Þegi þú, vindur!
Þú kunnir aldregi
hóf á hvers manns hag.
Langar eru nætur,
þars þú, inn leiðsvali,
þýtur í þakstráum.
Jónas Hallgrímsson
1807-1845
Þann 16. nóvember næstkomandi eru 200 ár liðin frá því að Jónas Hallgrímsson fæddist. Ég heilsa stundum upp á hann þarna í Hljómskálagarðinum þegar ég fæ mér labbitúr í kringum Tjörnina. Minn heittelskaði á einmitt sama afmælisdag og Jónas (og svo á hann bróðir sem heitir Jónas og ég á bróður sem á afmæli 16. nóvember en hvort tveggja er allt annað mál.)
Ég get alveg ímyndað mér hvernig ljóðið hans um vindinn sem þýtur í þakstráunum varð til. Það hefur verið síðla hausts, líkast til í október, hann sofið undir súð í gömlu húsi og átt erfitt um svefn fyrir vindgnauðinu og lemjandi rigningu á þaki og rúðu.
Ég á það líka til að vakna af værum svefni í súðarherberginu okkar þegar haustlægðirnar ryðjast yfir Þingholtin en ég verð ekkert sérlega skáldleg. Lít bara á vekjaraklukkuna, hjúfra mig aftur undir svanadúnssængina mína og þakka almættinu fyrir að ég þarf ekki að fara á fætur nærri strax.
RIGNING
Skuggabaldur úti einn
öli daufu rennir.
Skrugguvaldur, hvergi hreinn,
öli daufu rennir.
Skrugguvaldur, hvergi hreinn,
himinraufar glennir.
Jónas Hallgrímsson
1807-1845
Ó borg mín, borg. Ósköp er hún grá þessa októberdaga. Gráminn hefur nú samt einhvern sjarma, dulúð. Í álfa-og útilegumannasögum opnast helst milli heimanna þegar þokan grúfir yfir. Smali gengur yfir heiði, þokan skellur á, hann villist en skyndilega birtir til, við blasa græn tún og fólk í heyskap þar sem átti að vera grýtt jörð.Þokan er sögð ,,liminal" í þjóðfræðunum; þ.e. eins konar jaðarástand. Hún er hvorki hvít né svört heldur grá, mitt á milli myrkurs og birtu. Í þoku er hvorki rigning né þurrt - hún er þar mitt á milli. Kýrnar, sem sæfólkið átti til að reka á land forðum og gefa velgjörðarmönnum að launum fyrir greiða voru alltaf gráar. Þær mjólkuðu betur en nokkrar aðrar kýr - og ábyggilega miklu betur en sænskar kusur.
Á stað sem er hvorki né getur ýmislegt gerst.
5 ummæli:
... eins og á stað sem er bæði og ...
Fletti loks upp á latneskum titli ljóðsins á vefnum og komst að því að á ástkæra, ylhýra málinu heitir það bara Vindvísa en orðrétt þýðing á latínunni er: ,,Í norðangarra að næturlagi."
Saa vet man det.
Það eru nokkrir þarna úti sem hafa ekki enn tjáð sig um ,,nýyrðasmíð" yðar einlægrar, þ.e. notkun orðsins kempa í sömu merkingu og (cancer)survivor á ensku. Það er nóg pláss ennþá fyrir álit...
;o)
Vorum einmitt á slóðum Jónasar Köben fyrir hálfum mánuði, sáum húsið þar sem hann bjó!Er ekki hrifin af þokunni!!!
Til hamingju með frammistöðu eldri dótturinnar í prófinu!!
Mamma
Júh. Margt byr í þokunni, mér hefur hún þótt alltaf spennandi. Alveg frá því ég var púki. Sá einu sinni íslenskan álf í þokunni fyrir vestan, en meira um hann seinna.
Svo finnst mér í svona þokugráum lit sem er líka í skyjunum og klettunum og á sjónum stundum eitthvað dulrænt, jafnvel einhver dulinn heilagleiki.
Annars: mér finnst orðið "kempa" alveg mjög vel viðeigandi um "survivor". Það sem ég get nú dæmt um.
Ég er búin að máta þetta orð í huganum og það passar vel. Að vísu varð ég að skrifa yfir þá ímynd huga mér að kempa væri oftar karlkyns. Auðvitað er það ekki svo. Afsökun mín er að hugmyndinni um að karlkynið eigi hetjuskapinn hefur verið haldið að okkur í gegn um tíðina.
Kempa er prýðilegt orð og ég sé hana fyrir mér í þokunni. Þokan sem er stórkostlegt fyrirbæri. Fóður fyrir gæsahúð, ímyndunarafl og fegurð. Jafnframt svo róandi.
Skrifa ummæli