Líf í árvekni: Alveg nóg er alveg nóg

þriðjudagur, 14. október 2008

Alveg nóg er alveg nóg


Það hefur verið skrítið að vera til síðustu daga. Bubbi Morthens segist sjá allt í litum, nöfn og hvaðeina, (útvarpsþáttur á Rás 2 í gær þar sem hann tók afar fræðandi og gott viðtal við Pál Matthíasson geðlækni og lífshamingjukúnstner) en ég á það til að sjá setningar sem fólk segir fyrir mér eins og í loftbólunum fyrir ofan fígúrur í myndasögum og skapa mynd af því sjálfu, lífi þess og viðhorfum. Þegar ég geng niður Laugaveginn eða um ganga bókasafnsins heyri ég slitur af samtölum fólks á milli, nokkur orð sem líða út í loftið, teikna örmynd af lífi þess sem talar, leysast síðan upp.

Allar myndirnar sem ég hef séð, hver einasta, undanfarna daga er af hræddu fólki, fólki sem er fullt af ótta, líka reitt en veit ekki alveg við hvern, mest kannski við ,,þá" en líka sjálft sig því í bland erum við með sektarkennd yfir því að hafa ekki áttað okkur á hvert stefndi og reynum að réttlæta okkur með vörninni: Þetta er ekki okkur að kenna, við Jónarnir og Gunnurnar vorum ekki að kaupa okkur poppstjörnur í afmælin eða einkaþotur undir rassinn, við vissum ekki einu sinni um þessi bankaútibú í útlöndum, við treystum því að bankaliðið vissi hvað það væri að gera, treystum þjónusturáðgjafanum þegar hann sagði að það væri alveg jafnöruggt að leggja spariféð í peningamarkaðsbréf í Sjóði 9 og að hafa það á venjulegum sparireikningi, bara meiri vextir og hvenær hef ég flotinu neitað?

Fyrir ríflega áratug, um það leyti sem ég komst til vits og ára (en eins og allir vita að það gerist yfirleitt upp úr þrítugu) kom ég mér upp slagorði í fjármálum sem hefur nýst mér vel alla daga síðan. Það hljómar svona: Alveg nóg er alveg nóg.

Það er vitanlega hvers og eins að meta hvað er henni eða honum alveg nóg en í mínu tilfelli var og er það að eiga fyrir reikningunum um mánaðamótin, hafa öruggt húsnæði og nóg að bíta og brenna. Ágætt að eiga dálítinn varasjóð í bankanum sínum líka fyrir óvæntum útgjöldum en á þessum tíma var ekki fyrir því að fara; úr því rættist síðan smám saman eftir að slagorðið kom til sögunnar og var beitt til hægri og vinstri á afkomuóttaköstin sem lögðu undir sig sálarlífið af og til á milli útborgunardaga (sem hjá rithöfundum eru 1. júní ár hvert).
Um sama leyti tók ég upp á því að ráði góðrar konu (Victoria Moran: Shelter for the Spirit) að blessa reikningana mína og minnast þess að þeir eru merki um að ég hafi notið einhvers frá öðrum sem treysta á mig um að standa skil á því sem það kostaði og í hvert sinn sem ég skrifa nafnið mitt á kreditkortanótu þakka ég Vinkonu minni (Guði) fyrir að eiga aur fyrir þessari þjónustu eða varningi sem undirskriftin tryggir mér, nú já, eða að minnsta kosti lánstraustið sem ég hef hjá kortaútgefandanum.
Prinsippmál líka að sjá aldrei eftir því að þurfa að borga öðrum fyrir framlag sitt til þess að ég geti notið gæðanna sem þetta líf hefur upp á að bjóða og hafa alltaf í huga að hinir þurfa líka að lifa. (Í framkvæmd er þetta að minni reynslu nauðsynlegast þegar virkilega reynir á, t.d. þegar kaupa þarf fagþekkingu fólks eins og pípulagningamanna eða tannlækna).

Þessi fjármálaspeki hefur skilað mér á þann stað að þokkalega efnaður bróðir minn sem starfar (en hættir bráðum) hjá einum þeirra banka sem nýlega voru teknir í ríkiseigu sagði við mig með mikilli velþóknun fyrir ekki svo löngu: ,,Þú hefur nú alltaf getað lifað á loftinu." Hann ætti að vita hvað hann segir, maður sem er viðmælandi Wall Street Journal í vikunni (og pabbi okkar líka).
Það hefur reynst mér hjálplegt að vera alin upp af ákaflega heiðarlegu og hagsýnu fólki sem sjálft hefur séð tímana tvenna í fjármálum og ekkert er þeim meira eitur í beinum en lántökur. Ég er náttúrulega mörkuð af þessu uppeldi sem einu sinni fyrir langa löngu (áður en ég komst til vits og ára) olli því að ég tók út sálarkvalir þegar minn þáverandi hafði að tómstundagamni að safna stöðumælasektum og taldi það ódýrara en að borga í mælinn þar sem það gerðist ekki svo oft (sú fullyrðing stóðst ekki í reyndinni auk þess sem greiðslan fór ekki fram fyrir en eftir dúkinn og diskinn og þá af Yðar einl.).
Því er ég að deila þessu með ykkur (sem kannski hafið alls ekki alveg nóg) að ég hef með því að rifja upp þessa nokkuð svo þrengri tíma fyrir ríflega áratug og hversu úr rættist tekist að losa mig undan óttanum sem skaut upp kollinum við hinar meintu ,,hamfarir"*** í efnahagslífi þjóðarinnar. Óvissan er auðvitað verst eins og alltaf. Ekki í fyrsta sinn sem kona reynir það á eigin skinni. Eins og mig minni að ég hafi nefnt það áður að ekkert sé jafnóþægilegt og að vita ekki fyrir víst hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þegar tilfinningin um að við ráðum ekki eigin lífi, höfum enga stjórn, nær yfirhöndinni.

