Líf í árvekni: Skyggnst um gengna slóð

þriðjudagur, 26. júní 2007

Skyggnst um gengna slóð

Kósýkvöld Björgvins í kvöld og því hef ég ákveðið að nýta tímann til að skrifa dálítið hér á skjáinn og fá mér pásu á því að pakka enda komnir einir 57 kassar og lítið eftir nema eldhúsið. Kósýkvöld Björgvins, fyrir þá sem þekkja ekki til, felur í sér að minn heittelskaði fer aleinn á myndbandaleiguna og velur sér filmu sem fellur að hans smekk (en yfirleitt ekki annarra í fjölskyldunni). Gjarnan verður fyrir valinu mynd eftir Tarkofskí eða einhvern enn tyrfnari, t.d. franskan leikstjóra hvurs nafn ég man ekki en byrjar svipað (Tartúff?), oft frá miðri síðustu öld, stundum í svarthvítu. Ég náði einu sinni að halda mér vakandi í gegnum ríflega hálfa slíka en það var nú í tilhugalífinu og kona varð að sýna lit.

Þessi hefð míns elskaða varð til fljótlega eftir að kynni okkar hófust, en þá höfðum við hin (þ.e. þrenningin í Hruna) um langt skeið tíðkað okkar heilögu Kósýkvöld hvert laugardagskvöld með tilheyrandi poppkornsáti og kókdrykkju; afkvæmin völdu þá hvort sína spóluna, undantekningarlaust framleidda í Hollívúdd og oftast af félaga Disney. Kósýkvöldin Björgvins eru þó aðeins haldin endrum og sinnum (til allrar ham.) og undanfarið misseri eða tvö hefur heimasætan reyndar haft annað við helgarnar sínar að gera en horfa á spólu með gamla settinu ;o)

Ég hef dálítið verið að hugsa um tímann að undanförnu og það sem er að baki í lífinu. Vísast út af öllum afmælunum og tímamótunum í fjölskyldunni þessa dagana; tengdamóðir mín elskuleg varð 80 ára í vikunni, dóttir mín eldri 20 ára í maílok og sú yngri þriggja ára tíu dögum fyrr. Ég taldi það út og varð hugsi yfir því að sonur minn sem verður þrettán ára í haust er um það bil jafngamall núna og ég var sjálf þegar langþráð litla systir mín kom í heiminn; um miðjan júlí eru liðin 29 ár frá þeim degi. Hvernig getur það eiginlega staðist?!

Heimasætan mín útskrifast með skoskt jafngildi stúdentsprófs núna á fimmtudag þótt engir séu hvítu kollarnir viðhafðir hér. Hugurinn leitar án þess að ég fái við það ráðið aftur til eigin útskriftardags fyrir ögn ríflega 20 árum og mikið er ég fegin hvað hver kynslóð virðist betur lukkuð að mörgu leyti en sú sem á undan fór :o) (án þess að þar sé ég beinlínis að leggja mat á það hvað karl faðir minn var að bardúsa um tvítugt - mamma var náttlega að eiga strákormana fjóra og mig á þessum aldri).

Á morgun, miðvikudag, er svo enn einn ,,stór dagur" í lífi okkar en þá eru liðnir þrír mánuðir frá því að prinsinn minn hugrakki lauk sex vikna geislameðferð við æxli sem óx á hippocampus-svæðinu (ísl: drekanum) í vinstra gagnaugablaði heila hans.

Í tilefni af því verður tekin af honum segulómunarmynd (MRI) til þess að sjá hvern árangur geislameðferðin hefur borið og hvort tekist hefur að stöðva vöxt æxlisins og -vonandi - minnka það sem eftir var og ekki tókst að fjarlægja í skurðaðgerðinni 12. janúar sl.

