Líf í árvekni: Föstupælingar

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Föstupælingar


Þegar ég nam í Skóla skoskra og keltneskra fræða í Eiðinborg hér um árið kúrsinn Þjóðfræði trúarbragða var árlegt föstuhald múslima í Ramadan-mánuði á námsskránni, sem og aðrir þeir siðir sem Islam tengjast. Fastan þeirra Múhameðstrúarmanna nær yfir einn tunglmánuð, frá sólarupprás til sólarlags. Fólk fer á fætur í bítið meðan enn er myrkur og borðar ríflegan morgunverð, lætur af föstunni að kvöldi og byrjar kvöldmáltíðina með fjölskyldu og vinum á að fá sér döðlu - til að minna sig á sætleikann í lífinu, ef ég man rétt.

Í Kóraninum segir frá því að María hafi fætt Jesúbarnið undir döðlutré, og eftir fæðingu hans teygt sig í döðlu og nært sig á eftir ábendingu drengsins (sem var altalandi strax við fæðingu); því er sá siður enn í dag meðal múslima að móðirin strýkur döðlusafa um varir nýfædds barns síns.

Hugsunin að baki föstunni - bæði hjá múslimum og þeim kaþólskustu sem enn fasta í 40 daga fyrir páska - sá ég einhvers staðar orðaða svo að hún væri bæn líkamans, líkt og hin orðaða bæn er frá andanum komin. Fastan, segja múslimar, á að minna okkur á að ekki fá allir jarðarbúar nóg að borða og að við eigum að deila nægtum okkar með þeim sem ólánsamari eru. Á föstunni snúum við huganum frá efnislegum gæðum, reiði og gremju og hvers kyns slæmum hugsunum, og horfum inn á við, nýtum tímann sem gefst þegar við látum af áti og nautnalífi, til að lesa trúarlegan texta og dýpka sambandið við Guð.

Undanfarna daga hef ég verið að velta þessu fyrir mér, páskafastan enda á næsta leyti, hefst á miðvikudaginn næsta, 17. febrúar, og því með hvort yðar einlæg, mótmælendatrúar sem ég er, ætti ekki að láta á reyna, þó ekki sé nema fyrir forvitni sakir.

Með lítils háttar gúggli hef ég reyndar komist að því að meðal oss prótestanta tíðkast sums staðar að fasta á kjöt líkt og sanntrúaðir kaþólikkar gera og sömuleiðis færist í vöxt að halda sér frá hinum ýmsu nautnum neyslusamfélagsins í 40 daga fyrir páska. Þessi praktísku trúarbrögð láta það sýnist mér nokkurn veginn í hendur hinna trúuðu sjálfra að ákveða hversu langt þau vilja ganga í þeim efnum.

Og það sem mér finnst nú eiginlega enn sniðugra: það er frí öll laugardagskvöld til sunnudagskvölds! Sunnudagarnir eru nefnilega eins konar litlu-páskar og þá ber að fagna upprisu Krists (þó hógværlega) og þess vegna hefst ,,40 daga fastan" alltaf 46 dögum fyrir páska - sunnudagar dragast frá. Sunnudagurinn byrjar klukkan sex á laugardegi (sbr. jólin byrja klukkan sex á aðfangadag og heilagt á gamlársdag klukkan sex) og lýkur klukkan sex á sunnudegi. Og þá má sukka að vild.

Þá er bara að ákveða á hvað skal fasta, úr nógu er að velja: kjöt, vín, sykur og sætindi, kaffi, gosdrykkir, sjónvarp, reiði, baktal og neikvæðan þankagang (sem þýðir þá væntanlega að kona þyrfti að halda sig frá hvers kyns fjölmiðlum), kaup á óþörfu dóti, bíóferðir, djamm... er ég að gleyma einhverju?

Mér er slétt sama þótt ég láti af kjötneyslu sex daga vikunnar, ekki mikil fórn þar, þoli ekki unnar kjötvörur. Sykur og sætindi koma ekki inn fyrir mínar varir nema síðustu viku ársins af heilsufarsástæðum (veldur bæði vefjagigtarverkjum og kolvetnisgræðgi), víndrykkju og djamm tíðka ég ekki að öllu jöfnu, né heldur sóa ég tíma í gremju/neikvæðni/baktal. Fréttatímar fara iðulega framhjá mér, fletti hratt yfir blaðafyrirsagnir um Ísbjörgina og Kreppuna, les einna helst Bakþanka færra pennakvenna og myndasögurnar Barnalán og Gelgjuna (klippi þá síðarnefndu oft út og set á ísskápinn, til að gleðja Únglínginn).

Það er þá eiginlega helst kaffileysið sem yrði erfitt. Og að sleppa kókdrykkju með poppinu á kósíkvöldum yfir góðri mynd á 2007-flatskjánum. En það má sukka á laugardagskvöldum.

Ég held ég slái bara til.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.