Líf í árvekni: Lífið er núna

föstudagur, 14. september 2007

Lífið er núna

Við erum alltaf að hitta fleira fólk sem hefur lesið þessi netskrif mín og þekkir sjúkrasögu míns heittelskaða eins og lófann á sér, og segist um leið ekki hafa kunnað við að kasta á okkur kveðju - sum af því að þau vita ekki hvað þau eiga eiginlega að segja, önnur af því að þeim finnst þau ekki nógu nákomin okkur til að ,,mega" það. (Nokkurn veginn sömu ástæður fyrir því hvað ég kvitta sárasjaldan sjálf undir annarra manna og kvenna netskrif þótt ég fletti í þeim reglulega.)

Það er bæði skrítið og skemmtilegt að komast að því að þið eruð svona miklu fleiri en ég hélt. Ég hef nefnilega ekki tekið neitt mark á teljaranum frá því að Únglíngurinn í skóginum sagði mér að út um allan heim væru ruslpóstfyrirtæki sem flettu daglega sjálfvirkt í öllum bloggum sem þau finndu á netinu í leit að netföngum nýrra fórnarlamba og það væri eina ástæðan fyrir því að hann rúllaði svona ört. Nú hef ég á hann nær daglegar reynslusögur raunverulegum vinsældum til stuðnings ;o)

Önnur afleiðing af þessu er að mér finnst ég alveg ómöguleg ef ég dreg of lengi að skrifa, allt upp í heila viku eins og núna. Fæ hálfgert samviskubit gagnvart ykkur, jafnt hljóðlátum og þeim sem heyrist til. Svo velti ég því fyrir mér hvað kona getur gengið langt í að opna inn í hjartað á sér á svona opinberu torgi. Maður á aldrei að bera sorgir sínar á torg, segja sumir. Ykkur að segja hefur það samt alveg ótrúlega hressandi áhrif fyrir sálarkornið að skrifa um prívatlífið sitt, hvort sem inn koma kvittanir eða ekki á móti. Sérdeilis þegar á móti blæs, því þá rembist ég eins og rjúpan við staurinn að verpa fallegum eggjum fyrir ykkur og ritskoða burt svartagallsrausið sem iðulega herjar á hugann í leynum.
Sköpunin, hvaða form sem henni er fundið, er svo óskaplega holl hjartanu.

Þau vita það til dæmis sem hafa notið góðs af starfinu í Ljósinu, stuðningsmiðstöð krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Ég setti hér til hliðar inn tengil á síðuna þeirra sem þið getið kíkt á eða komið upplýsingum um til fólks sem gæti nýtt sér fjölbreytta þjónustuna sem þar er í boði. (Og/eða stungið að þeim lítils háttar styrk næst þegar þið eigið leið í netbankann, númerin eru þarna á forsíðunni.) Ekkert okkar veit hvert okkar þarf næst á hjálp að halda - og vísast þekkjum við flest einhvern eða einhverja sem tekst á við þennan alvarlega sjúkdóm.

Það er dáldið erfitt að viður- kenna það en ég læt mig samt hafa það að segja ykkur það - svona í trúnaði - að stundum eiga nánustu aðstandendur þess sem greinist með krabbamein erfiðara með að höndla þetta nýja líf en sá sem sjálfur þarf að ganga í gegnum aðgerðir, meðferð og allt það sem sjúkdómnum fylgir. Jafnvel þótt allt sé í stakasta lagi og ekkert sérstakt bjáti á. Það er að segja, ekkert nema vissan um það sem hefur gerst og óvissan um hvað á eftir að gerast.
Svona tilvistarkvíði er alveg agaleg byrði og ekki um annað að ræða en koma honum af sér með öllum tiltækum ráðum.

