Líf í árvekni: júní 2007

laugardagur, 30. júní 2007

Um vonina

Netheimavinur okkar og ,,æxlisbróðir,“ hann Þórir í Ameríkuhreppi, fann og færði okkur á bloggsíðunni sinni um daginn einstaklega góðan texta á ensku um vonir þeirra sem veikjast. Ég fletti höfundinum upp á netinu, Angie Cenneno (1952-2002), og fann textann hennar á síðu um sjálfsónæmissjúkdóm sem kallast polychondritis og væntanlega hefur verið hennar banamein, aðeins fimmtugrar að aldri.

Við flettingarnar rakst ég líka á annan góðan texta um vonina, eftir Vaclav Havel, sem meðal annars bendir þar á að von er hreint ekki það sama og bjartsýni - þið kannist við það vísast einhver hversu lýjandi dagskipunin um bjartsýni og jákvæðni getur orðið, þótt hún sé vitanleg gefin í bestu meiningu ;o)

En nóg um það, Havel bíður betri tíma - ég snaraði því sem Angie hafði að segja á milli þess að setja ofan í kassa nr 72 og 73 (rauða Kitchen Aid hrærivélin sem við fengum í brúðkaupsgjöf í fyrrasumar í kassa nr. 73) og tek fram að ávallt tapast eitthvað í þýðingu, tala nú ekki um í miðjum búferlaflutningum, en þið finnið frumtextann hjá Þóri þann 22. júní. Gefum Angie orðið á ástkæra og ylhýra málinu:

,,Veikindi minna okkur á að lífið er bæði brothætt og heilagt. Veikindi kenna okkur að við erum ekki ónæm. Sama á við um þá sem við elskum. Við áttum okkur á því að sú trú okkar að við séum ósæranleg er byggð á blekkingu. Veikindi jafna allt út. Það rennur upp fyrir okkur að lífið og dauðinn eru í rauninni nátengd og það á við hjá öllum. Veikindi bera okkur stórkostleg boð um að taka eftir helgi lífsins. Þau vekja okkur til vitundar um það sem er dýrmætt, um að taka eftir hvunndeginum, um að vera til staðar hér og nú, um að setja líf okkar í rétt samhengi við líf annarra og við alheiminn. Þau kalla á okkur að gangast við stað okkar í óendanleikanum og eilífðinni, að spyrja ,,stóru“ spurninganna og njóta ,,einföldu“ svaranna. Til þess verðum við að finna þjáningunni réttmætan stað, viðhorf sem veitir voninni rúm.

Alvarlegur sjúkdómur er ferðalag, ferðalag í von, á ókunnan áfangastað. Í veikindum er tvískiptingin skýr. Vonin á sér stað milli einkennanna og sjúkdómsgreiningarinnar, milli greiningarinnar og lífshorfanna. Hún er í glímunni á milli vísindanna og samúðarinnar; milli líkama og sálar, milli sársauka og lausnar frá sársauka. Hún er í vandanum við að velja á milli óttans við að vera ein og hungursins eftir einveru.

Vonin er í biðinni – eftir niðurstöðum úr rannsóknum, eftir læknisviðtölum, eftir því að líkaminn grói sára sinna og sálin tendrist á ný. Að vona er að feta línuna á milli stöðugra skoðana og innrása og þess að lýsa því yfir að nú sé nóg komið; ekki meira, ekki núna. Vonin um að lifa af er ekki eina vonin; oft á tíðum er það ekki einu sinni helsta vonin. Við vonumst eftir að verða ekki hömluð. Að vona er að vita að einhver leggur sig fram um að hjálpa, að fjölskyldan er aldrei langt undan, að kerfið ber umhyggju fyrir okkur, að við njótum bestu tækni sem völ er á og þess besta sem býr í manneskjunum. Að vona er að vera sinnt af fólki sem skilur að umhyggjan skiptir máli, óendanlega miklu máli.

