Líf í árvekni: Ösku(r)dagur

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Ösku(r)dagur

,,Aarrgh! Nú ég öskra aþþí það er öskurdagur!“ Skottan skilur hlutina sínum skilningi sem ósjaldan færir okkur nýtt sjónarhorn á hvunndaginn. Hún var eina graskerið á leikskólanum í morgun; þar voru aftur á móti sirka 37 prinsessur.

Ég hef verið ódugleg við netskrifin að undanförnu og reyndar velt því fyrir mér af þeim sökum hvort ég ætti ekki að leggja þetta alveg af. Það er ekkert varið í blogg sem ekki er sinnt almennilega, finnst mér. En svo hef ég ekki enn látið verða af því að skrifa lokapistil, kannski af því að ég vil hrista af mér þá asnalegu lífsskoðun að allt sem kona gerir verði hún að gera vel og helst listilega vel.

Ef allir lifðu í þess konar óþolandi fullkomnunaráráttu þá væri líkast til fátt eitt gert yfirhöfuð; kröfurnar í eigin garð myndu kæfa allar tilraunir til að svo mikið sem fara af stað í ný verkefni.

Ástæðan fyrir því hvað ég hef verið fámál hér á skjánum að undanförnu er sú að ég er um það bil að hverfa alveg inn í þoku löngu liðins tíma (og þá meina ég löngulöngulöngu) og landslagið þar krefst svo mikillar einbeitingar til að hægt sé að greina/skapa þar fólk af holdi og blóði að pælingar allar um kúnstina að lifa í djúphygli og einn dag í einu leysast upp áður en þær eru orðnar að nokkru.

Já, ég er sem sagt að vinna í nýrri bók og nei, ég ætla ekki að tala meira um hana fyrr en henni er lokið, hvenær sem það nú verður - það fer mest eftir því hvað lífið býður upp á mikið næði til skrifa og líka dálítið eftir því hversu góður launasjóðurinn listamannanna verður við mig ;o)

Ég var svo ljónlánsöm að detta í starfslaunalukkupottinn, þetta árið að minnsta kosti; fékk úthlutað launum í sex mánuði og fyrir það er ég þvílíkt þakklát og enn ákafari en ella við vinnuna - því ekki getur kona legið á ríkisjötunni mánuðum saman án þess að skila einhverju til baka til skattgreiðendanna. Vil samt láta þess getið að vér sem erum þessir lukkunnar pamfílar að hreppa úthlutun borgum líka skatta af öllum launum okkar og 5,7% tryggingargjald í onálag af hverri krónu því að við erum sjálfstæðir einyrkjar og verðum að borga af okkur ,,launatengd gjöld“ eins og aðrir atvinnurekendur (einyrkjar, þetta er gott orð = að yrkja ein).

Starfslaun listamanna eru sem sagt ekki skattfrjáls styrkur eins og sumir kannski halda. Bókmenntaverðlaun öll eru líka skattskyld; þeir sem tóku inn Íslensku bókmenntaverðlaunin eru sirka ...reikn reikn... 450 þúsund kalli ríkari núna að frádregnum skatti og tryggingargjaldi af þessum 750.000 krónum sem hvor fékk í sinn hlut. Ágætis laun það sosum og tvöfalt meira en ég fæ brúttó á starfslaunamánuðinum (tæp 240 á mán., ég sko) en kannski ekki neitt til að fara í siglingu um Karabíska hafið fyrir. Upphæðin var ein milljón í upphafi, árið 1989, sem var þá reyndar veitt einum höfundi en ekki tveimur, fyrstu þrjú árin.

Um daginn benti Sindri Freysson rithöfundur á það í blaði að ef millan sú væri framreiknuð samkvæmt lánskjaravísitölu væri hún tvær í dag. Rithöfundasamband Íslands hefur síðan bent á að síðustu tíu ár hefur mánuðum til úthlutunar til listamanna ekki verið fjölgað um einn einasta og það þótt þjóðinni hafi bæði fjölgað þó nokkuð og farnast vel þennan áratug.

Úthlutunarnefndir hafa tekið það örþrifaráð að úthluta í enn minni skömmtum en áður svo að fleiri komist að og ,,nýliðun“ geti orðið í stéttinni; núna fengu 30 laun í þrjá mánuði, 29 fengu sex mánuði, tólf í eitt ár og þrír í þrjú ár. Ég hef reyndar heyrt því fleygt á skotspónum að í örvæntingu sinni hafi nefndarfólkið tekið upp á því að kasta upp á krónu um það hver á að lenda oní lukkupottinum og hver utan þegar í algjört óefni er komið. Nei, þau eru víst ekkert sérlega öfundsverð af sínu hlutskipti.
Ég veit samt ekki hvort nokkur vinnustaður er til í að hafa það fólk í vinnu í níu mánuði á ári sem ætlar að vera rithöfundar í þrjá. Hvað þá sex, ef út í það er farið. En það eru alltaf einhverjar leiðir færar ef kona er nógu þrjósk, þýðingar og fleira.