Þá dugar stundum að minna sig á að ekkert okkar, alls ekkert okkar, hefur fengið bréf frá henni guði með upplýsingum um það hvað framtíðin ber í skauti sér. Svo að konu finnist hún ekki alla vega höfð útundan hjá almættinu, oná allt annað. Það er víst álíka fyrir okkur öllum komið, að þessu leytinu.
Svo veit ég það reyndar líka ósköp vel að ef ég hefði alltaf vitað fyrirfram hvað biði mín þá er allsendis óvíst að ég hefði lagt það á mig að fara fram úr rúminu yfirleitt þá daga sem verkefnin framundan væru ekki tilhlökkunarefni. Og misst þá aldeilis af ósköpunum öllum af skemmtilegum og góðum upplifunum, sem krydda tilveruna hvað svo sem annað gengur á. Þannig er þetta líf víst og ekki ætla ég að vanþakka það - þvert á móti. Þakklætið er einmitt það meðal sem virkar hvað best á mæðuna.
Þakklæti fyrir lífið núna er ábyggilega eitt það allra mikilvægasta. Í vetur rakst ég einu sinni í bókinni góðu sem ég er að þýða á gullkorn um mikilvægi þess að sóa ekki lífinu í að bíða eftir því að eitthvað eða einhver verði öðruvísi en raun ber vitni um, heldur lifa því til fulls hvernig svo sem aðstæðurnar eru. Núna. Því lífið er núna. Ekki seinna.
Botna á tilvitnun í aðra góða bók, sem flest okkar eiga einhvers staðar upp í hillu, enda meiri metsölubók en sjálfur davinsíkóðinn:
Verið ætíð glöð. Biðjið án afláts. Færið þakkir í öllu... Prófið allt, haldið því, sem gott er.
-Úr fyrra bréfi Páls postula til Þessalónikíumanna.
P.S. Efst á síðunni getur að líta ungan vin minn, Sætulíusinn Palla-og Ólafarson, í Viðeyjarfjöru frá því um daginn þegar við slógum okkur saman út í eyju með ungana okkar.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jæja, þá læt ég verða að því að kvitta. Fyrir hreina tilviljun rakst ég á bloggið þitt daginn sem þinn heittelskaði lagðist undir hnífinn. Síðan þá hef ég verið daglegur gestur. Og finnst eins og þér - þú vanrækja mig þegar langt líður á milli færlsna :-)Ég dáist af skrifum þínum og þau ylja mér alltaf hreint.
Takk fyrir mig.
Sigrún

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir þín góðu skrif. Hef fylgst með ykkur síðan í desember´06, fann bloggið í gegn um síðu Ástu Lovísu og Þóris. Sendi ykkur fjölskyldunni mínar bestu óskir.
Ásta Einarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð.
Ég er ykkur alveg ókunn :)
En mikið er fróðlegt að lesa bloggið þitt.
Og þú ert náttúrulega svo mikill snildarpenni.
Ég er náin aðstanandi fallegrar ungrar konu með heilaæxli.
Og það hefur verið fróðlegt að lesa það sem þú ritar um þessi mál.
Og aðdáunarvert hve skrif þín um mannin þinn eru falleg.
Gangi ykkur vel.
kv. Sólveig

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð Vilborg
ég er ein af þeim sem les bloggið þitt en hef aldrei kvittað fyrir mig. Ég dáist mikið af skrifum þínum, þú notar svo falleg orð. Ég tek undir það sem þú segir um stöðu aðstandenda. Ég er 40 ára, á þrjú börn, og var í lyfja- og geislameðferð við krabbameini allan síðasta vetur og það var erfiðara fyrir mína nánustu heldur en mig sjálfa. Lífið er núna, maður tekur því sem það færir manni og gerir sitt besta í stöðunni, heldur áfram að lifa lífinu lifandi. Þakka þér fyrir að leyfa okkur að fylgjast með ykkur, það er ótrúlega gefandi. Gangi ykkur sem allra best.
Með kveðju
Arna

Nafnlaus sagði...

Sæl mín kæra og takk fyrir síðast. Það var gaman að eiga kvöldstund með ykkur hjónum, Skottunni og þeirri uppkomnu.
Gott að lesa skrifin þín eins og alltaf.
Bestu kveðjur
Dedda

Nafnlaus sagði...

Sæl bloggkona.

Ég lít reglulega við á blogginu þínu því þú notar svo fallegt mál og ert greinilega svo vel gerð manneskja. Mér líður alltaf svo vel þegar ég er búin að lesa það sem þú skrifar. Manni finnst samt stundum þegar maður les blogg "ókunnugra" að maður sé að gera eitthvað sem maður má ekki ;) Skrítin tilfinning, en hún er þarna samt.

Ísland er svo lítið land og ég hef rekist á ykkur hjónin nokkrum sinnum á Súfistanum en að öðru leiti þekkjumst við ekki neitt.

Takk fyrir að skrifa svona fallega :)

kveðjur, Eva ókunnuga.

Nafnlaus sagði...

Villa mín, ég ætla bara að minna þig á hversu frábær þú ert.
þva
Matta

Lyng sagði...

Takk Vilborg fyrir frábært blogg! Ég les reglubundið hjá þér, mér til uppbyggingar og fróðleiks. Þessi pistill um stöðu aðstandenda leiðir huga minn c.a. eitt og hálft ár til baka, þegar ég greindist sjálf með krabbamein og átti leiðina gegnum lyfja- og geislameðferð ófarna. Þá var mér rækilega brugðið álíka hrædd við meðferðina og meinið sjálft, og ég leitaði til vinkonu sem átti meðferð að baki. Ég spurði hvort það hefði ekki verið erfitt að vera einsömul, með tíu ára son og engan fullorðin sér við hlið að ganga gegnum slíkt. Hún sagði að það mætti líka líta á það sem plús, því það væri pottþétt erfitt að búa með klagandi krabbameinssjúklingi!!! Ég skildi ekki alveg þetta hetjutal .. En svo verður maður upptekin af því að berjast og læknast að hverjum degi nægir sín þjáning - og gleði - áttaði ég mig á þegar meðferðin var komin í gang. En þetta var slungin vinkonuleiðbeining fyrir mig. Og þökk veri þér hef ég fengið smá innsýn inní aðstandendaheiminn, og sannarlega aldrei of mikið af því góða. Með góðum óskum til þín og þinna og kærri haustkveðju frá vesturströnd Svíþjóðar kb.