Vonin liggur í því að komið sé fram við okkur eins og manneskjur en ekki eins og enn eitt tilfelli af tilteknum sjúkdómi. Að vona er að vita að ekkert er haft að leyndarmáli og að við séum þátttakendur í meðferðarteyminu. Vonin felst í því að vera hvött til þess að gera eins mikið og við getum fyrir okkur sjálf. Vonin felst í því að reyna aftur, að fara gegn líkunum, að vita að verið er að gera allt sem hægt er að gera, að vita að umhyggjan muni halda áfram þegar komið er að mörkum þess sem er í valdi vísindanna.

Að vona er að afneita tölfræðinni, að rétta fram höndina út yfir það hefðbundna, að halda þeim möguleika opnum að vera undantekningin. Að vona er að hlusta á undirmeðvitundina, að eiga drauma í heimi svefnsins og drauma í heimi meðvitundarinnar, að velta því fyrir sér hvort kraftaverkin geti gerst, um að vera heilluð af litlu kraftaverkunum, orðunum sem líkna og lækna, minninu sem leyfir okkur að gleyma. Að vona er að lifa af ástríðu, að taka eftir lífinu, þrá lífið, þoka sér í átt til lífsins, vera fús til þess að halda þétt utan um lífið þrátt fyrir áhættuna. Að vona er að gera sér grein fyrir því að dauðinn er ekki óvinurinn, heldur hitt að lifa aldrei.

Þjáningin gerir okkur auðmjúk. Vonin færir okkur fram á veginn. Við öðlumst skilning á því að við erum meðal margra sem veikjast, meðal margra sem finna til og eru hræddir, eru í þörf og geta ekki útskýrt þá óvenjulegu reynslu sem við höfum lært að treysta á, reynslu sem engin orð ná yfir. Þjáningunni fylgir skilningur; skilningur sem á sér rætur djúpt innra með okkur og mælir fram úr annarri vídd lífsins."

miðvikudagur, 27. júní 2007

Góð tíðindi

Það fór eins og við vonuðumst til; niðurstaðan úr MRI myndatöku dagsins um stöðu mála í kolli prinsins er hin sama og á þessari hér til vinstri. Ástandið er gott - miðað við allt og allt.

Málið er reyndar ekki einfalt; eins og þeir segja læknirarnir þá er prinsinn afar ,,unusual" (ég vissi það nú fyrir) og mikið er ég fegin að við fórum að uppástungu (frá sænskum hjúkrunarfræðingi sem er í sambúð með Íslendingi, á íslenskan mág í Edinborg og við hittum af tilviljun í Maggie´s Centre) um að filma fundinn með dr. Grant taugasérfræðingi, því það stóð vitanlega bunan út úr honum á læknalatínunni - í sirka 40 mínútur.

Myndatakan fór fram kl. hálfeitt og fundurinn hófst upp úr tvö þannig að ekki var búið að greina myndirnar til fullnustu né gera um þær skýrslu, en meginniðurstaðan er sú að æxlið sýnist að mati læknisins ,,pretty stable" eða nokkuð stöðugt og ekki í vexti.

Aukin heldur er gott að vita að á myndinni sást ekki arða af því sem kallast á læknamálinu ,,enhancement" og ég veit ekki hvernig á að þýða (dr.Palli?), en sé slíkt til staðar er það skýr vísbending um illkynja vöxt (þ.e. frumubreytingar af 3.-4. gráðu). Örsmátt slíkt svæði sást á CT myndinni sem var tekin um miðjan maí - í veikindunum sem ollu því að Björgvin fór á spítala í nokkra daga - en það er sem sagt horfið núna!

Þann fyrirvara verður þó að hafa á fögnuðinum að illkynja vöxtur sýnir sig ekki alltaf sem ,,enhancement" og getur verið til staðar í leynum. Á MRI-myndatökunni í nóvember sást til dæmis ekkert ,,enhancement", en þó sýndi vefjarannsóknin að á litlu svæði í æxlinu, sem að stofni til og langmestu leyti er af 2. gráðu, voru samt sem áður frumur sem höfðu þegar tekið 3. gráðu breytingum, og voru að einhveru leyti komnar í átt til 4. gráðu. Hvað sem því líður er taugasérfræðingurinn okkar, hann dr. Grant, mjög bjartsýnn á að það sem eftir sé af æxlinu sé allt saman af 2. gráðu og vöxtur þess þar af leiðandi mjög hægur og lítið ífarandi.

