Líf í árvekni: Ljós í myrkrinu

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Ljós í myrkrinu

Það verður æ erfiðara að sannfæra Skottuna að morgni dags um að nóttin sé liðin þótt enn sé myrkur úti og fá hana á fætur: ,,Það er víst nótt ennþá, sjáðu bara úti," segir hún syfjulega og bendir upp í þakgluggann þar sem glittir í stjörnur í skammdegismyrkrinu, snýr sér upp í horn.

Einkennilegt að ekki skuli þá verða auðveldara að koma henni í bólið á kvöldin; en nei, þá skiptir engu þótt niðadimmt sé frá því um sexleytið. Eltingarleikur skal það vera í hvert eitt sinn, inn á milli loforða lúinna foreldra um tvær stórar bækur og fimm lög og hótanna um hvorugt ef gylliboðin duga ekki til.

Í Skotalandinu höfðu öll okkar heimili (þrjú á tveimur árum) gluggatjöld í svefnherbergjum sem lokuðu minnsta birtuvott svo rækilega úti að eftir að ljósin höfðu verið slökkt sá ég ekki hendina á mér þótt ég færði hana eins nálægt augunum og komist varð fyrir nefinu glæsilega. Ekkert er eins svart og skoskt myrkur, það get ég svarið.

Skotarnir voru líka oft að spyrja hvernig þetta væri eiginlega á Ísalandinu í norðri; var ekki ómögulegt að sofa í nætursólinni á sumrin og vaka á veturna, þegar myrkrið ríkti dag sem nótt?

Við bárum okkur vel náttúrulega eins og (ekki-útrásar-)víkinga er vandi og bentum á eins og rétt var að munurinn á birtustiginu eftir árstíma á norðanverðum Bretlandseyjum og Íslandi væri reyndar ekki svo ýkjamikill - nema kannski yfir hásumarvikurnar og jólamánuðinn. Birtan í Skotlandi er eiginlega grá allan veturinn, veðrið tilbreytingarlítið mánuðum saman. Það er skítkalt þótt það sé 10 stiga hiti, líkast til vegna loftrakans/úðans/suddans, og þykk skýjahula yfir himninum svo hvergi sér í blátt. Og götuljósin eru gul, í sparnaðarskyni, eins og ljósið á staurnum á Sóleyjargötunni virðist vera á myndinni hér efst (en er reyndar alls ekki).
Það er nú ákveðinn sjarmi yfir íslensku skammdegi, þrátt fyrir allt og allt (spurning hvort ég hef skipt um skoðun þegar kemur fram í mars). Það er gott að horfa á ljósin í myrkrinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara komnar jólaskreytingar hjá ykkur í höfuðborginni,veitir ekki af í þessu myrkri. 'Astarkveðjur Mamma

Katrín sagði...

Mér finnst myrkrið notalegt. Það var samt pínku skrýtið úti að hafa líka myrkur á sumarkvöldum!