Líf í árvekni: Fjórtándi frásagnarliður

miðvikudagur, 19. september 2007

Fjórtándi frásagnarliður

Það er eins í þessum ævintýraskógi og öllum öðrum; þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Þegar kona heldur að nú sé hún orðin villt vega, sest niður í rjóðri og lofar tári eða tveimur að trítla niður á milli línanna þá stökkva fram bjargvættirnar, sem hafa huldar sjónum fylgst með hverju fram vindur, og leggja henni einmitt það lið sem hún þarfnast mest.

Þau sem hafa stúderað þjóðsagnafræði þekkja þennan frásagnarlið ævintýrisins mætavel sem þann fjórtánda af 31 í fúnksjónalískum fræðum Rússans Vladimirs Propp .

Bjargvættur þessi er nefnd ,,magical helper" eða ,,donor" á engilsaxneskri tungu, og gegnir einu af þeim átta hlutverkum sem úthlutað er í hverju ævintýri.*

Þeir Lítill, Trítill og fuglarnir voru til að mynda karlssyni innan handar strax og honum lá lítið við og dvergurinn var nú aldeilis betri en enginn henni Helgu karlsdóttur þegar hún þurfti að endurheimta Herrauð sinn úr tröllahöndum (en Helga var einmitt ,,kvenna fríðust" ;o) ).
Ekki slæmur félagsskapur það og óskaplega gott að finna það svona á eigin skinni að lögmál ævintýrisins gilda jafnt hér í alvöruævintýri dagsins í dag og þau gerðu á kvöldvökunni í íslenskum sveitum um aldir - já og raunar um allar trissur veraldarinnar.

Nú er rétt rúm vika í að Drekinn okkar smæli næst framan í myndavélina; segulómmyndataka af kolli Prinsins hugrakka þann 26. september og viðtal um niðurstöðurnar daginn eftir. Ég hef stundum áður haft það á orði að það er vitanlega ekkert líf að vera alltaf hreint að bíða (með lífið) eftir einhverju sem býr í framtíðarlandinu, hvort sem það er næsta læknisskoðun, næstu niðurstöður, næsta peningahapp, næsta utanlandsferð eða Únglíngurinn ljúki því að vera í uppreisn - og það er best að tyggja það upp aftur og aftur þó ekki sé til annars en að minna mig sjálfa á. Því stundum hlusta ég bara ekkert á sjálfa mig, haga mér eins og versti krakki, sting puttunum í eyrun og syng la-la-la-la til að fá að vera í fýlu í friði.

Það makalaust merkilega er að Hún þarna uppi og allt um kring gefst samt aldrei upp á mér og sýnir mér daglega að við skiptum öll máli og að ef við veljum að taka eftir því góða og skemmtilega í henni versu þá blasir það við sjónum, oft miklu nær en við höldum.

Elsku bestu öllsömun, takk fyrir fallegu orðin ykkar og hlýjuna sem að okkur streymir úr öllum áttum; það er enginn galdur eins magnaður og kærleikurinn.

*2. ,,The donor — prepares the hero or gives the hero some magical object."

P.S. Svo er hérna smáauglýsing eftir fólki í svipuðum sporum og yðar einlæg sem gæti hugsað sér að deila reynslu, styrk og vonum á stuðningsfundum sem haldnir eru fyrir maka krabbameinsgreindra í Ljósinu í safnaðarheimili Neskirkju, á fimmtudagskvöldum kl. 20-21.30.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábært að venju, sendum ykkur kærleikskveðjur! Mamma og Pabbi.

Nafnlaus sagði...

ÉG ÓSKA YKKUR GÓÐS GENGIS Í MYNDATÖKUNNI OG NIÐURSTAÐINN VERÐUR BARA GÓÐ.HAFIÐ ÞAÐ SEM ALLRA BEST OG GUÐ GEYMIÐ YKKAR.kÆR KVEÐJA dEE

Nafnlaus sagði...

Knús frá mér til þín elsku systa mín :o)

Nafnlaus sagði...

Það er nú ekki annað hægt en að hæla þér Villa mín. Eins og þú skrifar. Þá bræðir þú þær systur Grimmhildi, Grjóthildi og Grínhildi en þær stölur kalla ekki allt ömmu sína frekar en ég. Lífið er núna og njóttu þess en svo er líka allt í lagi að fara stundum í smá óþekktarkast, svona til að finna muninn.

Mundu bara að taka 5. okt frá því þá ætlum við saman í bíó.
þva
Matta