Umfang æxlisins hefur ekki minnkað við geislameðferðina en við vissum reyndar fyrir að þess væri ekki að vænta strax því að heilinn er afar lengi að losa sig við dauðar og skaddaðar frumur. Bólga er hins vegar engin lengur í heilanum sem skiptir mjög miklu því hún veldur slæmum einkennum og krefst sterameðferðar, sem til langs tíma veldur síðan enn öðrum einkennum. Apótekið hjá mínum hefur því skroppið saman til muna og telur nú aðeins höfuðverkjalyfið góða og tvær tegundir flogalyfja, sem fækkar í eina á nokkrum næstu vikum, auk átta gerða af bætiefnum og vítamínum sem styrkja ónæmiskerfið og vinna gegn æxlinu.

Við erum ekki komin með afrit af myndunum ennþá (væri gaman að sýna ykkur eintak því þar sést vel að prinsinn er nú með holu í höfðinu!) en rýndum í þær með doksanum og hann benti okkur þar á enn eitt tilefnið til ánægju; nefnilega að nú sést greinilega að æxlið þrýstir ekki lengur á miðlínu heilans eins og það gerði fyrir skurðaðgerðina.

Fyrir þá sem ekki hafa spöglérað svona djúpt í svonalöguðu eins og við heilafílarnir, þá má segja til skýringar að heilinn skiptist hnífjafnt í tvö hvel um miðbikið og á þversniðsmyndum sést svokölluð miðlína þar sem hvelin mætast. Vaxi æxli yfir miðlínu er mikil hætta á ferðum, en svo er sem sagt alls ekki og þrýstingur af völdum æxlisins þar ekki lengur til staðar, línan er bein og fín, svo er færni heilaskurðlæknisins Ian R. Whittle fyrir að þakka.

Hvenær vöxtur fer af stað aftur getur enginn spáð fyrir um því hver einstaklingur er ólíkur öðrum og engin tvö heilaæxli haga sér nákvæmlega eins, fyrir nú utan það að læknavísindunum hefur ekkert orðið ágengt í að skilja hvað kemur þeim af stað eða hvers vegna þau haga sér á þennan veginn eða hinn. Lyfjameðferð er úrræði sem við eigum til góða þegar þörf krefur og geymist vonandi enn um margra ára sinn. Miðað við ofansagt allt saman höfum við góðar forsendur til að vera bjartsýn, auk þess sem líðanin öll er orðin aldeilis góð eftir endurnærandi ferðalag um Hálöndin & eyjarnar, höfuðverkirnir horfnir, engin flog á árinu og minnið hjá prinsinum að ýmsu leyti betra en yðar einlægri ;o) (þetta síðasttalda segir kannski ekki mikið..)

Hann hefur nú lýst því yfir að hann hyggist tala næst um heilsufar sitt að ári, þann 27. júní 2008, og er í þessum skrifuðum orðum tekinn til við að pakka oní kassa af miklum móð, en hefur fram að þessu hlýtt skýrum fyrirmælum mínum um að láta allt slíkt vera. Verð að hlaupa áður en hann fer að asnast til að bera kassana upp stigann - - - !

P.S. Þau hraustmenni sem þetta lesa, til okkar þekkja og vilja vera hjálpleg, eru beðin að spara krafta sína fram að þeim degi sem við fáum búslóðina úr tollinum, væntanlega í kringum 24. júlí, því prinsinum er eftir sem áður banna að lyfta nokkrum hlut og ég mun fylgja því banni eftir af fyllstu hörku!

þriðjudagur, 26. júní 2007

Skyggnst um gengna slóð

Kósýkvöld Björgvins í kvöld og því hef ég ákveðið að nýta tímann til að skrifa dálítið hér á skjáinn og fá mér pásu á því að pakka enda komnir einir 57 kassar og lítið eftir nema eldhúsið. Kósýkvöld Björgvins, fyrir þá sem þekkja ekki til, felur í sér að minn heittelskaði fer aleinn á myndbandaleiguna og velur sér filmu sem fellur að hans smekk (en yfirleitt ekki annarra í fjölskyldunni). Gjarnan verður fyrir valinu mynd eftir Tarkofskí eða einhvern enn tyrfnari, t.d. franskan leikstjóra hvurs nafn ég man ekki en byrjar svipað (Tartúff?), oft frá miðri síðustu öld, stundum í svarthvítu. Ég náði einu sinni að halda mér vakandi í gegnum ríflega hálfa slíka en það var nú í tilhugalífinu og kona varð að sýna lit.

