Ég hef verið að böggla því fyrir mér nokkur undanfarin kvöld, á meðan ég hnoða í Sollusmörtu-vefjur (útlenska: tortillur), baka brauðbollur (1/2 kg. mjöl gefur 18 bollur), útvatna nýrna- og kjúklingabaunir og saltfisk (að vestan frá pabba) og og pakka í frystinn ásamt folaldahakki (200 kall kg. á Krónutilboði) af hverju mér hafi verið svona tregt um tungu hér í netheimum frá því að Kreppan skall á. Svo tregt að enginn nennir orðið að kasta kveðju undir gamlar færslur nema í mesta lagi fyrir sakir skyldleika (takk, mamma).
Það er ólíkt litríkari heimur en sá grámóskulegi og kreppti sem við blasir í fréttatímunum og í hillunum í Krónunni. Það vantar ekki átökin þar þessa dagana, skal ég segja ykkur: 25-30 manns í áhöfn langskips, reikn reikn, draga frá ýkjur í munklærðum annálaskrifurum írskum um þúsundir fallinna eftir bardaga í þrjá daga og þrjár nætur... eigum við að segja tuttugu stór hundruð (hundrað er 100, stórt er 120)?
Ég hef aðallega á laugardögum miðdegis verið skringileg innan í mér og það ágerist ef ég opna glugga því þá heyri ég í mótmælendunum oní miðbæ; ekki orðaskil alveg en það heyrist að þarna er Reitt fólk og Þreytt á Ástandinu og Kreppunni.
Það er eins og ég sé ekki alveg í takti við (síðustu og verstu) tímana og veit ekki einu sinni almennilega hvað veldur. Minnist þess með draumkennt blik í augum þegar ég á ungdómsárum reifst oní rass við stuttbuxnadrengi í Menntó á Ísafirði um þörfina fyrir friðarhreyfingar og nýjan, kjarnorkuvopnalausan heim og raðaði þétt barmmerkjum með upphrópunarmerkjum í boðungana á svarta jakkafatajakkanum hans Gunnars afa (sem var með hrosshár í axlapúðunum, ég get svo svarið það).
Er ég orðin alger geðlurða með aldrinum, eður hvað? Nenni ekki á mótmælendafund, hvorki utanhúss né innan, fréttafíknin sem tók sig upp aftur í október eftir langt hlé (sem hefur varað frá því að ég hætti í blaða- og fréttamennsku um aldamótin síðustu) farin að dala allverulega og Mín orðin eirðarlaus strax á fimmtu, sjöttu kreppufrétt, farin fram í eldhús að hjálpa Únglíngnum í skóginum að ganga frá eftir matinn svo hann geti fylgst með Fréttunum og Kastljósinu og Umræðunni.
Ég vafra stefnulaust á milli bloggsíðna á Netinu og þótt ég sé sammála næstum öllu sem reiða og þreytta fólkið skrifar þá finnst mér samt að það væri að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um þetta líka.
En hvað skrifar kona þá um, ef ekki Kreppuna og Ástandið? Það er einsog það væri hreinasta ábyrgðarleysi að fara að minnsta kosti ekki nokkrum orðum um hvað þetta er allt mikið svínarí & syndafen og blóðugt barbarí. Samt nenni ég því ekki. Og fæ samviskubit yfir að viðurkenna það.
En ég hef reyndar eina handhæga afsökun og ég er að hugsa um að nota hana, á meðan mér dettur ekkert betra í hug.
Lungann úr deginum (þarf að gá að þessum lunga í orðsifjabókinni, skrítið orð, hlýtur að vera úr sauðfjárrækt) bý ég nefnilega í allt öðrum heimi en þið hin. Í mínum daglega veruleika er ekki einu sinni notuð króna, ykkur að segja, bara silfur. (Vegið silfur og það gildir meira að segja hvar sem er í Evrópu, stolið jafnt sem heiðarlega fengið.) Né heldur fyrirfinnast þar kauphallir, bankar, verðbréf, stýrivextir, skuldatryggingarálög, gengi, Doddsson, ríkisstjórn, evra, verðbólga, sérfræðingar í efnahagsmálum, verðtrygging, hvað þá heldur Seðlabanki.
Skuldir eru reyndar til, en það eru mest blóðskuldir. (Og þá meina ég ekki yfirdrátt eða verðtryggingarskuldir).
Það er ólíkt litríkari heimur en sá grámóskulegi og kreppti sem við blasir í fréttatímunum og í hillunum í Krónunni. Það vantar ekki átökin þar þessa dagana, skal ég segja ykkur: 25-30 manns í áhöfn langskips, reikn reikn, draga frá ýkjur í munklærðum annálaskrifurum írskum um þúsundir fallinna eftir bardaga í þrjá daga og þrjár nætur... eigum við að segja tuttugu stór hundruð (hundrað er 100, stórt er 120)?
Nú er ég búin að brjóta prinsippið um að kjarna munn (Hjallastefnumál frá Skottunni) um sögu sem er enn í smíðum og er því steinhætt. Góðar stundir.
P.S. Sparnaðarráð dagsins er í fyrstu málsgrein (en ég held samt að pabbi eigi ekki saltfisk fyrir aðra en þá sem eru skyldir honum. Sem eru reyndar ansi margir þegar ég spái í það, öll Kollsvíkurættin og guðmávita hve margir fleiri).
6 ummæli:
Þetta var klárlega tveggja hæða skrif, gott að fá svona konfektmola í annríki dagsins.
Elsku systir, takk fyrir að hafa fyrir því að koma saman pistli. Þetta er ómetanlegt fyrir okkur ritunnendur þína :)
Knúskveðja Auður Lilja
Þakka fyrir síðast ,frábæra tónleika og góðan mat. Komin heim eins og sjá má. bíð spennt eftir allri sögunni. 'astarkveðjur Mamma.
Kæra bloggfrú,
takk fyrir bloggið, mér finnst alltaf svo gaman að lesa það... þótt við þekkjumst ekki neitt!
Bestu kveðjur, Jónína
Sæl Vilborg
Þú hefðir kannski gagn af þessari síðu:
http://www.fva.is/harpa/sagnavefur/fe_verdgildi/verdgildi.html
Harpa
Hm...
http://www.fva.is/harpa/sagnavefur/fe_verdgildi/verdgildi.html
Að sjálfsögðu átti slóðin öll að birtast.
Sæl og blessuð
Takk fyrir að skrifa ekki um kreppuna.Það eru nógu margir í því.
Alltaf gott að kíkja á síðuna hjá þér og enn betra að kíkja í kaffi, takk fyrir síðast. Hafðu það betra en best og mundu að hamingjan býr í hinu smáa.
þva
Matta
Skrifa ummæli