Líf í árvekni: Ekkert að sjá...

fimmtudagur, 27. september 2007

Ekkert að sjá...

Það eru sem sagt orð dagsins; það er ekkert að sjá í kolli prinsins hugrakka, segja læknavísindin, klárlega enginn vöxtur í drekanum og ekkert hægt að greina á segulómunar-myndunum frá í gær nema stóra holu í vinstri kantinum eftir prófessorinn Whittle og aftan við hana eilítinn skugga sem gefur til kynna lítils háttar örvef eftir skurðaðgerðina.

,,Betri útkoma en maður hefði þorað að vona miðað við það sem á undan er gengið," sagði læknirinn og brosti út að eyrum. ,,Þetta hljóta að vera algjörir snillingar þarna í Edinborg."

Svo útskýrði hann fyrir okkur á ástkæra ylhýra málinu hvað myndirnar sýndu, já eða sýndu réttara sagt ekki. (Mikið var nú gaman að tala við lækni sem talar íslensku!) Mjög ört vaxandi heilaæxli kemur sér upp eigin æðakerfi til að ná sér í meira blóðmagn til næringar og til að greina hvort slík þróun hafi orðið er sérstöku litarefni sprautað í æðarnar prinsins fyrir heilamyndatökuna; skuggaefni sem á að safnast þar fyrir sem mikið blóð fer um og gefa þannig til kynna svæði í æxlinu sem væru í vexti.

Ekkert slíkt kom fram á myndunum og á læknirinum jafnvel að skilja að illmögulegt væri að sjá hvort eitthvað væri yfirleitt eftir af þessum hlúnk sem sást fyrir þremur mánuðum úti í Edinborginni. Hann vildi þó ekki fullyrða neitt þar um fyrr en hann hefði átt orðastað aftur við röntgenlækninn sem les úr myndunum og ber saman við þær fyrri.

Doktorarnir úti höfðu sagt okkur að í skurðaðgerðinni í janúar hefði tekist að fjarlægja um eða rétt yfir helming af æxlinu, sem mældist fyrir aðgerð 7.7 sm. á lengd og um 4 sm. á þverveginn. Í myndatökunni í júnílok, þremur mánuðum eftir lok geislameðferðarinnar, tjáðu þeir okkur að það sem eftir væri hefði ekki skroppið neitt saman af geislunum en ekki væri útilokað að það ætti eftir að gerast á lengri tíma.

Önnur skýring á því að æxlismassinn var sá sami og eftir aðgerð væri sú að geislarnir gerðu aðallega út af við krabbafrumur í örri fjölgun, þ.e. af 3.-4. gráðu og góðar líkur væru á að það sem eftir hafi orðið eftir aðgerðina hafi aðeins verið af 2. gráðu, sem vex miklum mun hægar. Nú segir doktorinn Jakob okkur hér heima að það geti nú alveg gerst að geislar vinni á 2. gráðu frumum líka, þannig að nú bíðum við frétta af samtali hans við röntgenlækninn, sem verður í næstu viku og fáum að vita hvort það hafi hreinlega orðið kraftaverk á síðustu þremur mánuðum.
Sem væri þá ábyggilega, auk geislanna, að þakka ómældu áti á dýrfirskum aðalbláberjum undanfarnar vikur, að kona tali nú ekki um bætiefna-apótekið sem hún ber nokkra ábyrgð á ;o) Næsta myndataka er síðan eftir þrjá mánuði og þannig verður það haft á næstunni, myndataka á þriggja mánaða fresti, og síðan væntanlega teygt upp í sex mánaða millibil með tímanum.

En hvort sem af drekanum er nú sýnilegt röntgenaugum helmingurinn sem fyrr, halinn, bara litla tá eða jafnvel ekki neitt þá er staðan að minnsta kosti sú að ,,sjúkdómurinn er óvirkur" eins og læknirinn tók til orða; enginn krabbameinsvöxtur er í gangi og við erum að springa af hamingju :o)

Minn heittelskaði hélt upp á daginn með því að kaupa sér nýja fartölvu í staðinn fyrir garminn sem hefur verið að gera honum lífið leitt með bilirísvesini um langt skeið, og fékk þá sér til mikillar ánægju annan happdrættisvinninginn á einum og sama deginum: Oní fartölvukassanum var pakki með fimm ,,echte Mozart" súkkulaðikúlum fylltum með marsípani. Hann er nú bæði í súkkulaði-og gleðivímu...

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðifréttir!
Nú væri kannski ráð að hlaupa í sjoppuna til að ná sér í súkkulaði og halda upp á daginn með ykkur.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Vá vá :)
Þetta var góð lesning!
Og frábært að allt er við það sama og sjúkdómurinn á undanhaldi.
Mikið er gott að lesa þetta!!
Frænka mín kom úr heilaskurði á mánudag og fékk þær fréttir (eftir 5 uppskurði ) að þeir hefðu náð öllu æxlunu!! Það voru svo frábærar fréttir :)
Og að lesa til viðbótar að annað kraftarverk væri líka í gangi í sömu viku er ljúft.
Bros kveðjur úr Grafarvogi.
kv. Sólveig (ókunn)

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa,
Til hamingju með þetta allt saman. Gleðst af öllu hjarta með ykkur hjónum og vona að drekaskrattinn, dratthalinn sjálfur hafi druslast í burtu fyrir fullt og allt.

Búum til nýtt máltæki í tilefni dagsis: "Betri er hola í höfði en dreki með dratthala"

kveðja, Erna A

Katrín sagði...

jess!

Nafnlaus sagði...

Ljómandi fréttir og fínar myndir. Erum byrjuð að plana Íslandsferð í júlí á ári komanda, veit einhver um fólk sem á 6-7 manna bíl og íbúð lausa í Rvk á þeim tíma :-). Skiptum gjarnan við einhvern sem á erindi til Tromsö á sama tíma!

Nafnlaus sagði...

Frábært....... til hamingju fjölskylda :)

Nafnlaus sagði...

æi ég gleymdi að kvitta, en hér kemur hún.
Kveðja
Auður Lísa

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa mín og Björgvin!
Mikið er nú óskaplega að gaman að heyra þessar frábæru fréttir!
Ég fæ mér súkkulaði ykkur til samlætis eins og Matta :o)
Risastórt knús og kremja!!!
Ykkar Auður & kó

Nafnlaus sagði...

FRÁBÆRT!!!!
Til hamingju.
Mikið voru þetta góðar fréttir.

Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með holuna. Við samgleðjumst ykkur með súkkulaðiáti. :)

Nafnlaus sagði...

Bestu fréttir sem ég hef heyrt lengi! Og passar við ferskan prinsinn í thai chi stellingum...

Sigríður Dögg Auðunsdóttir sagði...

Yndislegar fréttir.

Kveðja frá Suðurgötugenginu :)