Þessi hefð míns elskaða varð til fljótlega eftir að kynni okkar hófust, en þá höfðum við hin (þ.e. þrenningin í Hruna) um langt skeið tíðkað okkar heilögu Kósýkvöld hvert laugardagskvöld með tilheyrandi poppkornsáti og kókdrykkju; afkvæmin völdu þá hvort sína spóluna, undantekningarlaust framleidda í Hollívúdd og oftast af félaga Disney. Kósýkvöldin Björgvins eru þó aðeins haldin endrum og sinnum (til allrar ham.) og undanfarið misseri eða tvö hefur heimasætan reyndar haft annað við helgarnar sínar að gera en horfa á spólu með gamla settinu ;o)

Ég hef dálítið verið að hugsa um tímann að undanförnu og það sem er að baki í lífinu. Vísast út af öllum afmælunum og tímamótunum í fjölskyldunni þessa dagana; tengdamóðir mín elskuleg varð 80 ára í vikunni, dóttir mín eldri 20 ára í maílok og sú yngri þriggja ára tíu dögum fyrr. Ég taldi það út og varð hugsi yfir því að sonur minn sem verður þrettán ára í haust er um það bil jafngamall núna og ég var sjálf þegar langþráð litla systir mín kom í heiminn; um miðjan júlí eru liðin 29 ár frá þeim degi. Hvernig getur það eiginlega staðist?!

Heimasætan mín útskrifast með skoskt jafngildi stúdentsprófs núna á fimmtudag þótt engir séu hvítu kollarnir viðhafðir hér. Hugurinn leitar án þess að ég fái við það ráðið aftur til eigin útskriftardags fyrir ögn ríflega 20 árum og mikið er ég fegin hvað hver kynslóð virðist betur lukkuð að mörgu leyti en sú sem á undan fór :o) (án þess að þar sé ég beinlínis að leggja mat á það hvað karl faðir minn var að bardúsa um tvítugt - mamma var náttlega að eiga strákormana fjóra og mig á þessum aldri).

Á morgun, miðvikudag, er svo enn einn ,,stór dagur" í lífi okkar en þá eru liðnir þrír mánuðir frá því að prinsinn minn hugrakki lauk sex vikna geislameðferð við æxli sem óx á hippocampus-svæðinu (ísl: drekanum) í vinstra gagnaugablaði heila hans.

Í tilefni af því verður tekin af honum segulómunarmynd (MRI) til þess að sjá hvern árangur geislameðferðin hefur borið og hvort tekist hefur að stöðva vöxt æxlisins og -vonandi - minnka það sem eftir var og ekki tókst að fjarlægja í skurðaðgerðinni 12. janúar sl.

Rétt um eða yfir helmingur æxlisins var fjarlægður í aðgerðinni, sem Björgvin gekkst undir vakandi; erfitt var að meta það nákvæmlega vegna bólgu á skurðsvæðinu. Vefjarannsókn leiddi síðan í ljós að þótt æxlið væri að mestu af 2. gráðu var hluti þess sem náðist af 3.-4. gráðu (heilaæxli eru flokkuð í fjórar gráður af WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, eftir því hversu ífarandi þau eru og hve ört þau vaxa).

Tvennt olli því að ekki var allt fjarlægt í aðgerðinni; annars vegar að æxlið liggur djúpt og við stöðvar sem mjög hættulegt er að raska við og hins vegar að á meðan á skurðaðgerðinni stóð fékk prinsinn, þvert ofan í ,,fræðilega möguleika" höfuðkvalir svo að læknirinn treysti sér ekki til að halda lengur áfram - og enda búinn að vera að í sex klukkutíma.

