Líf í árvekni: Hamingjuvogin og ég

sunnudagur, 26. ágúst 2007

Hamingjuvogin og ég

,,Það er óskiljanlegt hvernig þú getur lifað svona góðu lífi án þess að gera nokkuð," sagði Únglíngurinn í skóginum* við mig um daginn. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við þessari yfirlýsingu en tónninn bar með sér að mælandinn var í senn fullur aðdáunar, undrunar og nokkurrar hneykslunar.

Áður en ég vissi af slapp frá mér meinhæðnispúkinn, hlaðinn með hálfkveðnum vísum og duldum tilvísunum í strit og púl liðinna ára, ekki síst þessara sjö sem ég var einstök móðir í tveimur til þremur störfum, með tvo krakkaorma á framfæri og að kálast úr vefjagigt alla daga: ,,Já, það er merkilegur asskoti hvað við höfum það alltaf gott og samt geri ég aldrei nokkurn skapaðan hlut!" Únglíngurinn í skóginum tók vitanlega ekkert eftir jökulnöprum raddblænum móður sinnar og var farinn að tjá sig um skoðanir sínar á hlýnun jarðar og heimsku mannkyns áður en ég gat svo mikið sem byrjað fyrirlesturinn, sem þarna bjóst til að falla fram eins og foss í leysingum.

Af munni sakleysingjanna gengur sannleikurinn fram, segir í hinni góðu bók. Það er náttlega ofvaxið skilningi venjulegs fólks hvernig við förum að því að hafa það svona gott eins og við gerum; bæði búin að stússast í framhaldsnámi í útlöndum á annað ár á vegum LÍN, annað nú óvinnufært sökum veikinda, hitt að baksast við þýðingar í svo litlu hlutastarfi að ekki nær skattleysismörkum og skáldskap sem litlu skilar fyrr en að leiðarlokum, hvenær svo sem það verður. Ríkisjatan gaf þó töðu til þriggja mánaða í vetur, svo öllu sé rétt til skila haldið, og í síðasta mánuði skilaði sér árlega ávísunin frá henni Eddu minni, bara sæmilega feit í þetta sinnið, svo er vaxandi kiljukaupum landans fyrir þakka.
Vér rithöfundar erum vísast eina starfsstétt landsins sem fær aðeins útborgað árlega - og þá laun liðins almanaksárs, án vaxta vitanlega - þ.e. okkar 23% hlut í útsöluverði hverrar bókar, hvort sem hún seldist nú á 999 kr. á bókamarkaðinum í Perlunni í janúar fyrir einu og hálfu ári eða fjórföldu því verði á jólabókarvertíðinni fyrir rúmu hálfu ári.

Afhverju í ósköpunum er ég að hafa orð á slíku og þvílíku hér í opinberu dagbókinni um lífið okkar í varurðinni? Það fer um mig einhver ónotakennd að tala um peninga, þótt ég hafi fyrir lifandis löngu hætt að hafa áhyggjur af því hvort það skili sér ekki örugglega nóg af þeim í tæka tíð fyrir næstu mánaðamót (sem það hefur alltaf gert síðan þá). ,,Þetta eru bara tölur á skjá," er viðkvæðið hjá okkur hjónakornunum báðum, hvort sem aurarnir eru á leiðinni inn eða út. Kannski er ég smituð af þeim skondna breska hugsunarhætti að það sé hreinasta klám að tala um launin sín.
Mér var sagt í Skotlandi að það þætti helber dónaskapur að spyrja fólk við hvað það vinni en miklu verra væri þó að spyrja eftir launum. Ástæðan er svo rótgróin með Tjallanum að hann veit það víst varla sjálfur hvers vegna honum verður svona mikið um nærgengni af þessu tagi en málið er víst það að hér í gamla, góða den þá þurfti fólk með blátt blóð í æðum ekki að vinna fyrir launum. Það var svo fínt að það átti landareignir og landið skilaði þeim nægum arði af vinnu hinna, þ.e. almúgafólksins sem var bara með rautt blóð og hendur tvær til að skapa sér lifibrauð.

Umtal um laun er því almúgatal og bara low-class pælingar og ekki veit ég hvað fólki í ríki Betu drottingar þætti um tekjublöðin sem hér koma út árlega á landinu bláa, þar sem upp er talinn fjöldinn allur af núllum sem rúlla yfir skjáina hjá hinum og þessum í mánuði hverjum.

