Líf í árvekni: Griðastaður andans

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Griðastaður andans

Ég hef eignast Bláan stól. Hefði ekki trúað því hversu mikið þarfaþing hann er og hversu mjög hefur miðað í andlegri viðleitni frá því að þessi innkaup fóru fram í síðustu viku. Ég hef fundið mér afdrep, griðastað andans, uppsprettu friðar og æðruleysis, hvorki meira né minna. Já, og skapandi hugsana, sem er ekki síst mikilvægt sé horft til þess að ég hef lifibrauð af þess háttar.

Á skilaboðunum á litla tepokamiðanum frá Yogi sem ég hef hér fyrir framan mig segir einmitt: ,,A relaxed mind is a creative mind." Mæltu manna heilastur, Yogi sæll.

Búin að fengshjúa burt allt sem ekki á heima þarna í horninu á herberginu mínu: strauborðið komið upp á loft á bak við hurð og strauboltinn inn í eldhússkáp (sem ætti að gleðja vinkonu mína sem er núna í New York að tala á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna ), saumavélin undir borð, skáldsögur og kennslubækur í tungumálum fram í bókahillurnar í stofunni og andans bækur komnar upp í staðinn ásamt með ilmkerti (vanilluilmur), reykelsi (sandalviður) og litlum róðukrossi úr Kirkjuhúsinu (pjátur).

Nú hefst dagurinn ekki á því að ég eyði fyrstu klukkustund hans í að rífast við sjálfa mig um það hvort ég eigi að andskotast fram úr eða flýja aftur inn í svefninn þar sem engar kvíðahugsanir búa, og þeirri næstu í að taka seinni kostinn með þeim afleiðingum að ég fyllist skömm yfir þessarri húðarleti og aumingjagangi, heldur stekk ég nú (OK, kannski stekk ekki en fer a.m.k.) strax fram úr full tilhlökkunar og er að loknum hefðbundnum morgunverkum (þrif, spasl, næring) sest í Bláa stólinn með rjúkandi kaffibollann og bók í hönd.

Sit þar við lestur nærandi lesefnis í lágmark heilan klukkutíma og anda að mér bæði vanilluilminum af kertinu og speki hugsuða bæði íslenskra og útlenskra og velti fyrir því fyrir mér hvernig ég geti sem best notið góðs af og nýtt mér í hvunndeginum.

Mæli eindregið með eftirtöldum bókum sem eru við höndina þessa vikuna:

Rúmhelgir dagar: Bókin um hversdaginn og trúna e. Karl Sigurbjörnsson.
Your Soul´s Compass: What is Spiritual Guidance ? e. Joan Borysenko og Gordon Dveirin.
Minding the Body, Mending the Mind e. Joan Borysenko.
Language of Letting Go e. Melody Beattie.
Women in Old Norse Society e. Jenny Jochens.

Í Sálarkompásnum las ég til að mynda í gærmorgun um níu ávexti andans, þar á meðal sjálfsstjórn og góðvild (þeir eru taldir upp allir níu í Galatabréfinu hans Páls, 5. kafla, vers 22) og ég ætla ekki að segja ykkur hvað það kom sér vel klukkan hálfssjö um kvöldið þar sem ég stóð yfir matseldinni sem átti að vera lokið talsvert fyrr en það svo að Minn kæmist á spænskunámskeiðið á réttum tíma, hjálpaði eldri dóttur minni að sortera gamlar bækur í Kolaportsölu, yngri dótturinni að fá sér Svala og syni mínum með heimanám í dönsku og íslensku, auk þess sem ég tók við hávaðaskömmum fyrir að vera ekki nógu fljót að því (þ.e. heimanámsaðstoðinni) þar sem hann átti að vera kominn á Hitt heimilið á þessari sömu stundu í mat og mátti ekkert vera að þessu slóri (við erum að tala um Únglinginn í skóginum sem hefur ekki komið á réttum tíma heim á Þetta heimili frá því ....égveitekkihvenær)!

Og í þeirri næstsíðasttöldu, Slepptu-tökunum-bókinni, sá ég í morgun afar gagnlega ábendingu (við 6. mars ef þú átt bókina) þess efnis að okkur væri hollt að láta af þeirri ranghugmynd að við eigum að hafa áhyggjur ef okkur er annt um að leysa úr einhverjum vanda eða ágreiningi - þessi undarlega trú endurspeglast í því sem ég býst við að við eigum flest til, þ.e. að fyllast kvíða og tapa hugarrónni því lengur og meir sem okkur er umhugaðra um að hlutirnir komist í lag.

Þetta hefur nefnilega þveröfug áhrif við það sem við vonumst eftir: áhyggjurnar og kvíðinn reisa vegg í kringum vandann og það er ekki fyrr en við finnum hugarró aftur sem lausnin finnur sér hindrunarlaust leið til okkar.

Eins og til dæmis Blái stóllinn minn, sem rataði til mín í samtali við mína ágætu anamchara yfir tebolla og kertaljósi þarsíðasta þriðjudagskvöld. Segi ykkur seinna hvað anamchara er.

P.S. Lesefni Skottunnar í stólnum er The Practice of Kindness, hugleiðingabók sem mér var gefin af veðurfréttakonu nokkurs konar fyrir margt löngu og hefur miðlað mér miklu. Takk fyrir það ;o)

5 ummæli:

Alda sagði...

You're welcome. ;) Vonandi nýtist hún Skottunni einnig vel.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með bláa stólinn!
Knús auður lilja

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með stólinn Vilborg! Honum svipar mjög til stóla af gerðinni "lazy girl" sem eflaust mætti þýða og staðfæra sem slaka stúlkan. Mikið er ég líka ánægð með það að græjan sem þú sem þú minntist á er farin úr herberginu.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með Bláa stolinn! Alveg lifsnauðsinlegt að eiga ser hreiður fyrir griðastað andans. Eg hef ekki latið af þvi siðan eg var barn. Isak er farin að bua ser til hreiður eða einka kofa her og þar i stofunni. Gaman að fylgjast með þvi. Afhverju skildum við lata af þvi þegar við
eldumst?

Christine sagði...

Vá er gott að vera aftur með fyrrverandi mína, þakka þér dr. Ekpen fyrir hjálpina, ég vil bara láta þig vita að þetta er að lesa þessa færslu ef þú ert með mál með elskhuganum þínum og leiðir til skilnaðar og þú gerir það ekki Vilja skilnaðinn, Dr Ekpen er svarið við vandamálið. Eða þú ert nú þegar skilnaður og þú vilt samt að hafa samband við hann. Dr Ekpen stafrænar rifrildi núna (ekpentemple@gmail.com) eða whatsapp hann á +2347050270218 og þú verður klæddur sem þú gerðir.