Báðar hafa þær oftsinnis hjálpað mér við að koma ró á sálarlífið, með því að hlusta af einlægni og stakri þolinmæði á það sem yðar einlægri liggur á hjarta í það og það sinnið og deila með mér eigin reynslu, styrk og vonum (og hella upp á te og/eða hvítvín meðfram).
Vináttan er ómetanleg; það hef ég svo sannarlega fundið undanfarið misseri. Ánægjulegasta aukaverkun drekaskammarinnar sem hér hefur slett hala um bloggsíður oftar en tölu verður á komið, er að ég hef nú eignast náinn hóp vina og vinkvenna í stuðningssetrinu Maggie´s Centre sem rekið er í tengslum við Western General Hospital hér í Edinborg.
Við hittumst á þriðjudagsmorgnum í hálfan annan tíma, yfirleitt sex eða sjö í hvert sinn en erum níu þegar allir mæta, auk hennar Elspeth, heilsusálfræðingsins sem leiðir fundinn. Við segjum frá því sem helst hefur borið til undangengna viku, tölum um líðan okkar og fellum stundum tár en hlæjum ábyggilega mun oftar enda ekkert eins hollt fyrir sálarlífið eins og það að koma auga á spaugilegu hliðarnar á tilverunni, sem er til muna auðveldara þegar sitthvað kallast á við reynslu annarra sem hafa gengið svipaða slóð.
Við eigum okkur ýmsar tilvísanir sem alltaf vekja hlátur þótt húmorinn sé stundum svartur, svo sem eins og ,,Jekyll og Hyde heilkennið", ,,að spila út K-spilinu" og ,,ég er með heilaæxli, get ég vinsamlega fengið afgreiðslu hér áður en ég geispa golunni?!" (hún er víst annars mjög ensk og kurteis, konan sem lét þetta fjúka í biðröð í verslun í vetur).
Af þessum níu eigum við fjögur aðstandendur sem eru með heilaæxli, þar af er einn með krabbamein í vélinda sem hefur sáð sér í heila. Hin eiga ástvini sem glíma við hvítblæði, blöðrukrabbamein, eitlakrabbamein (tvö) og brjóstakrabbamein sem hefur sáð sér í lungu. Allt þetta indæla fólk býr yfir samanlagðri áratugareynslu af því að lifa með þessum óboðnu drekum á heimilinu og kann sitt hvað fyrir sér í því að halda rónni, þótt þeir fari iðulega með okkur óforvarandis í rússíbanareið.
Fyrir nú utan það að gjörþekkja hinar ýmsu aukaverkanir af lyfjameðferðum, geislameðferðum og steranotkun, vita hvernig best má tækla lækna með attitjúd og hvaða mat má helst bjóða fólki sem hefur misst lystina vegna ógleði eða vegna þess að bragðlaukarnir eru komnir í verkfall (eins og hjá Mínum, sem nú borðar helst rjómaís í öll mál og getur hvorki drukkið kaffi, te né Irn Bru lengur).
Einn vina minna hefur útbúið kínverskan garð með búddísku vatnsverki fyrir konuna sína, annar fékk sér hund til þess að hafa ærna ástæðu til að fá sér göngutúr daglega og komast að heiman frá konu sinni sem hann hefur annast í ellefu ár og er ekki lengur lík þeirri manneskju sem hann giftist. Ein vinkona mína á sínar bestu stundir þegar hún vinnur í garðinum á meðan maðurinn hennar, sem ekki má vera einsamall vegna veikinda sinna, getur séð til hennar í gegnum stofugluggann.
Önnur vinkona mín í Möggusetri er jógakennari, auk þess sem hún er fóstra, og hefur miðlað okkur hinum ýmsu góðmeti um hugleiðslu, slökun og nudd. Þessi þriggja drengja móðir fór í helgardvöl nýlega á Eyjuna helgu til þess að næra huga og sál; ferðasagan fékk okkur til að skella upp úr. Siglingin út í eyju var farin á litlum, hægfara mótorbáti sem duggaði þetta í rólegheitum en til þess að komast í land aftur á undan öðrum (til þess að geta mætt í vinnu á barnaheimilinu á mánudegi) mátti hún gjöra svo vel og fara sem farþegi aftan á sjóþotu sem þeyttist yfir hafflötinn á ógnarhraða og ríghalda sér lafhrædd í björgunarsveitarmann. Táknrænt, fannst okkur, að halda þannig úr heilagri rónni munkanna á Eyjunni helgu inn í ,,hvunndagslífið" á ný.
