Líf í árvekni: 62.675 manns?!

sunnudagur, 2. nóvember 2008

62.675 manns?!

Hverfisrólóið okkar Þinghyltinga er Seðlabankaróló við stræti Ingólfs, norðanvert í Arnarhólnum. Við Skottan vorum þar miðdegis á laugardag þegar sumir aðrir voru niðrí bæ að fá útrás fyrir reiðina sem er talað um í afmælisblaði Moggans (sjá stríðsletrið á forsíðunni: Óvissa, reiði og kvíði) með bílflautum og skörulegu ræðuhöldum um hvernig allt sem aflaga er farið er öðrum að kenna og þeir ættu að skammast sín. Sem er vísast alveg rétt.

Svona erum við mæðgurnar ábyrgðarlausar þegar kemur að því að vera reiðar.***

Hlógum bara og skemmtum okkur, tókum myndir af Ingó í vetrarsólinni og litum í sjónauka til hafs, þó ekki eftir móðunni miklu (sjá fyrirsögn viðtals sama blaðs við nýjan forseta ASÍ: Staðan ekki alvarlegri síðan í móðuharðindunum).

Þessar fyrirsagnir báðar vöktu með mér margs konar hugrenningar, sem meðal annars urðu til þess að ég fletti upp Móðuharðindunum til að rifja upp fyrir mér helstu staðreyndir þeim tengdar (þótt ég alla jafna hafi meiri áhuga á því tímabili Íslandssögunnar sem nær frá öndverðu til siðaskipta).

Móðuharðindin voru sem sé afleiðing Skaftárelda sem hófust í Lakagígum í V-Skaftafellssýslu þann 8. júní 1783 og stóðu fram í febrúar 1784. Átta mánaða eldgos sem sé.

,,Í þessu gosi kom upp mesta hraun sem runnið hefur í einu gosi á jörðinni síðasta árþúsundið. Heildarrúmmál hraunsins er um 12 km3 og flatarmál þess 580 km2. Gosinu fylgdu aska og eiturefni sem bárust um allt land og skildu eftir sig sviðna jörð. Veturinn á eftir var líka harður.

Allt þetta leiddi til mikilla hörmunga. Heyfengur var lítill, skepnur féllu bæði úr hor og vegna sjúkdóma sem fylgdu eiturefnunum úr gjóskunni og hungursneyð varð meðal fólks. Talið að sauðfé hafi fækkað um allt að 80%, hrossum um 60% og nautgripum um 50%. Þessar hörmungar, sem kallaðar hafa verið Móðuharðindin, stóðu yfir til ársins 1785 og kostuðu meira en 10.000 manns (rúmlega 20% þjóðarinnar) lífið." (tilvitnun lýkur í Vísindavef HÍ.)

Látum okkur nú sjá, reikn reikn, 20% af mannfjöldanum í dag (við vorum 313.376 talsins 1. janúar sl.) myndi vera 62.675 manns.

Nú vil ég alls ekki gera lítið úr tímunum sem nú ríkja og gjarnan eru kallaðir ,,síðustu og verstu" og ,,kreppan", hvað þá þeim erfiðleikum sem fylgja auknu atvinnuleysi og meiri blankheitum en ég er samt alveg viss um að okkur myndi líða miklu, miklu verr ef 62.675 manns hefðu dáið úr sjúkdómum og sulti og næstum allur bústofn okkar sömuleiðis (úr flúoreitrun og álíka viðbjóði, sjá hér).

Ég er líka alveg viss um það líka að þau sárustu og aumustu meðal vor hafa það talsvert miklu betra en allra efnaðasta fólk landsins hafði það fyrir 225 árum. (Til dæmis má nefna að nú á tímum höfum við rafmagn, upphituð húsakynni, aðgang að læknishjálp og samgöngur við aðrar sveitir nánast hvenær sem er ársins). Og ég þori að éta þæfðu Húfur-sem-hlæja-álfahúfuna mína upp á það að við, þessi ríflega 313.376 manns, höfum miklu, miklu fleiri tækifæri en forfeður okkar og formæður til þess að bæta kjör okkar og líkamlega og andlega heilsu, að ég tali nú ekki um þá ,,fjárhagslegu".

Hafiði annars pælt í þessu nýja hugtaki úr musterum Mammons: ,,Fjárhagsleg heilsa"? Þetta er náttúrulega í dúr við sífelldar fréttir af því að krónan sé ,,veikari" í dag en í gær og alltaf að ,,veikjast" meira og meira. Rétt eins og gjaldmiðillinn okkar sé manneskja sem hefur misst heilsuna. Já, sæll! Verður starfsfólkið í Nýju bönkunum þá peningalæknar, krónusjúkraþjálfarar, auraliðar? Bankarnir spítalar, þau sem eru fátæk og skuldug sjúklingar? Halló?!