Við vitum af því fyrirfram að ólíklegt er að æxlið sem eftir er virðist á morgun minna umfangs á mynd en áður, því þótt geislarnir hafi bæði drepið æxlisfrumur og skaðað getu mikils fjölda þeirra til að fjölga sér þá eru þær áfram þarna uppi í kollinum á honum og verða um sinn. Ástæðan er sú að heilinn hefur ekkert ,,drenkerfi" og er mjög lengi að losa sig við dauðar frumur. Næsta segulómunarmynd, sem væntanlega verður tekin í haust eða vetur heima á Íslandi mun vafalaust sýna minna æxli en sú á morgun.

Mynd morgundagsins verður notuð til viðmiðunar við eftirlitið sem prinsinn verður undir framvegis; síðari myndir verða bornar saman við hana til þess að sjá hvort æxlisvöxtur er farinn af stað aftur. Og enda þótt sagan sé ekki öll af viðureigninni við drekann, þá lítum við á morgundaginn sem stór tímamót á leið sem á stundum hefur verið erfið.

Við vitum þó ekki frekar en áður hvað er framundan í þessu ferðalagi um ævintýraskóginn, þar sem ýmist mæta okkur þrautir sem þarf að leysa og drekaafmán að eiga við eða kærkomin og friðsæl rjóður þar sem má tylla sér með samloku og kaffi á brúsa og njóta stundarinnar með góðum ferðafélögum (les: ykkur).

Vísast mun það taka einhvern tíma að fóta sig aftur og ná jafnvægi í þeim nýja hvunndegi sem við hlökkum óskaplega til að finna heima á Íslandi eftir skamma hríð. Ævintýrið heldur áfram...
P.S. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, sem tekin var í kvöld, skartar prinsinn nú börtum á nýjan leik!
P.P.S Lítið svo endilega hreint á færsluna hjá netheimavini okkar, honum Þóri í Ameríkuhreppi, á föstudaginn síðasta, sem er rétt búinn að fá þau góðu tíðindi úr sinni MRI myndatöku að enginn æxlisvöxtur sé í gangi í hans kolli. Er að vinna í að snara enska textanum þar á ylhýra en gengur hægt ;o)

föstudagur, 22. júní 2007

Sagan...

...um ferð okkar skötuhjúa um Hálöndin og eyjarnar hefur verið færð inn á myndasíðuna hérna í miklu hasti; viðbúið að kona sé búin að tapa flestum sínum blogglesendum á þessu nær tveggja vikna hléi frá skrifum og óvíst um samviskusemina næstu daga þar sem nú tekur við lokaspretturinn við að pakka búslóðinni sem fer í skip 5. júlí (glúmps!).
Lofa samt klárlega færslu á miðvikudaginn næsta (27. júní) en þá fer prinsinn í segulómskoðun (MRI myndatöku) og við fáum að vita síðdegis hvernig ástandið er í kollinum á honum eftir allt sem á undan er gengið. Treystum því að það verði eins og gefið er til kynna hér til vinstri en krossum samt putta til öryggis og vonum að sem minnst sé eftir af drekanum, helst ekkert nema dálitlar brunarústir.
Ferðasagan er aðallega í myndum (53 stk.) enda segja þær meira en mörg orðin. Einhverjir fróðleiksmolar hafa þó fengið að fljóta þarna með um söguleg ártöl, kirkjur og örnefni í sérviskulegum anda yðar einlægrar ;o)
Við vorum vitanlega ljónheppin með veðrið alla tíu dagana; ekki einn einasti rigningardagur en fimm í glampandi sól og yl - á sama tíma var víst úrhelli og flóð fyrir sunnan hjá þeim engelsku. Þegar við stigum af lestinni í Edinborg á miðvikudagskvöldið vorum við hins vegar boðin velkomin heim með þrumuveðursrigningu, sem var ósköp notalegt.
P.S. Safn af tenglum um ferðaslóðirnar er að finna undir fyrirsögninni Ferðin okkar hér til hægri, mæli sérdeilis með Orkneyjavefnum, vel hannaður og fróðlegur vefur.

fimmtudagur, 7. júní 2007

Um sápukúlur og helsta afrek sjálfsins

,,To be calm is the highest achivement of the self," fullyrðir miðinn á tepoka kveldsins frá Yogi Detox. Ég komst á þetta tebragð í vetur hjá vinkonum mínum tveimur (sem þó ekki þekkjast) og eru ekki síður spakar en tepokarnir.