Sem leiðir mig að yðar einlægri aftur: Ég fékk sem sé í sömu vikunni og ofangreind yfirlýsing kom frá syni mínum smess frá litlu systur þess efnis að ég væri í tekjublaði tímaritsins Mannlífs. Ég hafði fram að því leitt hjá mér að hafa skoðun á þessum umdeildu tekjublöðum og sleppt því alveg að hneykslast á háum launum sumra (á þeirri forsendu að þeir hljóti að vera glæpamenn sem hafi svikið peningana af öðrum) og lágum launum annarra (á þeirri forsendu að þeir hljóti að vera enn meiri glæpamenn en hinir þar sem þeir svíki greinilega líka undan skatti.) Við þessi tíðindi skullu á mér alls kyns hugsanir í einni bendu en í flýti smessaði ég til systu til spurningu sem ég hef aldrei lagt fyrir nokkurn áður: ,,Og hvað var ég með í laun á mánuði?!"
Til baka kom svo svívirðilega lág tala að ég skellti upp úr, ekki síst vegna þess að hún var alveg hárrétt. Og ég viðurkenni að ég fann til nokkurs stolts yfir einmitt því að geta haft það svona óskaplega gott og raun ber vitni með ekki hærri laun og geta þrátt fyrir allt notið þeirra forréttinda sem í því felast að fá að vinna við starf sem er svo skemmtilegt að það getur varla talist vinna.
Og telst það greinilega alls ekki í augum únglínga og reyndar margra fullorðinna líka, sem í nafni hinna ýmsu félagasamtaka vítt og breitt um bæinn senda af og til falleg bréf og biðja mig að lesa upp úr bókunum mínum og fjalla um þær ,,án gjaldtöku." Að ég tali nú ekki um allan mannskapinn sem með augun full af umhyggju hefur spurt mig síðan við fluttum heim frá Skotlandi: ,,Og hvað ætlar þú svo að fara að vinna..?"

En svo komu ljótu hugsanirnar og brosið þurrkaðist af mér. Hvað í fjandanum á Mannlíf með að birta þessar mínar prívatupplýsingar, eingöngu ætlaðar augum skattstjórans í Reykjavík? Hver er eiginlega tilgangurinn? Að vara fólk við því að leggja ritstörf fyrir sig? Eða gefa til kynna að ég sé í rauninni glæpakona sem svíki undan skatti mín raunverulegu, miklu hærri laun, rétt eins og einhver jeppajakkalakki á skúringakellíngalaunum?! Nei, ég hristi höfuðið og skammaðist mín. Ég á ekkert með að ætla fólki svona ljótt. Vitanlega þarf að birta laun fólks með lág laun rétt eins og laun fólks með há laun. Þannig skapast lífsnauðsynlegt jafnvægi á hamingjuvoginni.

Því flestum er í rauninni sama hvað þau þéna mikið, svo framarlega sem þau hafa dáldið meira en þau sem þau álíta jafningja sína. Hér er við hæfi að vísa í þá ágætu bók Happiness: Lessons from a New Science eftir Richard Layard. Þar segir frá rannsókn sem gerð var meðal námsmanna í Harvard háskóla í Amríkuhreppi. Þeir voru beðnir að ímynda sér tvo heima sem þeir mættu velja á milli til búsetu. Í öðrum hefðu þeir 50 þúsund dali í árslaun, en allir aðrir að meðaltali 25 þúsund dali en í hinum hefðu þeir sjálfir tvöfalt meira, eða 100 þúsund dali í árslaun, en allir aðrir 250 þúsund dali. Meirihlutinn vildi frekar lifa í fyrrnefnda heiminum. Þeir vildu glaðir vera fátækari svo framarlega sem þeir hefðu meira en hinir.
Þetta er allt relatívt, rétt eins og tíminn. Ég hef ekki hugmynd um það hvernig við förum að því að eiga svona gott líf en ég held að partur af því að minnsta kosti sé að við nennum ekki að vera með í leiknum ,,Sá-sem-á-mest-dót-þegar-hann-deyr-vinnur." Og svo fáum við líka fisk, kartöflur og aðalbláber að vestan með reglulegu millibili. (Pabbi er að koma með kassa á morgun!) Það vegur sko þungt á minni hamingjuvog að eiga aðgang að slíkum lífsgæðum.