Annars var ég víst búin að lofa því að tala ekki um það sem væri ,,í umræðunni.“ Svona er lítið að marka mig. Ég ætlaði bara að segja halló, benda á góða bók sem ég var að lesa og segja svo bless. Bókin heitir Leitin að tilgangi lífsins og er eftir Viktor Frankl. Þar segir meðal annars um leitina að tilgangi lífsins:
Að spyrja almennt þessarar spurningar (um það hver tilgangur lífsins sé) væri eins og þegar skákmeistari var eitt sinn spurður: ,,Segðu mér, meistari, hver er besti leikur sem til er?“ Það er einfaldlega ekkert til sem er besti eða jafnvel góður leikur nema með tilliti til aðstæðna í skákinni og persónuleika andstæðingsins. Sömu sögu er að segja um mannlegt líf. Menn ættu ekki að leita að óhlutstæðum tilgangi lífsins. Sérhver maður hefur sína eigin sérstöku köllun eða ætlunarverk í lífinu, ákveðna skyldu sem ber að rækja. Enginn getur komið í annars stað og líf hvers og eins verður ekki endurtekið. Þess vegna er ætlunarverk hvers manns jafn einstætt og tækifæri hans til að ljúka því.

Allar aðstæður lífsins gera kröfu til mannsins og fá honum í hendur vandamál til lausnar. Þess vegna má raunverulega snúa spurningunni um tilgang lífsins við. Þegar öllu er á botninn hvolft ætti maðurinn ekki að spyrja um tilgang lífsins heldur gera sér ljóst að spurningunni er beint til hans. Í stuttu máli sagt: Lífið spyr sérhvern mann og hann getur aðeins veitt því svar með því að taka ábyrgð á eigin lífi. Eina svarið sem hann getur gefið lífinu er að axla ábyrgð.“
Bless.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa mín og til hamingju með starfslaunin, hlakka til að lesa bókina þína þegar hún kemur út, ég kíki alltaf reglulega á netskrifin þín þú ert svo frábær penni.
Ég ætla að næla mér í þessa bók sem þú ert að lesa, ekki veitir af að komast af því hver tilgangurinn er með þessu öllu.
Bestu kveðjur
Gerður.

Alda sagði...

Frábært fóður fyrir hugann þessi tilvitnun. Og til hamingju með starfslaunin - gangi þér vel með skrifin!

Nafnlaus sagði...

Til lukku með starfslaunin. Gaman verður að fá í hendur nýja bók í fyllingu tímans. Í V.M.A. er verið að láta nemendur lesa "Hrafninn" og er það vel.
Bestu kveðjur og gangi þér vel
Vala og Gunnar

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með starfslaunin! Og gangi þér vel að skrifa. Það er reyndar mikið rétt, þjóðirnar vorar mættu alveg veita fleiri skáldum starfslaun á þessum siðustu góðærum. Í Finnalandi er starfslaun listamanna skattfrjálst en mánaðarlaunin eru 1400 évrur. Svo fær maður eitthvað fyrir bækurnar sinar og smiðar á sumrin (kominn með verkefni fyrir kaup í næsta sumar)
Var reyndar að skrifa undir útgæfusamning á næstu bók, skuggalegar smásögur, og nú vantar mig bara að skrifa bókina... nei,hún er nú reyndar meira en hálfnuð. Til lukku og kveðja austan salts.

Nafnlaus sagði...

Allir vita náttúrulega að svarið við hinni stóru spurningu er 42, allavega samkvæmt Adams. Til hamingju með launin og mættirðu detta í enn stærri lukkupott næst þegar kastað er krónu í nefndinni.

Nafnlaus sagði...

A quick hello from Edinburgh where there is nothing to see, Arthur Seat has been shrouded in mist.
greetings, Arnot

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa,til hamingju með starfslaunin þó að ekki séu þau mjög mikil, bíð spennt eftir nýju bókinni, ég kíki annaðslagið á síðuna þína þú kannt sko að skrifa.
Ég les auðvitað nýju bókina þína þegar hún kemur út.

Nafnlaus sagði...

Æ ekki hætta að blogga það er svo dásamlegt að lesa skrif þín.
Gangi þér vel með bókina...hún verður örugglega jafn frábær og allt sem frá þér kemur.
Ég var að skrá fornleifar í Dýrafirðinum í haust og Biggi fór á Ingjaldssand á slóður forföður ykkar, held að hann hafi heimsótt mömmu þína líka.
Bestu kveðjur.

Nafnlaus sagði...


xvideos porno