Báðar hafa þær oftsinnis hjálpað mér við að koma ró á sálarlífið, með því að hlusta af einlægni og stakri þolinmæði á það sem yðar einlægri liggur á hjarta í það og það sinnið og deila með mér eigin reynslu, styrk og vonum (og hella upp á te og/eða hvítvín meðfram).

Vináttan er ómetanleg; það hef ég svo sannarlega fundið undanfarið misseri. Ánægjulegasta aukaverkun drekaskammarinnar sem hér hefur slett hala um bloggsíður oftar en tölu verður á komið, er að ég hef nú eignast náinn hóp vina og vinkvenna í stuðningssetrinu Maggie´s Centre sem rekið er í tengslum við Western General Hospital hér í Edinborg.
Við hittumst á þriðjudagsmorgnum í hálfan annan tíma, yfirleitt sex eða sjö í hvert sinn en erum níu þegar allir mæta, auk hennar Elspeth, heilsusálfræðingsins sem leiðir fundinn. Við segjum frá því sem helst hefur borið til undangengna viku, tölum um líðan okkar og fellum stundum tár en hlæjum ábyggilega mun oftar enda ekkert eins hollt fyrir sálarlífið eins og það að koma auga á spaugilegu hliðarnar á tilverunni, sem er til muna auðveldara þegar sitthvað kallast á við reynslu annarra sem hafa gengið svipaða slóð.
Við eigum okkur ýmsar tilvísanir sem alltaf vekja hlátur þótt húmorinn sé stundum svartur, svo sem eins og ,,Jekyll og Hyde heilkennið", ,,að spila út K-spilinu" og ,,ég er með heilaæxli, get ég vinsamlega fengið afgreiðslu hér áður en ég geispa golunni?!" (hún er víst annars mjög ensk og kurteis, konan sem lét þetta fjúka í biðröð í verslun í vetur).

Af þessum níu eigum við fjögur aðstandendur sem eru með heilaæxli, þar af er einn með krabbamein í vélinda sem hefur sáð sér í heila. Hin eiga ástvini sem glíma við hvítblæði, blöðrukrabbamein, eitlakrabbamein (tvö) og brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í lungu. Allt þetta indæla fólk býr yfir samanlagðri áratugareynslu af því að lifa með þessum óboðnu drekum á heimilinu og kann sitt hvað fyrir sér í því að halda rónni, þótt þeir fari iðulega með okkur óforvarandis í rússíbanareið.