Þess vegna er líka gott að minna sig á að enginn, alls enginn, veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, nokkurn tímann. Sálin verður svona líka miklu öruggari með sig þegar hún veit að hún er í báti með öllum hinum en ekki alein á ólgusjónum og hvergi land í augsýn. Þau sem þekkja reynslusporin tólf þekkja þetta; hvað það er okkur manneskjunum nauðsynlegt að hafa hendur annarra að halda í svo að við missum ekki fótanna. Skuldunautar ættu þannig að geta huggað sig við það, þó ekki sé annað, að þeir eru í sömu sporum og ákaflega margir, vísast bróðurpartur þjóðarinnar (bróðurpartur, hafið þið spáð í pólitíkina í þessu orði?!).
Og svo getum við líka verið glöð yfir því að loksins eru konur ráðnar til þess að stjórna bönkum. Guð láti gott á vita; þetta sýnir að mínu viti að við erum þegar farin að draga dýrmætan lærdóm af reynslunni.
Mínum heittelskaða finnst ég dálítið skrítinn fugl, hann hefur engan sérstakan áhuga á peningum og fær því engan veginn sama kikkið út úr því að setja saman fjárlög fyrir heimilið og yðar einlæg. Já, ég verð bara að viðurkenna það að ég hef haft dálítið gaman af því að leggja sparnaðarlínur á la 1996 að undanförnu, búa til Excel-skjal yfir innkomuna og útgjöldin og (Hildur, hættu að hlæja, það heyrist í þér upp í Þingholtin!). Pínlegt. Að minnsta kosti hingað til. En kannski verður minn stíll bara kúl á næstunni.

Ég tek samt ekki slátur (en kaupi frosna keppi).

Sparnaðarráð mun því fylgja pistlum mínum á næstunni, það fyrsta er frá bróðurnum ofangreinda: Það dugir að nota eina teskeið af uppþvottadufti í uppþvottavélina. Ef þú hefur asnast til að kaupa töflur í stað dufts skaltu brjóta þær í fjóra mola og nota einn slíkan í hvern uppþvott. Það er alveg nóg.

***
Ég lýsi hér með frati á þessa orðanotkun, að líkja áföllum í peningamálum við náttúruhamfarir, flóðbylgjur, hvirfilvinda o.s.frv. Ég lærði á námskeiði í gær hjá Kvennakirkjunni um feminíska vistguðfræði að svona orðræða er apocalyptísk, þ.e. tekin úr heimsendaspá Opinberunarbókar Jóhannesar (aftast í Biblíunni) sem boðar mannkyni eld og brennistein í syndalaun (Skaftárhlaup?) og hefur verið nýtt mest af vakningapredikurum. Gætum orða okkar. Heimurinn er ekki að farast. Við erum bara blankari en við vorum áður.

P.S.. Myndskreytingar dagsins eru frá því að Veturinn var með forsýninguna um daginn.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf jafn gaman að lesa bloggið þitt, ég kíki stundum á nokkrar færslur í einu svona ef það er langt síðan ég hef endað hér inni síðast ;)

Ég asnaðist einmitt til að kaupa töflur í uppþvottavélina í gær, ætli maður stefni þá ekki á góða kvöldstund við að brjóta þær niður (í hönskum og með grímu væntanlega, mér er svo illa við þetta eitur ;)). Ég kenni því um þessi heimskulegu kaup að ég kann ekkert á uppþvottavélar, fékk mína fyrir 9 mánuðum og neitaði að nota hana fyrsta mánuðinn, vaskaði alltaf upp við hliðina á henni ;)

Nafnlaus sagði...

Yndisleg skrif, hafa góð áhrif og skapa vellíðan :)
Símumst á eftir..
knús litla systir

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð vinkona, þörf ábending og góð. Það má alltaf treysta á þig og já, ég skal líka hætta að hlæja.....

Ég verð á ferðinni um helgina og stefni á kaffisopa og knús á Hallveigastígnum
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg.

Nú fæ ég meira samhengi í af hverju ég kunni alltaf svona vel við Kristján Þ. Davíðsson, fyrrum vinnufélaga minn hjá Glitni (ég hætti þar fyrir tæpum tveimur árum), hann er sem sagt bróðir þinn!! Þetta vissi ég ekki. Við sátum meira að segja einu sinni saman á borði með börnin okkar á jólaballi starfsmannafélags Glitnis og röktum okkur merkilegt nokk ekki saman ættfræði- eða landfræðilega eins og íslendinga er nú gjarnan siður.

Kveðja, Herdís Pála.

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð mín kæra.

Sammála öllu sem þú segir, við deilum sömu lífssýn góan mín. Og nú er runninn upp tími excel skjalanna fyrir heimilisbókhaldið! Ó mæ god, hlæ nú ekki mikið að því lengur, ehem, er ekki upplagt fyrir ykkur heiðurshjónin að auka tekjuinnstreymið með því að halda örnámskeið fyrir okkur hin sem höfum tekið "þetta reddast" á heimilisbókhaldið undanfarin ár.

En jæja, fátt er svo með öllu illt... nú er ekki lengur púkó að vera opinber starfsmaður! kominn tími til.
Heyrumst nú fljótlega, þarf endilega að kíkja í kaffi á Hallveigarstíginn við fyrsta tækifæri.
Knús á ykkur öll.

bjarney sagði...

Heyr heyr!!! Hressandi lesning!
Bestu kveðjur
Bjarney