Myndskreytingarnar í dag eru valdar með það að augnamiði að sanna að stundum geri ég eitthvað sem er sýnilegt öðrum ( í þeirri von að Únglíngurinn í skóginum líti við einhvern daginn). Efri myndin sýnir bókaskápinn okkar fyrir tveimur vikum, þegar ég hafði sett í hillurnar það sem við tókum með okkur til Edinborgar og var að fara í gegnum kassana sirka fjórtán sem voru eftir í kjallaranum hér heima.
Hin er tekin eftir að útsendari fornbókabúðarinnar hafði flutt á brott þrettán kassa fulla af bókum sem okkur langaði ekki til að lesa aftur eða vissum að við myndum aldrei líta í, bækur sem við höfðum engin tilfinningaleg tengsl við og tóku upp mikilvægt rými sem nú mun nýtast undir bókakaup síðari tíma :o) Mín núna með stóra inneignarnótu í bókabúð braga og dóttirin komin með starfsmannaafslátt í eymundsonspennanum. Það gerist ekki betra, þetta líf!

*Únglíngurinn í skóginum hefur hér á síðum þessa bloggs hingað til verið kallaður Snúður. Nafnbreytingin kemur til af því að hann er nú orðinn ,,meira þrettán ára en tólf ára" og ber þess mörg merki.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf er jafn mikil hugvekja að lesa frá þér pislana! Og svo ég bæti í hamingjuumræðuna tilvitnun í bókina The pursuit of happiness eftir Richard G. Meyers sem mun "hamingjuprófessor" í Ameríku. Hann vitnar í rannsókn, að mig minnir hollenska og meira en 10 ára gamla, sem leitaðist við að svara eftirfarandi spurningu: Ef þú mættir velja um að lenda í alvarlegu slysi eða vinna í happdrætti, hvort myndirðu velja? Svarið virðist augljóst, auðvitað velur maður happdrættisvinninginn. En hollenska rannsóknin komst hins vegar að því (með þvi að fylgja álíka stórum hóps eftir sem hafði lent í alvarlegu bílslysi eða unnið í happdrætti verulega fjárhæð) að einu ári eftir hvorn atburð um sig taldi fólk í báðum hópunum sig álíka hamingjusamt og það var ári áður. Nema hvað þeir sem lent höfðu í slysinu voru aðeins hamingjusamari, á meðan þeir "heppnu" voru aðeins óhamingjusamari. Svarið við spurningunni í upphafi ætti því skv. fyrirliggjandi rannsóknum að vera: ég vil frekar lenda í slysi!

Þetta eru magnaðar niðurstöður en e.t.v. skiljanlegar. Þegar fólk lendir í alvarlegum atburðum svo hriktir í stoðum tilveru þess leitar það inn á við, lítur til þess sem það hefur, sækir styrk í fjölskyldu, vini og trú. Allt hlutir sem hjálpa fólki að ná sátt. Við að fá stóran happdrættisvinning er hins vegar líklegra að fólk hætti í vinnu og missi því þá rútínu sem gefur gleði, jafnvel þótt það sé aðeins kaffibolli með vinnufélögunum. Rútínan hverfur, fólk missir oft vini vegna tortryggni og öfundar og áherslan verður oft meiri á þau veraldlegu gæði sem fólk allt í einu getur veitt sér svo mikið af. Svo kannski eru þessar niðurstöður ekki svo ótrúlegar eftir allt.

Bestu kveðjur í bili,
Palli
P.S. Það var hífandi rok í Viðey og varla stætt kvefuðu fólki. -reynum aftur seinna.

Nafnlaus sagði...

Sérlega skmmtileg lesning, vildi bara kvitta fyrir því ég kíki nokkuð oft hér inn.

Theodóra Kristjánsdóttir

Nafnlaus sagði...

Auðvitað skiptir ekki mestu máli hvað maður fær mikið útborgað á mánuði. Það er afgangurinn eða það að ná að eiga afgang eftir að hafa borgað mánaðarlegann skammt sem skiptir meira máli.
Annars er þetta rétt hjá ykkur, þetta eru bara tölur á skjá. Vextir eru eitthvað sem ég hef stundum látið fara í taugarnar á mér en nú ætla ég að nota ykkar hugmynd um tölur á skjá. Þá finn ég út að það skiptir engu hvað ég borga háa vexti svo fremi að ég ráði við afborgunina því mismuninn á okurvöxtum og sanngjörnum vöxtum setti ég sjálfsagt í eitthvað dót sem gerði mig ekkert hamingjusamari.
þva
Matta

Katrín sagði...

Sjaldan hef ég hlegið meira eða hærra að bloggpósti en þessum! Þú ert snilldarpenni, móðir góð! (það segir sig nú raunar sjálft, en mér fannst ég þurfa að taka það fram.)

Ástarkveðjur úr Höfðakampi,
Sú-sem-er-fegint-að-vera-aftur-komin-með-netsamband.