Lærdómurinn sem hún miðlaði okkur af þessari reynslu var ekki síður nærandi en hláturinn; þegar hún ákvað að hætta að vera hrædd þar sem það væri ekki til neins og áttaði sig á því að hún var ekki við stjórnvölinn en yrði að treysta á að sá sem væri við stýrið vissi hvað hann væri að gera, þá kom æðruleysið yfir hana á nýjan leik og hún naut ferðarinnar af öllu hjarta. Ég læt ykkur um að heimfæra þetta á lífið sjálft, hvernig svo sem kringumstæðurnar eru hjá hverju og einu, og hver sá æðri máttur er, sem stýrir ykkar för.
Úr hvunndeginum hér í Gilmore kastala er það annars helst að frétta að í morgun blésum við mæðgurnar sápukúlur saman og ég hengdi út þvottinn, en síðdegis fórum við prinsinn til heimilislæknisins og þaðan í apótekið eftir frekari birgðum af höfuðverkjalyfjunum góðu (sem enn virka vel!) og nýjum flogalyfjum (Keppra) sem koma í stað þeirra fyrri (Tegretol). Þau síðarnefndu eru sterklega grunuð um að hafa valdið hitavellu undanfarinna vikna sem - eftir að þau hafa verið minnkuð allverulega - hefur loks látið undan síga, þannig að prinsinn heldur í Hálanda- og eyjaferðina okkar bæði hita- og höfuðverkjalaus á sunnudaginn.
Bestu kveðjur að sinni - (við látum kannski frétta af okkur að norðan í næstu viku) - og munið nú að halda rónni á hverju sem dynur, því slíkt er vissulega æðsta afrek sjálfsins.
12 ummæli:
Áfram prins og prinsessa. Góða ferð og gott ferðalag.
kv. lipurtá
Villa mín.
Þar sem ég er helst þekkt fyrir rósemi mína ætla ég ekki að taka síðustu hvatninguna til mín. Hitt sem þú skrifaðir um treysta bílstjóranum ætla ég að skoða með jákvæðum huga...á allra næstu dögum. Nú skín blessuð sólin á alla Vestfirðinga, hvort sem þeir eiga kvóta eða ekki, og dagurinn í dag verður góður. Ég óska ykkur góðrar ferðar og bíð eftir frekari skrifum.
Bestu kveðjur að vestan
Matta
Takk fyrir mig :)
Njótið ferðarinnar í botn.
kv. Dísa ókunnug
Góða ferð norður eftir og vestur, og passið ykkar á að lenda ekki í mjólkurlest sem stoppar í hverju krummaskuði á leiðinni, sama hvort enn býr þar fólk eða ekki.
Góða ferð vinir.
Sæl Villa. Vildi bara senda ykkur baráttukveðjur. Var bara að frétta af veikindum bóndans í gærkveldi. Mikið ósköp hlýtur að vera erfitt að takast á við svona veikindi og fyrir alla aðstandendur að horfa upp á ástvin sinn svona kvalinn. Vona að framtíðin verði bjartari og heilsan betri hjá bóndanum.
Knús og kremjur frá Íslandi...
Bestu kvedjur fra okkur i Inverness, rett komin fra Orkneyjum og a leid i rutu til Oban. Villa og Bjorgvin.
Kortið komið!'ASTARKVEÐJUR MAMMA!
Hæ elskurnar mínar!!
Var bara að sjá þessa merkilegu færslu fyrst núna, þjáist enn af netleysi heima, því tölvuskömmin mín er biluð en gat kríað út lánstölvu til að sinna áríðandi netvinnu, því ekki gerir maður það í vinnunni, seiseinei...
Sammála öllu sem þú segir um vináttu, te og hvítvín. Og spegla það allt til baka. Þúsund kossar fyrir fundina okkar, þeir gerðu jafn mikið fyrir mína sál. Vona að þið séuð að njóta þess í botn að vera í fríinu og að Björgvini líði vel. Bíð spennt eftir myndum frá Orkneyjum. Bíða líka spennt eftir því að fá ykkur heim.
Bestustu kveðjur,
Hilla
Til hamingju með 19 júni!
Velkomin heim á morgun! Kærar kveðjur mamma.
Hva! Á ekkert að smella inn ferðasögunni?
kveðja að vestan
Matta
Villa I enjoyed looking at your blog and even though I couldn't understand what was written your pictures say it all. What a beatiful happy family you are.
love Caroline x
Skrifa ummæli