Fyrir nú utan það að gjörþekkja hinar ýmsu aukaverkanir af lyfjameðferðum, geislameðferðum og steranotkun, vita hvernig best má tækla lækna með attitjúd og hvaða mat má helst bjóða fólki sem hefur misst lystina vegna ógleði eða vegna þess að bragðlaukarnir eru komnir í verkfall (eins og hjá Mínum, sem nú borðar helst rjómaís í öll mál og getur hvorki drukkið kaffi, te né Irn Bru lengur).
Einn vina minna hefur útbúið kínverskan garð með búddísku vatnsverki fyrir konuna sína, annar fékk sér hund til þess að hafa ærna ástæðu til að fá sér göngutúr daglega og komast að heiman frá konu sinni sem hann hefur annast í ellefu ár og er ekki lengur lík þeirri manneskju sem hann giftist. Ein vinkona mína á sínar bestu stundir þegar hún vinnur í garðinum á meðan maðurinn hennar, sem ekki má vera einsamall vegna veikinda sinna, getur séð til hennar í gegnum stofugluggann.
Önnur vinkona mín í Möggusetri er jógakennari, auk þess sem hún er fóstra, og hefur miðlað okkur hinum ýmsu góðmeti um hugleiðslu, slökun og nudd. Þessi þriggja drengja móðir fór í helgardvöl nýlega á Eyjuna helgu til þess að næra huga og sál; ferðasagan fékk okkur til að skella upp úr. Siglingin út í eyju var farin á litlum, hægfara mótorbáti sem duggaði þetta í rólegheitum en til þess að komast í land aftur á undan öðrum (til þess að geta mætt í vinnu á barnaheimilinu á mánudegi) mátti hún gjöra svo vel og fara sem farþegi aftan á sjóþotu sem þeyttist yfir hafflötinn á ógnarhraða og ríghalda sér lafhrædd í björgunarsveitarmann. Táknrænt, fannst okkur, að halda þannig úr heilagri rónni munkanna á Eyjunni helgu inn í ,,hvunndagslífið" á ný.
Lærdómurinn sem hún miðlaði okkur af þessari reynslu var ekki síður nærandi en hláturinn; þegar hún ákvað að hætta að vera hrædd þar sem það væri ekki til neins og áttaði sig á því að hún var ekki við stjórnvölinn en yrði að treysta á að sá sem væri við stýrið vissi hvað hann væri að gera, þá kom æðruleysið yfir hana á nýjan leik og hún naut ferðarinnar af öllu hjarta. Ég læt ykkur um að heimfæra þetta á lífið sjálft, hvernig svo sem kringumstæðurnar eru hjá hverju og einu, og hver sá æðri máttur er, sem stýrir ykkar för.
Úr hvunndeginum hér í Gilmore kastala er það annars helst að frétta að í morgun blésum við mæðgurnar sápukúlur saman og ég hengdi út þvottinn, en síðdegis fórum við prinsinn til heimilislæknisins og þaðan í apótekið eftir frekari birgðum af höfuðverkjalyfjunum góðu (sem enn virka vel!) og nýjum flogalyfjum (Keppra) sem koma í stað þeirra fyrri (Tegretol). Þau síðarnefndu eru sterklega grunuð um að hafa valdið hitavellu undanfarinna vikna sem - eftir að þau hafa verið minnkuð allverulega - hefur loks látið undan síga, þannig að prinsinn heldur í Hálanda- og eyjaferðina okkar bæði hita- og höfuðverkjalaus á sunnudaginn.

Bestu kveðjur að sinni - (við látum kannski frétta af okkur að norðan í næstu viku) - og munið nú að halda rónni á hverju sem dynur, því slíkt er vissulega æðsta afrek sjálfsins.

mánudagur, 4. júní 2007

Góðar fréttir & ferðaplön

Það er varla að kona þori að segja frá af ótta við að storka forlögunum en verð nú samt að gera það því það er svo ánægjulegt að deila því með ykkur að doktorinn Grant virðist hafa hitt naglann á höfuðið með greiningunni sinni á ,,hálfkúpu- höfuðverkjaköstunum."

Prinsinn hefur sem sé ekki fengið svo mikið sem eitt einasta höfuðverkjakast þessa fjóra sólarhringa sem liðnir eru frá því hann byrjaði á nýja lyfinu (indomethacin) á föstudaginn og það er lengsti tími sem hann hefur átt án höfuðkvala frá því að hann gekkst undir heilaskurðaðgerðina 12. janúar síðastliðinn, fyrir tæpum fimm mánuðum.

Ekki er nóg með það, heldur hefur hitinn verði eðlilegur þessa sömu fjóra daga, sem er sömuleiðis tímamet undanfarinn mánuð. Við erum því óskaplega lukkuleg og enda þótt þreytan sé reyndar enn talsverð og lystin lítil þá höfum við nú tekið ákvörðun um að láta verða af ferðinni okkar um Hálöndin & eyjarnar (sem við vorum eiginlega hætt við) 10. til 20. júní.

Minn maður hefur keppst við að beygja sig niður og tína dót upp úr gólfinu í allan dag - yfir sig glaður yfir að fá ekki höfuðverkjakast af því - svo yðar einlægri þykir nóg um og hefur haft uppi varnaðarorð sem vitanlega er ekkert hlustað á. Fékk í ofanálag að heyra það áðan að prinsinn væri greinilega berdreyminn því í nótt hefði hann dreymt að konan hans tryði því ekki að hann fengi ekki höfuðverki af því að beygja sig!