Ég held að þau sem hafa atvinnu af því að halda skoðunum sínum á lofti - og líka þau sem velja viðmælendur og fyrirsagnir - verði að gæta þess að orð eru máttug. Afar máttug. Ég býst svo sem ekki við því að það sem stendur í Mogganum sé talið jafnheilagur sannleikur í dag og það var í þá gömlu góðu (hafiði annars tekið eftir því að síðustu tímar eru alltaf verstir en gamlir góðir?) en ég er alveg sannfærð um að ansi margur, sem var kannski oggulítið kvíðinn og dálítið óttasleginn og soldið reiður þegar hann vaknaði (einu sinni var ég þannig að kvíðinn minn vaknaði á undan mér en vaknar nokkur reiður?), drakk kaffið sitt og tók upp Moggann í morgun (nú er ég ekki að tala um þá sem búa úti á landi og sjá Sunnudagsmoggann ekki fyrr en það hefur verið flugfært til næsta flugvallar og akfært frá þeim flugvelli heim til þess sem ber út blaðið í þorpinu, sem gæti verið á morgun eða hinn) - já, þessi maður/kona hafi orðið talsvert miklu kvíðnari og reiðari og óvissari um framtíðina sína (sem enginn þekkir hvort sem er, ekki heldur þótt hann sé áhættusækinn grilljónamæringur eins og síðustu tímar sýna) eftir að hafa litið augum forsíðufyrirsagnirnar sem að ofan er getið.
Kona hefur vitanlega miklu meira tilefni til að vera reið, kvíðin og hrædd ef henni er talin trú um að þessi líðan sé bara svona normalástand meðal allra hinna 313.375 Íslendinganna, og er það nokkur furða ef tímarnir eru svo slæmir að það er eins og 62.675 þeirra hafa barasta steindáið!

Svo er hér að lokum (eins og áður hefur verið heitið) Sparnaðarráð dagsins; það skilar reyndar ekki jafnmiklu og matseðilsgerð en ábyggilega jafnmiklu og því að nota bara teskeið af þvottadufti í uppþvottavélina en það er að hætta að kaupa plastpoka í hverri einustu innkaupaferð fyrir 15 kall stykkið, fjárfesta frekar í taupokum (sem er mjög umhverfisvænt í ofanálag) og kaupa ódýra rúllu af plastpokum í stórmarkaðinum fyrir ruslafötuna.
Og skyldirðu halda að þetta sé grín í mér þá getum við reiknað dæmið snuggvast. Ef þú kaupir sirka 8 poka á viku í 52 vikur á ári (416 p0ka) þá borgarðu fyrir það 6.240 kr. Drögum frá innkaupsverðið á 8 taupokum (minnir að þeir kosti 200 kr. stk.í Krónunni sem gerir 1.600 kr. og segjum að þeir dugi í þrjú ár a.m.k. - 1/3 er þá 533 kr.) og verðið á 416 plastpokum á rúllum fyrir ruslið, sem er nú líklega aðeins meira en nóg (held að 30 poka rúlla af bláum pokum með haldi í Krónunni kosti sirka 200 kall sem gerir 6.60 á stykkið, alls 2.745) þá stendur eftir .... ókei, ekki rosalega mikið en samt 2.962 krónur.

Og ef við gerum nú ráð fyrir því að lesöndin eða -andinn sé með yfirdráttarheimild sem er að jafnaði í notkun þá eru á henni (mjög fljótlega) 28% vextir á ári. Yfirdrátturinn er yfirleitt notaður til að borga bæði matinn og pokana utan um hann, þannig að sé hann reiknaður inn í dæmið þá sparast ekki aðeins 2.962 krónurnar heldur líka 830 krónur í yfirdráttarvexti, samtals: 3.791 króna.

Séu þessar krónur síðan lagðar í bankann á sparisjóðsreikning (eða sem enn sniðugra væri, inn á yfirdráttinn til þess að lækka hann) með hæstu innlánsvöxtum með 10 daga bindingu, t.d. hér , þá bætast á þær 14.20% á ári í vexti sem gera 539 kr. í viðbót, alls 4.329 kr. Hærri vextir fást náttlega ef krónurnar verða fleiri (sjá sparnaðarráð næstu pistla) og enn hærri ef kona tekur þá áhættu að treysta bankanum sínum/ríkinu til að geyma þær í einhverja tugi mánaða. Sparnaðurinn fer því að nálgast eina Ragnheiði biskupsfrú, á hverju ári.
Ég kann ekki alveg að reikna út hvað stigvaxandi vextir fyrir stigvaxandi upphæð gera eftir tíu ár (tala nú ekki um ef aurinn er bundinn allan tímann) en ég er alla vega viss um að það er að minnsta kosti vel yfir 50.000 kallinn. Ef við gerum nú ráð fyrir að við eigum eftir að halda heimili og sjá um matarinnkaup í að minnsta kosti 30 ár í viðbót, eða jafnvel 40 eða 50 ár (hver reikni fyrir sig) þá sést að það má spara dáldið mikið, þegar dæmið er reiknað til enda.
P.S. Og auk þess rifna taupokar ekki undan mjólkurfernum eins og plastpokar - sem þar með verða ónothæfir undir sorpið.
***Ég ætla ekki að gera það að vana mínum að endurnýta fyrri pistla en vil samt sem áður vísa í ársgömul skrif um reiðina, úr því að ég er að minnast á hana, var ansi hreint spök þann daginn þótt mér segist sjálfri frá.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ansans ári góður pistill hjá þér Villa mín,bara að fleiri væru svona jákvæðir.
ástar kveðjur Mamma

Nafnlaus sagði...

Snilldarskrif að vanda, þó ég sé hlutdræg og það ansi þá finnst mér þú vera sá allra besti penni sem fyrirfinnst systir kær.
Knús og kreist!
Kær kveðja Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir!

Nafnlaus sagði...

Vel skrifað systir sæl, eins og alltaf. Bið að heilsa!
Gunni