Rétt um eða yfir helmingur æxlisins var fjarlægður í aðgerðinni, sem Björgvin gekkst undir vakandi; erfitt var að meta það nákvæmlega vegna bólgu á skurðsvæðinu. Vefjarannsókn leiddi síðan í ljós að þótt æxlið væri að mestu af 2. gráðu var hluti þess sem náðist af 3.-4. gráðu (heilaæxli eru flokkuð í fjórar gráður af WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, eftir því hversu ífarandi þau eru og hve ört þau vaxa).

Tvennt olli því að ekki var allt fjarlægt í aðgerðinni; annars vegar að æxlið liggur djúpt og við stöðvar sem mjög hættulegt er að raska við og hins vegar að á meðan á skurðaðgerðinni stóð fékk prinsinn, þvert ofan í ,,fræðilega möguleika" höfuðkvalir svo að læknirinn treysti sér ekki til að halda lengur áfram - og enda búinn að vera að í sex klukkutíma.

Við vitum af því fyrirfram að ólíklegt er að æxlið sem eftir er virðist á morgun minna umfangs á mynd en áður, því þótt geislarnir hafi bæði drepið æxlisfrumur og skaðað getu mikils fjölda þeirra til að fjölga sér þá eru þær áfram þarna uppi í kollinum á honum og verða um sinn. Ástæðan er sú að heilinn hefur ekkert ,,drenkerfi" og er mjög lengi að losa sig við dauðar frumur. Næsta segulómunarmynd, sem væntanlega verður tekin í haust eða vetur heima á Íslandi mun vafalaust sýna minna æxli en sú á morgun.

Mynd morgundagsins verður notuð til viðmiðunar við eftirlitið sem prinsinn verður undir framvegis; síðari myndir verða bornar saman við hana til þess að sjá hvort æxlisvöxtur er farinn af stað aftur. Og enda þótt sagan sé ekki öll af viðureigninni við drekann, þá lítum við á morgundaginn sem stór tímamót á leið sem á stundum hefur verið erfið.

Við vitum þó ekki frekar en áður hvað er framundan í þessu ferðalagi um ævintýraskóginn, þar sem ýmist mæta okkur þrautir sem þarf að leysa og drekaafmán að eiga við eða kærkomin og friðsæl rjóður þar sem má tylla sér með samloku og kaffi á brúsa og njóta stundarinnar með góðum ferðafélögum (les: ykkur).

Vísast mun það taka einhvern tíma að fóta sig aftur og ná jafnvægi í þeim nýja hvunndegi sem við hlökkum óskaplega til að finna heima á Íslandi eftir skamma hríð. Ævintýrið heldur áfram...
P.S. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, sem tekin var í kvöld, skartar prinsinn nú börtum á nýjan leik!
P.P.S Lítið svo endilega hreint á færsluna hjá netheimavini okkar, honum Þóri í Ameríkuhreppi, á föstudaginn síðasta, sem er rétt búinn að fá þau góðu tíðindi úr sinni MRI myndatöku að enginn æxlisvöxtur sé í gangi í hans kolli. Er að vinna í að snara enska textanum þar á ylhýra en gengur hægt ;o)

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ!

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa mín og Björgvin! bið og vona að allt gangi vel!
'Astarkveðjur Mamma

Nafnlaus sagði...

Bara að muna að skaffa þjóðbúninginn á Björgvin áður enn farið er heim. Það er meiriháttar að klæðast þessu!

Nafnlaus sagði...

Sæl Villa mín,

Það er unun að lesa skrifin þín. Mér hefur t.d. ekki dottið í hug líta á þrautargöngu okkar sem eigum krabbameinsveika fjölskyldumeðlimi sem ævintýraskóg. Samt er það sennilega það eina sem hægt er að gera í okkar stöðu.
Ætla í skógarferð í dag með flatbrauðssneið í töskunni og mjólk á flöskunni. Kanski ættum við að fara í eina saman þegar þið eruð komin heim?
kveðja
Erna A

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ og takk fyrir síðast!
Sendum ykkur jákvæðnisstrauma fyrir morgundaginn, vonandi gengur allt vel.
Bestu kveðjur
Magga, Arnar og Elvar