Líf í árvekni: Ó borg mín borg

föstudagur, 16. október 2009

Ó borg mín borg

Daginn sem Hrunið átti afmæli - megi það aldrei þrífast - fór ég í gönguferð að heiman frá mér úr Þingholtunum austur í Borgartún að athuga hvort hjólið Únglíngsins í skóginum (sem einmitt varð 15 ára daginn áður, þ.e. Únglíngurinn ekki hjólið), sem hvarf frá heimili sínu á Menningarnótt, (þ.e. hjólið, ekki Únglíngurinn) hefði ratað í vörslu lögreglunnar.

Ákvað að ganga eins og útlenskur túrhestur í orlofi þennan spöl og virða fyrir mér umhverfið eins og ég hefði borgað fullt af peningum fyrir að heimsækja borgina (eins og margir hafa vissulega gert). Mikið finnst mér makalaust gott að úr henni miðri má sjá bæði út á sjó og til fjalls (sem þykir kannski ekki merkilegt þar sem við búum jú næstum öll undir fjöllum og við sjó en samt ...). Fyrsti snjórinn nýfallinn og Esjan einsog prúðbúin prestsmaddama í sparisjalinu sínu.

Næst varð fyrir mér og myndavélinni þessi vörpulegi og þungt hugsi drengur, á mótum einhverra Túnanna. Veggjakrotið gerði mig dálítið dapra í hjartanu. List, fullyrðir Únglíngurinn í skóginum. List, my ass!

Man reyndar allt í einu að í Kúrsi dauðans í meistaranáminu í þjóðfræði var eitthvað talað um veggjakrot í fræðilegu og póstmódernísku samhengi sem andóf einstaklingsins gegn öh ... eh ... úff, sleppum því. Það er til flott veggjalist en þetta krall er svo klúrt og hugmyndasnautt að það ætti ekki að sjást annars staðar en á Núllinu í besta falli.


Og svo er það þessi nýjujórvíkurlegi glerturn á horninu á Skúlagötu og Höfðatúni, hvað getur kona sagt spaklegt um hann? Er þetta minnismerki um flottræfilshátt og minnimáttarkomplex mörlandans, ofmat á eigin getu, offramleiðslu á testósteróni? Eða stórhug, áræði og kjark til að dreyma stóra drauma?

Sem túrhestur/húsfreyja í orlofi varð mér fyrst hugsað til þess hvort það væri einhver að vinna í öllum þessum skrifstofum á eins árs afmæli Hrunsins, hvað þau væru þá að gera, eða hvort þessar nítján hæðir stæðu mestanpart tómar. Og síðan hvort það tæki ekki ógnarlega langan tíma að þrífa allt þetta gler, þegar mengunin og rykið og slyddan og rigningin hafa gert sitt.

Dró gluggana eins nálægt mér og ég gat og sá ekki betur en það væru ljós í öllum gluggum og glitti í tölvuskjái. Og svo hugsaði þorparinn í mér að það væri hreinlega ekki hollt fyrir fólk að vera svona þétt saman. Man þegar ég kom suður í borgina sjö ára trítla að vestan í fyrsta sinn og horfði í gegnum nýju gleraugun mín steinhissa á allt malbikið og öll húsin og velti því fyrir mér hvernig í ósköpunum jörðin færi að því að anda, með alla þessa steypu oná sér...

P.S. Það var hins vegar ekkert ljós í hjólageymslunni Löggunnar þannig að ég gat ekki tekið mynd þar fyrir ykkur, öryggi farið víst (já, öryggið farið hjá löggunni) En trúið mér, það er stórt safnið.

Leitaði með vasaljósi en fann ekki hjólið Únglíngsins. Ef einhver vill selja notað reiðhjól í góðu ástandi, þá endilega látið mig vita. Það þarf að þola Únglíng sem er orðinn bæði stærri og þyngri (!) en mamma hans og talsvert kraftmeiri.

3 ummæli:

Hrönn sagði...

Hva, gastu ekki bent á eitthvað hjól og sagt "Aha, þarna er'ða", svona úr því það var hellingur af þeim. En maður kann náttúrulega aldrei við svoleiðis, ef ske kynni að eigandinn kæmi næsta dag að leita. Nóg af hjólum til á þessu heimili, en þau eru öll í noktun og engin til sölu.

Kv. Hrönn

Nafnlaus sagði...

received my e-mail. Good luck with the book. Love the first picture on 16.10.09....is this rekjavik?...sky lookk wonderful!
Love Morag

Gunnars bilder sagði...

Var á ruslahaugunum hér í bænum fyrir nokkru og þar var hellingur af vel nothæfum reiðhjólum sem seld voru fyrir nánast ekkert. Er ekki svoleiðis búð hjá ykkur?