með þeim fyrirvara þó að hann hefði aldrei inn á snyrtistofu stigið.
Svona mátti prinsinn hugrakki síðan liggja í nokkrar mínútur og þegar gríman var orðin hörð var merkt með tússi hvar mætti klippa op fyrir augun.
Að því búnu voru teknar myndir með tækinu volduga þarna í baksýn sem nefnist röntgenhermir, muni ég rétt, sem farið verður eftir til þess að merkja með tússi á grímuna hvar geislaskotin eiga að lenda. Þau verða send úr 2-3 áttum á hvort æxli fyrir sig og eins gott að miðið sé nákvæmt svo ekki sé verið að skjóta að óþörfu á sárasaklausar heilafrumur sem gera ótvírætt gagn á Skeljastöðum. Ég veit ekki hvort þið trúið því en áður en þessar grímur komu til sögunnar þurftu þau sem fengu geisla á höfuð að bera tússkrot í andliti og á höfði allan tímann sem á geislameðferð stóð. ,,Og þá gátu menn ekki haft skegg á meðan," sagði geislafræðingurinn og kímdi. Sá hugrakki er að vonum ekki lítið ánægður með þessar tækniframfarir, ekki síst vegna þess að ef fer fram sem horfir þá á hárið eftir að losna hist og her af kollinum eftir því sem geislastríðinu vindur fram og hætt við að endi með afar snöggri klippingu. Þá má að minnsta kosti hugga sig við ræktarlegt alskeggið.
Eftir gerð bardagagrímunnar lá síðan leiðin yfir á röntgendeildina þar sem fleiri myndir voru teknar í sama tilgangi og áður, þ.e. til að plana geislaskotin, í þetta sinn í tölvusneiðmyndatæki (CT). Til allrar hamingju fengum við leiðsögn á milli K og aðalbyggingarinnar, ella er ég hrædd um að við hefðum seint komist á áfangastað: niður hér, hægri þar og vinstri og svo tapaði ég áttum. Gangarnir hver af öðrum eins og sá síðasti, sá til hægri alveg eins og sá til vinstri.
Enginn leiðsögumaður þó út af spítalanum að myndun lokinni og ekki örgrannt um að það færi um yðar einlæga þegar sjálfur prinsinn hugrakki var orðinn í vafa um hvert bæri að snúa næst, sá áttvísi maður. (Hef sjálf aldrei jafnað mig fyllilega á því að hafa verið týnt tæpra þriggja ára gamalli á Akureyri af fjórum, einkar sinnulausum eldri bræðrum, taki þeir til sín sem eiga.)
Út komumst við þó að lokum eftir að hafa spurt til vegar í gegnum einhvern glergluggann og létum þá hjólagammana geysa skemmstu leið niður í miðbæ, þar sem haldið var upp á þetta dagspartsverk með verðskulduðu kaffitári að hætti sannra lattelepjandi íbúa í hundrað-og-einum. Á mánudag verður seinni undirbúningstíminn og á þriðjudag verður lagt til atlögu úr öllum áttum.
Þangað til næst, bestu kveðjur úr herkastalanum við Hallveigarstíg.
5 ummæli:
Gangi ykkur vel, ókunna frænka mín. Ég fylgist alltaf með.
Ylfa Mist (Rúnars Vilbergssonardóttir)
Hvað get ég sagt; (sam)sekur í samræmi við ákæru... Er barnaafsláttur? Ég var 8 ára... Baráttukveðjur! Hóaðu þegar þú átt stund milli stríða. :-*
PS: Ylfa Mist frænka; ertu söngfugl í Bolungavík?
knús
vala
Gangi ykkur vel Villa mín, bestu kveðjur úr Skagafirðinum.
hope things went smoothly today.
Have sent you an e-mail
Love
Morag D.x
Skrifa ummæli