Hef að undanförnu verið að velta ofanverðu fyrir mér og máta við eitt og annað sem hendir í daglega lífinu (sem er auðvitað lífið sjálft eins og það leggur sig). Þessi setning er ákaflega notadrjúg og gagnast mjög vel við að draga úlfaldalest í yfirvigt saman og minnka aftur niður í mýfluguna sem þeir voru áður en ég hugsaði þá upp úr öllu valdi.
Sem dæmi um aðferðarfræðina get ég tekið úrvinnslu á því þegar Únglíngurinn í Gelgjuskóginum týndist þar í haust og hefur síðan hunsað að miklu leyti óskir yðar einlægrar um að verja tíma sínum að loknum skóla á heimili okkar þegar svokölluð mömmuvika stendur yfir (önnur hver vika). Þess í stað situr hann daginn langan við tölvuleiki í föðurhúsum sínum, sem eru nokkru nær skólanum en móðuróðalið og sígur af stað austur í Þingholtin þegar/eftir að kvöldmatartími brestur á, iðulega fyrir eftirrekstur símleiðis.
Framan af snerust hugsanir mínar mikið um allt það sem ég hef heyrt og lesið um tölvuleikjafíkn, ofbeldisónæmi sem af slíku getur vaxið og tilheyrandi afbrotaferill, eftirlitslausar ferðir hormónaólgandi unglinga um villustigu Netsins (og skort á læsingu á xxx-síðum), afleiðingarnar af skorti á samskiptum og samveru kynslóðanna sem birtist í alræmdu kynslóðabili og virðingarleysi við þau gildi sem vér viljum í heiðri hafa, svo sem eins og notalega samverustund við kvöldverðarborðið fjölskyldunnar og fylgni við landslög um ástundun skyldunáms (helst af einhverjum metnaði).
Snerust þessar hugsanir í þvottavélinni í kolli mér á 1400 snúningum á mínútu frá haustbyrjun og framyfir veturnætur með þeim afleiðingum að símafyrirtæki landsins högnuðust nokkuð af en eiginlega engir aðrir. Hringingar, eftirrekstur, ergelsi, prútt og pirra, samtöl við samforeldrana, niðurskurður á vasapeningum: Ekkert breyttist og vanlíðan óx á báða bóga.
Þar til ég fór loks að hugsa um Hið mikla samhengi hlutanna og hvort það væri nú ekki eitthvað í fræðunum góðu sem mér gæti nýst til að leysa úr þessari krísu, sem ástandið var vissulega orðið. Hvað skiptir nú mestu máli og hvað skiptir minna máli og hverju vil ég helst koma áleiðis til afkomendanna á þessum hlutfallslega stutta tíma sem ég hef til ráðstöfunar til að hafa einhver áhrif á hugsanagang þeirra og hegðan?
Niðurstaðan er sú að mér er það allra mikilvægast að eiga gott samband við börnin mín þar sem gagnkvæmt traust, væntumþykja og virðing ríkir. Auk þess vil ég að þau njóti velgengni í lífinu og skilji að mikilvægur þáttur í henni er hafa sjálfsaga til þess að leysa af hendi verkefni sem þeim finnst leiðinleg, svo sem eins og að læra fög sem þeim finnst (sökum þroskaleysis) ,,tilgangslaus og ekki vitund hagnýt.“ (Únglíngurinn: Danska, Sú uppkomna: Heimspekileg forspjallsvísindi.)
Í Hinu mikla samhengi hlutanna þarf það ekki að valda mér áhyggjum þótt drengurinn minn á fjórtánda æviári sínu vilji ,,fá að vera í friði" seinnipart dags eftir að skóla lýkur, til þess að dúlla sér í tölvunni föður síns án eftirlits eða bara lesa blöðin og tæma ísskápinn þar, burtséð frá því hvort það er mömmuvika eða ekki.
Eiginlega skildi ég hann mætavel þegar ég rifjaði upp eigin æsku; ég hefði sjálf gefið arm og legg fyrir að fá að vera í friði fyrir öllu og öllum á einmitt þessum sama aldri og talsvert lengur reyndar. Sá friður gafst loks tvo seinni vetur mína sællar minningar á heimavist MÍ en þá hafði ég sérherbergi í fyrsta sinn á ævinni - en glataðist vitanlega aftur þegar ég hóf sambúð á 19. árinu, skömmu fyrir stúdentsútskrift. (Síðasta athugasemd er í boði Endurminningasjóðsins ,,Krakkar mínir, þegar ég var ung þá ...“).
Ofan á þennan skilning lagðist útkoman úr miðsvetrarprófunum (að dönsku undanskilinni) sem sýndi svo ekki var um að villast að piltur stendur undir væntingum og vel það hvað lærdóminn varðar. Þar ofan á leggst einnegin sú staða að ég vinn mitt starf hér heima en ekki í leigðri aðstöðu úti í bæ eins og oft áður og starf mitt sem einyrki (rithöfundur) er þess eðlis að ég þarf sjálf algjöran frið til að geta sinnt því að gagni. Engar símhringingar, ekkert ,,mamma, má ég fá... /mamma, hvar er.../mamma, mig vantar...", engin húsverk í íhlaupum, í stuttu máli: algjöran frið. Vinnutíminn miðast við leikskóladvöl Skottunnar (9.30-17) og má ekki styttri vera, því ég kemst aldrei almennilega í gang fyrr en eftir alllanga (ótruflaða) yfirsetu og er yfirleitt í mestum ham þegar klukkan gefur til kynna að friðurinn sé úti.
Að þessu samanlögðu tókst mér með ágætum að sjá hvað ég er í rauninni ljónlánsöm og ekki nokkur þörf að kvarta. Ofan í kaupið hvarf síðan nístandi samviskubitið yfir því að drengurinn þyrfti að búa við þau ósköp að eiga tvö heimili þegar hann lýsti því yfir sjálfur að hann væri lifandis feginn þessu vikuskiptafyrirkomulagi því að þá fengi hann alltaf viku til að hvíla sig ýmist á mömmunni og pabbanum. (Nei, ég hafði að sjálfsögðu ekki orð á því að fyrir mína parta væri þetta eiginlega gagnkvæmt, kona kann sig nú! ;o) ).
P.S. Þessi mynd er tekin í dag í hinu glænýja Hvarfahverfi við Elliðavatn. Skondið nafn, Hvarfahverfi. Prófið að segja það hratt svona þrisvar sinnum. Samt ekki eins skrítið og Mururimi. Mururimi, Mururimi, Mururimi. Það sem fólki dettur í hug.
1 ummæli:
Hæ elskurnar.
Var að fatta að ég átti náttúrulega eftir að kommenta og óska ykkur innilega til hamingju með góðu tíðindin!!
Hef á stefnuskránni að koma við á Hallveigarstígnum í kaffi hið fyrsta, en vil náttúrulega alls ekki trufla ritflæðið. Stefnum kannski á grænan hádegisverð???
Luv, Hilla
Skrifa ummæli