Líf í árvekni: Með dökkan tón í sálinni

mánudagur, 31. maí 2010

Með dökkan tón í sálinni

Ég lærði þetta orðalag um daginn af vinkonu. Að vera með dökkan tón í sálinni. Hljómar svona líka miklu betur en að hafa tilhneigingu til þunglyndis, depurðar, kvíða. Að ég segi ekki rómantískara. Og ég er ákaflega rómantísk. Þannig að hér eftir telst ég vera með dökkan tón í sálinni. Sem nóta bene er stundum er svo lítt áberandi að kona veit varla af honum. Eiginlega oftast. En er þarna samt. Þó í svo litlum mæli þessa dagana að mér hefur nýverið tekist að trappa mig niður á þann stað sem ég er ekki lengur byrði á skattborgurunum vegna áts á rándýru sólarvítamíni.

Minn heittelskaði, Sálfræðingurinn (útskrift 12. júní), er voðalega mikið fyrir að tala um ,,eftiráskýringar" þegar ég fer að grufla í kollinum á mér og leita að ástæðum fyrir því að dökki tónninn er farinn að gera sig breiðan. ,,Konur hugsa of mikið," segir hann spekingslega eins og sá sem vitið hefur og fjórar háskólagráður í vasanum og eitt meistarabréf. Og vill meina að að þegar kemistríið í hausnum hefur dempað gleðina, jafnvel bara lítið, komi hugurinn til og skrúfi alveg fyrir það sem eftir er af henni með því að róta upp öllu því dapurlega og sorglega og ergilega sem þar má finna í leyndum fylgsnum til að réttlæta depurðina.

Ég býst við því að hann hafi rétt fyrir sér. Kúnstin líklega sú mikilvægust að yppa öxlum yfir mýflugum eins og  Únglíngum sem vilja alls ekki læra dönsku þótt skólakerfið krefjist þess, fréttum af drekum sem taka sig upp hist og her, fólki sem einu sinni var nálægt en er nú fjær og standast þá freistingu að snúa þeim í huganum upp í úlfaldalestir. Hvað svo sem þær suða...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála honum! Knúskveðja, Kiddi

Nafnlaus sagði...

Jæja á nú ekki að fara blogga smá, ég er alltaf að kíkja;)

Kveðja Auður Lísa

Ingibjörg Þ.Þ. sagði...

Mikið sakna ég bloggsins þíns.
I.