Við lukum við að skipuleggja (barnlausu) ferðina okkar í dag og áætlunin er í stuttu máli þannig að á sunnudaginn næsta förum við með lest til höfuðstaðar Norðurlands sem heitir Inverness og gistum þar í tvær nætur. Þaðan förum við svo með rútu til nyrsta odda Skotlands sem heitir John O´Groats og stígum þar um borð í ferju sem flytur okkur til stærstu eyju Orkneyja, sem er ekki mjög stór en heitir þó Mainland (Meginlandið).
Við dveljum þar í bænum Kirkwall (Kirkjuvogi) í fjóra daga og túrhestumst þaðan um allar helstu stein-og bronsaldarminjar Bretlands eins og orkan leyfir, en úrvalið af slíku á Orkneyjum er slíkt að megnið af meginlandseyjunni er á heimsminjalista UNESCO.

Fljúgum síðan frá Kirkjuvogi til Inverness aftur laugardaginn 16. júní og förum samdægurs með rútu meðfram Loch Ness og Loch Lochy (þar sem skrímslið Nessie á víst systur!) yfir á vesturströndina til litla hafnarbæjarins Oban. Þar ætlum við að fagna þjóðhátíðardeginum en halda á mánudeginum til lítillar eyjar sem heitir Tiree með ferju.
Tiree er syðst af Suðureyjunum sem við köllum svo af því að þær eru sunnan við Noreg, en Skotar kallar ýmist Western Isles, af því að þær eru jú út af vesturströnd Skotlands eða Hebrides. Eyjaklasarnir eru raunar tveir, innri og ytri, og Tiree telst til innri eyjanna.

Þar hyggjumst við njóta mesta sólskins sem Bretlandseyjar hafa upp á að bjóða (sjá heimsmetabók Guinness) og leiðast um hvítar sandstrendurnar í rósrauðri rómantík í tvo daga, en halda þá til hafnar í Oban að nýju og fara þaðan með rútu heim til Edinborgar þann 20. júní.

föstudagur, 1. júní 2007

P.I.U.

Það var annað hvort þessi fyrirsögn eða paroxysmal hemicrania - hljómar hvort tveggja mjög mikilvægt en fannst latínan gefa eitthvað hræðilega alvarlegt til kynna. Hún er læknisfræðilega heitið yfir höfuðverkjarköstin sem hafa hrjáð Björgvin undanfarinn mánuð og í dag fær hann nýja tegund af verkjalyfjum (indomethacin) til ad eiga við þau í staðinn fyrir paracetamol, co-codamol, og ibuprofen sem ekki hafa komið að neinu gagni. Sé greiningin rétt á þetta nýja lyf að koma alveg í veg fyrir frekari höfuðverkjaköst, en þau eru ólík því sem áður hefur verið, komið snögglega, verið eingöngu vinstra megin í höfðinu (þeim megin sem æxlið er) og staðið í 15-20 mínútur.

P.I.U. er ekki það sama og C.S.I. heldur er þetta skammstöfun fyrir Programmed Investigation Unit á taugadeildinni á spítalanum en þar vorum við í morgun og tekið var sýni af mænuvökva hjá Björgvin; það var liður i leitinni að ástæðunni fyrir hitavellunni sem hefur verið viðvarandi frá í byrjun maí. Vökvinn var glær og fínn ad sjá, sagði dr. Grant og býst svo sem ekki við að neitt nýtt komi í ljós en lætur vita eftir helgina ef svo er. Áfram á að minnka flogalyfið því liklegast er að hitinn sé aukaverkun af því.

Áttum yndislegan afmælisdag heimasætunnar í gær med pönnuköku- og ísáti, auk þess sem veðrið var med hlaðborð: Sól að morgni og 18 stiga hiti, þrumuveður, haglél og úrhellisrigning miðdegis, skýjað og hlýtt um kvöldið, glampandi sól og sæla í dag.

P.S. Viðbót á laugardegi: Ekki eitt einasta höfuðverkjakast sl. sólarhring sem bendir til þess að nýja lyfið sé að virka og greiningin um paroxysmal hemicrania hafi hitt í mark. Búin að fletta latínunni upp og hef búið til nýyrðið hálfkúpuhöfuðverkjaköst. Agalegt orð - kannski er latínan bara betri ; o)

P.P.S. Hér er myndasyrpa af hnoðrum sem eru að læra að fljúga.