Ég var þá - og er enn - ákaflega upprifin yfir skrifum um það sem á engelskunni kallast mindfulness og flett í gegnum nokkur rit um efnið, m.a. eftir Jon Kabat-Zinn, og eitt og annað fleira gott. Ekki að ég hafi nokkra einustu hæfileika til þess að hugleiða að nokkru gagni; hef reynt þó nokkrum sinnum en alltaf skal það renna út í sandinn hjá mér fyrr en seinna.
Lausn mín á þessum vanda, þ.e. að langa óskaplega til að vera innlifuð hugleiðslukona en hafa ekki eirð í mér til þess, er sú að ástunda líf í þessum hugleiðsluanda, þ.e. að hver dagur og hvert verk skuli vera sem líkast hugleiðslu þar sem athyglin er óskipt á því sem sinnt er en ekki út um víðan völl, í framtíðar- eða fortíðarlandinu, þar sem allt er gert öðruvísi en hér í núinu.
Þetta getur til að mynda falist í því að strauja hörflíkur, sem krumpast meir en aðrar eins og þau vita sem til þekkja, af þvílíkri alúð og einbeitingu að úr verði gleði en ekki kvöð eða þegar best lætur jafnvel helgiathöfn í búddískum anda; óður til línsins, hitans af járninu, gufunnar sem leggur upp af efninu, áferðarinnar á nýstraujuðu efninu et cetera.
Tillögum við ofangreindri hugmyndasamkeppni átti svo að skila fyrir þrettándann 2006 en þrátt fyrir ágæt viðbrögð lét ég algjörlega hjá líða að sinna þessu verki og svo lengi dróst að gera upp hug minn milli hugmyndanna að ég steingleymdi málinu. Það er allt þar til nú að í bloggum og blöðum er upphafin afar skemmtileg umræða um ástkæra, ylhýra málið og þá skrítnu hugmynd að gera engelskuna að ,,stjórnsýslumáli við hlið íslenskunnar."
Eftir lesturinn meðal annars á einkar góðum pistli hér eftir Kristján B. Jónasson (og engu er við að bæta) sá ég að við svo búið mátti ekki standa og skellti því þessarri ágætu fyrirsögn á netskrifin mín, ásamt með undirtitli til nánari skýringar.
Því vísast þykir einhverjum hún skrítin; orðið varurð ekki beinlínis á hvers manns vörum en þetta orð vísaði góð vinkona búsett í Finnlandi mér á, hafi hún heila þökk fyrir (Hulda, þú veist hver þú ert og við finnum eitthvað út úr þessu með verðlaunin) og mun það vera til hennar komið af lestri rita frá Guðspekifélaginu. Ákaflega djúphugul skýring er á hugtakinu á heimasíðu guðspakra undir millifyrirsögninni Hin ævafornu vísindi:
Þar segir meðal annars: Athugun (varurð). Að athuga með óskiptri athygli þroskar varurð eða "staðfestu hugans", sem nauðsynleg er í hugleiðingu. Við verðum að vera stöðugt meðvituð um þau skilyrði sem liggja að baki hugsunum okkar og tilfinningum og reyna að starfa æ meira út frá þeirri miðju kyrrðar sem er okkar raunverulega sjálf.
Eftir því sem við iðkum þetta lengur munum við gera okkur grein fyrir að hið raunverulega ferli hugleiðingarinnar er ekki aðgreinanlegt frá sjálfri listinni að lifa.
Guðspekifélagið er einmitt nágranni okkar hér í næstu götu (Ingólfsstræti) og dáldið skondið að velta fyrir sér ferðalaginu á varurðinni úr riti sem fór í póst frá þeim til Finnlands, þaðan í tölvupóst frá Finnlandi til Edinborgar, og loks hér upp á tölvuskjáinn á Hallveigarstígnum í næstu götu við upphafið ;o)
Guðspekifélagið er einmitt nágranni okkar hér í næstu götu (Ingólfsstræti) og dáldið skondið að velta fyrir sér ferðalaginu á varurðinni úr riti sem fór í póst frá þeim til Finnlands, þaðan í tölvupóst frá Finnlandi til Edinborgar, og loks hér upp á tölvuskjáinn á Hallveigarstígnum í næstu götu við upphafið ;o)
P.S. Sem ég var að skrifa þessar línur hlustaði ég á þann frábæra þátt Flakk með Lísu Páls á Rás 1 og var þess vegna kannski ekki alveg eins einbeitt í athyglinni á skrifin og ætla mætti af ofangreindum djúpúðgum pælingum, en ég má til með að benda áhugafólki um sögu húsanna og lífið hér í hjarta höfuðborgarinnar á að hlusta á Lísu, sem í síðustu viku labbaði Þingholtsstrætið með Guðjóni Friðrikss. sagnfræðingi á sama tíma (kl. 17 á laugardegi) og minnsta málið að hlusta á þann þátt á netinu.
1 ummæli:
Hlusta alltaf á þáttin hennar Lísu,mjög góður .fær mann til að hugsa um fortíðina og hvernig hlutir þróast , ekki allt til framfara endilega! svo er hann lika svo róandi!
Kærleikskveðjur Mamma
Skrifa ummæli