Meinafræðingarnir á Landsanum tóku sér viku til að rýna í borkjarnana þrjá sem sóttir voru í koll Míns heittelskaða og síðdegis í dag, fimmtudag, hringdi skurðlæknirinn (ekki-Klúní) með tíðindin undan smásjánni. Nýja æxlið í hvirfilblaðinu er astrocytoma af þriðju gráðu, þeirri sömu og upprunaæxlið í gagnaugablaðinu. Þessi niðurstaða er sú skárri af tveimur möguleikum sem við gátum búist við miðað við það sem á undan er gengið. Raunar miklum mun skárri en hinn möguleikinn sem var illvígari fjórða gráðan, öðru nafni glioblastoma multiforme, sem vex mun hraðar og svarar síður geisla- og lyfjameðferð.
Munurinn á þessum tveimur stigum heilakrabbameins er kannski ekki alveg sá sami og á styrkleikastigum Richter-skalans en þó nálægt því. Eitt af því sem meinafræðingarnir skoða er hver umsetningin er á æxlisfrumunum, þ.e. hversu langt þær eru komnar í ferlinu að skiptingu og fjölgun. Það gera þeir með því að telja hundrað stykki á nokkrum stöðum og skoða hversu stórt hlutfall af þeim hópi er komið í startholurnar með að skipta sér þegar þær voru dregnar upp um borholuna. Í æxlinu hjá Mínum sýndi þessi útreikningur 10-15%, sem rímar við þriðju gráðu greininguna. Í fjórðu gráðu æxli getur þessi umsetning verið á bilinu 40-60% og vaxtarhraðinn því ógnvænlegur.
Gamla æxlið er í gagnaugablaðinu sem er grænt á myndinni og heitir á ensku temporal lobe en það nýja er á bleika svæðinu sem heitir hvirfilblað eða parietal lobe. Bæði æxlin eru í vinstra heilahveli. |
Vegna þessara skýru vísbendinga um fyrirgang í gamla drekanum verður geislað á hann aftur um leið og geislað verður á nýja æxlið í von um að slá megi ófétið niður aftur. Aðeins eru fáein ár síðan læknavísindin komust að því að hægt væri að geisla sama svæði í heilanum tvisvar og að þetta stórmerkilega líffæri okkar þolir í rauninni miklu meiri átök en áður var talið. Raunar var okkur sagt beint út í Skotlandi árið 2007 að Minn heittelskaði og hugrakki prins gæti aldrei gengist undir geislameðferð aftur, þetta væri svona ,,once-in-a-lifetime" - dæmi sem ekki yrði endurtekið. Seinni geislun er þó ekki hægt að veita í jafnmörg skipti og þá fyrri, slíkt væri of mikið álag fyrir hvern sem er, jafnvel slíkt hraustmenni sem Minn annars er (að frátöldu drekaeldinu).
Aðgerðaplanið fyrir geislastríðið er þannig að geislum verður skotið í 18 skipti á bæði æxlin en eftir það er svæðið minnkað og skotið í 12 skipti í viðbót eingöngu á nýja æxlið í hvirfilblaðinu. Geislatímarnir eru alla virka daga, frí um helgar, og á sama tíma tekur Minn inn lyfið TMZ / temozolomide, samfleytt í þessar sex vikur. Lyfið gerir hvort tveggja að gefa drekanum og afkvæmi hans á lúðurinn og veikja krabbameinsfrumurnar þannig að þær standast síður atlögur geislana. Dagsetning er komin á upphaf meðferðarinnar: geislastríðið mun hefjast þriðjudaginn 2. október.
Í næstu viku fer prinsinn hugrakki í tvo undirbúningstíma á geisladeildina á Landsanum þar sem hann verður tölvusneiðmyndaður og mældur út þannig að hægt sé að miða skotmörkin út af ítrustu nákvæmni, og fær sína eigin sérsmíðuðu bardagagrímu, líkt og þá sem sjá má á myndinni hér til hægri sem tekin var í Edinburgh Cancer Centre í Skotlandi á Valentínusardaginn 2007. Þegar þessu geislastríði lýkur verður kominn 12. nóvember og rétt passlegt að fara að skella í smákökur fyrir jólin.
7 ummæli:
Magnaðir frásagnarhæfileikar hjá magnaðri konu sem á magnaðann mann.
Knús & kram Auður Lilja
Æ krúttin mín, hugur minn er hjá ykkur og ég sendi allan þann styrk sem ég á til ykkar.
Hlakka til að koma að knúsa ykkur og borða smákökur í desember.
Elsku Villa mín þvílíkt æðruleysi!
Þið eruð í bænum okkar og við sendum áfram baráttukveðjur úr vesturbænum.
Knúskveðjur <3
Hrefna og Kiddi
Hlýjasta faðmlag í heimi, af Bræðraborgarstíg sjö!
Valgerður
Hæ.
Lán í þessu mikla óláni að fá að fylgjast með í gegnum svo góðan skrifara. Hugheilar kveðjur. Bjössi.
gangi ykkur vel. <3
Looloo.
Hugsa til ykkar Björgvin og Vilborg. Hlýjar kveðjur, Anna Sigga.
Skrifa ummæli