Johanna sagði...

Sæl Vilborg,

ég er líka ein af þeim sem les bloggið þitt þótt ég þekki þig ekki neitt. Ég fann það af algjörri tilviljun þegar ég gúglaði eitthvað í sambandi við Edinburgh. Mig langar að flytja þangað eftir nokkur ár til að fara í nám og því byrjaði ég að lesa bloggið þitt til að upplifa smá "fílinginn" á frá fólki sem býr í draumaborginni minni. Stuttu seinna áttaði ég mig á því að þú ert einn uppáhalds íslenski rithöfundurinn minn (nei ég er ekki að sleikja þig upp, ég er að meina þetta!) og því fór ég að lesa bloggið þitt af enn meiri áfergju til að sjá hvort ég gæti ekki "pikkað upp" ráð og punkta frá þér - þar sem ég er pínulítill wannabe rithöfundur ... (Mun aldrei gefa neitt út samt, er alltof feimin og plús það að ég er líka gersneydd af öllum þeim hæfileikum sem þarf að hafa til þess að geta talist rithöfundur ... en maður má láta sig dreyma, er það ekki?)

Síðan byrjaði barátta ykkar við Drekann og ég steingleymdi að leita að öllum vísbendingum um lífið í Edinburgh eða finna gagnleg ráð við skriftirnar og byrjaði í stað þess að kíkja oft í viku til að sjá hvort ykkur gengi ekki vel í stríðinu. Mig langaði svo oft að skilja eftir skilaboð en hef aldrei þorað því sökum feimni (ég hefði sent þér þetta allt í tölvupósti ef ég hefði séð netfangið þitt hérna einhvers staðar í staðinn fyrir að skrifa þessa ritgerð hérna í allra augsýn ...), ég er nefnilega alveg sammála Evu sem skrifar hérna fyrir ofan - manni finnst svo eins og maður sé að gera eitthvað sem má ekki þegar maður les blogg hjá ókunnugum!

En allavega, mér fannst ég verða að skilja eftir skilaboð núna og ég vona að þér sé sama að ég sé búin að demba þessari ritgerð á þig! Ég óska ykkur alls hins besta í stríðinu við Drekann og ég er svo fegin að aðgerðin gekk vel! Mig langar líka til að þakka þér fyrir að blogga og þar með leyfa aðdáendum og wannabe rithöfundum að læra af þér, þú skrifar alveg ótrúlega vel og fallega.
Takk fyrir mig.

Kveðja,
Jóhanna

Trína sagði...

Þessi tilvitnun er á einu af hinum mörgu póstkortum uppi á vegg hjá mér (þó stendur ekki hver sagði/skrifaði þetta):

"You don't get to choose how you're going to die. You can only decide how you're going to live. Now."

Takk fyrir matinn ;)

Sú uppkomna.

palli sagði...

Elsku Villa.
Takk fyrir síðast. Sé það núna þegar ég horfi á þessa mynd efst í bloggi dagsins hvað þetta ferðalag var allt póetískt og eins og lífið sjálft - við röltum þarna langan veg með börnin til hægri og vinstri, yfir í aðra eyju og að einhverri tilgangslausri súlu (sem sést á myndinni), sem átti að heita markmiðið. En eins og alltaf var það ferðalagið sjálft sem stal senunni; með samlokustoppi, krabbaleit og hvíldarstund í hnéháu grasi í síðsumarandblæ, horfandi yfir á borgina við sundin.
Takk og takk enn á ný fyrir skrifin þín!

Gunni sagði...

Ég kvitta í dag þótt ég sé kunnugur. Minn ekkert smá montinn yfir að eiga svona frábæra(r) litlusystur - hin (Hæ Auður) er ekki svona góður penni en hefur ýmsa aðra kosti :-)! Hvað varðar aðstandendaþáttinn sem þú skrifar um kæra systir; Það er svoleiðis með sykursýki að það eru til margar tegundir; typa 1 og 2 eru þær sem læknarnir greina og sem sjálfir sjúklingarnir eru með, typa 3 er sú sykursýki sem aðstandendur greinast með, typa 4 er sykursýki lækna og hjúkka, typa 5 er liðið á apótekinu.. og svo framveigis.

Gunni sagði...

Gleymdi að slá botninn í kommentið (70ties íslenskan), en það sem ég á við er að þú sért þá væntanlega með heilaæxli að hætti aðstandenda (typa ?).