Líf í árvekni: Góðar fréttir & ferðaplön

mánudagur, 4. júní 2007

Góðar fréttir & ferðaplön

Það er varla að kona þori að segja frá af ótta við að storka forlögunum en verð nú samt að gera það því það er svo ánægjulegt að deila því með ykkur að doktorinn Grant virðist hafa hitt naglann á höfuðið með greiningunni sinni á ,,hálfkúpu- höfuðverkjaköstunum."

Prinsinn hefur sem sé ekki fengið svo mikið sem eitt einasta höfuðverkjakast þessa fjóra sólarhringa sem liðnir eru frá því hann byrjaði á nýja lyfinu (indomethacin) á föstudaginn og það er lengsti tími sem hann hefur átt án höfuðkvala frá því að hann gekkst undir heilaskurðaðgerðina 12. janúar síðastliðinn, fyrir tæpum fimm mánuðum.

Ekki er nóg með það, heldur hefur hitinn verði eðlilegur þessa sömu fjóra daga, sem er sömuleiðis tímamet undanfarinn mánuð. Við erum því óskaplega lukkuleg og enda þótt þreytan sé reyndar enn talsverð og lystin lítil þá höfum við nú tekið ákvörðun um að láta verða af ferðinni okkar um Hálöndin & eyjarnar (sem við vorum eiginlega hætt við) 10. til 20. júní.

Minn maður hefur keppst við að beygja sig niður og tína dót upp úr gólfinu í allan dag - yfir sig glaður yfir að fá ekki höfuðverkjakast af því - svo yðar einlægri þykir nóg um og hefur haft uppi varnaðarorð sem vitanlega er ekkert hlustað á. Fékk í ofanálag að heyra það áðan að prinsinn væri greinilega berdreyminn því í nótt hefði hann dreymt að konan hans tryði því ekki að hann fengi ekki höfuðverki af því að beygja sig!

Við lukum við að skipuleggja (barnlausu) ferðina okkar í dag og áætlunin er í stuttu máli þannig að á sunnudaginn næsta förum við með lest til höfuðstaðar Norðurlands sem heitir Inverness og gistum þar í tvær nætur. Þaðan förum við svo með rútu til nyrsta odda Skotlands sem heitir John O´Groats og stígum þar um borð í ferju sem flytur okkur til stærstu eyju Orkneyja, sem er ekki mjög stór en heitir þó Mainland (Meginlandið).
Við dveljum þar í bænum Kirkwall (Kirkjuvogi) í fjóra daga og túrhestumst þaðan um allar helstu stein-og bronsaldarminjar Bretlands eins og orkan leyfir, en úrvalið af slíku á Orkneyjum er slíkt að megnið af meginlandseyjunni er á heimsminjalista UNESCO.

Fljúgum síðan frá Kirkjuvogi til Inverness aftur laugardaginn 16. júní og förum samdægurs með rútu meðfram Loch Ness og Loch Lochy (þar sem skrímslið Nessie á víst systur!) yfir á vesturströndina til litla hafnarbæjarins Oban. Þar ætlum við að fagna þjóðhátíðardeginum en halda á mánudeginum til lítillar eyjar sem heitir Tiree með ferju.
Tiree er syðst af Suðureyjunum sem við köllum svo af því að þær eru sunnan við Noreg, en Skotar kallar ýmist Western Isles, af því að þær eru jú út af vesturströnd Skotlands eða Hebrides. Eyjaklasarnir eru raunar tveir, innri og ytri, og Tiree telst til innri eyjanna.

Þar hyggjumst við njóta mesta sólskins sem Bretlandseyjar hafa upp á að bjóða (sjá heimsmetabók Guinness) og leiðast um hvítar sandstrendurnar í rósrauðri rómantík í tvo daga, en halda þá til hafnar í Oban að nýju og fara þaðan með rútu heim til Edinborgar þann 20. júní.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábærar fréttir. Njótið nú frísins!

Nafnlaus sagði...

Samgleðst ykkur !Hlakka til að lesa ferðasöguna jafnóðum! Góða ferð og gangi ykkur allt í haginn! Ástarkveðjur Mamma og pabbi.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa.
Ég fylgist vel með blogginu þínu og dáist af því hvað þið eruð dugleg, hafið það rosa gott í fríinu, mér skilst að það sé mjög fallegt þarna.
Kveðja frá Gerði og Sigga.

Nafnlaus sagði...

Góða ferð og njótið nú hverrar mínútu á ferðalaginu.
Kveðja Dedda

Nafnlaus sagði...

Á hinu tíða bloggrápi mínu rakst ég á þessa síðu. Þóttist ég eitthvað kannast við andlit margnefnds prins og las því meira, kannski meira en æskilegt þykir fyrir konu út í bæ. Ég var eitt sinn nemandi Björgvins í Iðnskólanum í Hafnarfirði, og fann því þörf fyrir að kasta kveðju. Mér þykir hann berjast hetjulega við drekann og hvet hann eindregið áfram í þeirri baráttu. Með ósk um skjótan bara og gott gengi hjá ykkur. Kveðja, Una Eydís Finnsdóttir, Hollandi.

Nafnlaus sagði...

Kæru Villa og Björgvin
Alveg er það gott og blessað að Björgvin sé laus við höfuðverkinn og að þú sért líka hætt að banna honum að begja sig. Hafið það sem allra best í fyrirhuguðu fríi, mér sýnist sem það sé vel skipulagt að hætti ykkar og Exels og þið séuð nokkuð öfundsverð af hvítum ströndum, sól og skrímlum. Hljómar næstum eins og Arnarfjörðurinn.
Þ.v.a.
Matta

Nafnlaus sagði...

Elsku þið!
Mikið er ég glöð að heyra að hausverkirnir séu á bak og burt!
Megi þeir bara halda sig þar :)
Við ákváðum að taka ykkur til fyrirmyndar í frímálum og ætlum að skreppa í vikutúr til Rhodos núna á laugardaginn :o)
Knúskveðja á línuna
Auður Lilja & kó