Líf í árvekni: Hjá Möggu í Básum

föstudagur, 9. mars 2007

Hjá Möggu í Básum

Á mánudeginum eftir að minn heittelskaði gekkst undir skurðaðgerðina var mér sagt að nú gæti ég ekki setið við rúmstokkinn hjá honum nema í heimsóknartímunum; var búin að sitja þarna í græna hægindastólnum frá því á föstudeginum nema yfir nóttina athugasemdalaust af hálfu hvítsloppanna, en nú fannst þeim komið nóg af svo góðu. Það var hálfur annar klukkutími á milli heimsóknartímanna svo að ég gekk út í janúarmyrkrið og vissi svo sem ekki hvað ég ætti að gera við sjálfa mig þar til klukkan yrði hálfsjö og aðgangur leyfður á ný.

Hélt að kannski gæti ég fundið stað sem seldi kaffibolla þarna einhvers staðar á spítalalóðinni sem er á stærð við Skutulsfjarðareyri, eða því sem næst. Ekkert sérlega bjartsýn samt þótt búið væri að gefa mér leiðbeiningar: ,,Eftir þessum vegi, beygja svo til hægri og vinstri og vinstri aftur og svo...“ Daginn sem guð hannaði mig var svo mikið að gera (þetta var á aðventunni "64) að Hún steingleymdi að setja í mig rýmisgreindina.

Svo ég rölti bara eitthvað út í rökkvaðan hráslagann á milli sjúkrahúsbygginganna og vonaði að ég myndi nú rata til baka að Department of Clinical Neurology, óskaði þess með sjálfri mér að ég hefði garnhnykil eða að minnsta kosti brauðmola í vasanum.

Eftir skamma stund kom ég að krossgötum, heyrði eins og í vatni úr einni áttinni og var hálfhissa. Gekk á lækjarbunuhljóðið þar til ég kom að litlu, upplýstu húsi og þar í skjóli á bak við runna fann ég skýringuna, einhvers konar vatnsverk; hlaðinn brunnur sem flæddi stöðugt upp úr oní niðurfall í kring. Í gegnum glugga hússins sá ég eldhúsborð, temuggur og kex á bakka, fólk á stjákli fyrir innan.

Þannig fann ég Maggie´s Centre, athvarf fyrir þá sem þurfa að eiga við dreka af hvers konar tagi; stað þar sem stríðshetjur jafnt sem skjaldmeyjar þeirra og stuðningsfólk annað getur leitað sér stuðnings og hresst andann.

Þjóðfræðiskólaðir og aðrir þeir sem þekkja frásagnarliði Propp og epísk lögmál Olriks hins danska (t.d. Guðmundur Bogason) sjá auðvitað strax að hér er komið rjóðrið í skóginum þar sem hetjurnar hitta hjálparhellur sínar, líkt og í öllum góðum ævintýrum.

Þarna fékk ég bæði góðan tebolla og tíma til að úthella hjarta mínu - sem var um það bil að verða eins og vatnsverkið utan við dyrnar, nema án niðurfalls (þ.e. hjartað, ekki tebollinn) - og hélt aftur að sjúkrabeðinu til muna hughraustari en áður.

Það var svo fyrir um þremur vikum, þegar minn heittelskaði byrjaði í geislastríðinu, sem háð er þarna í grenndinni,
að mín ákvað að styrkja sig með því að þiggja boð þeirra hjá Maggie´s um vikulega stuðningsfundi með samherjum í áþekku ferðalagi, sem og stutt næringarnámskeið.

Mætti á fyrra skiptið af tveimur í námskeiðinu á miðvikudaginn og fór heim mett eftir aldeilis hollan og góðan hádegisverð og frábæra fræðslu, hlaðin góðu lesefni og uppskriftabók. Auk þess litlum bæklingi sem ber yfirskriftina A View From the Frontline, eða Útsýnið úr fremstu víglínu. Höfundur hans er Maggie Keswick Jencks, sú merkilega kjarnakona sem átti frumkvæðið að stofnun þessa athvarfs hér í Edinborg fyrir hálfum öðrum áratug. Þau eru síðan þá orðin fimm talsins um Bretland allt og áætluð sjö til viðbótar á næstu árum.

Andrúmsloftið hjá Möggu í Básum (adressan er The Stables) er heimilislegt; engir hvítsloppar og því síður sótthreinsunarlyktin af spítalanum, vítt til veggja sem eru hafðir í hlýlegum litum og innréttingarnar skandinavískar, vísast úr ,,Ækea“ eins og sagt er hérlendis.

Óþarfi að panta tíma, alltaf heitt á katlinum, hægt að líta inn í slökunartíma, eiga samtal við sála eða samherja í stuðningshópi, skrá sig í ýmis konar stutt námskeið um næringu, andlitsförðun og bætta líðan.

Minn heittelskaði hefur reyndar haft það á orði að honum þyki síður en svo óþægilegt að umgangast konur í hvítum sloppum, líkt og þær sem snúast í kringum hann í geislameðferðinni, eða hafa sótthreinsunarlykt í nösum. ,,Það er nú bara notalegt að koma á sjúkrahús og hvítmálaðar biðstofur, vekur upp góðar æskuminningar,“ sagði hann glottandi, sonur hjúkrunarkonunnar.

Geislameðferðin er nú rétt rúmlega hálfnuð og eins og spáð var fyrir byrjuðu hárlokkar á geislaða svæðinu að losna í vikunni. Vill piltinum til að hann er afar vel hærður og í bili má greiða yfir.

Yðar einlæg er þó byrjuð að reka áróður fyrir snöggri klippingu og hattakaupum. Eitthvað svo ákaflega sjarmerandi við hatta eins og þá sem feður okkar beggja tylltu á höfuð sér á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Að ég segi ekki bara notalegt ;o)
Enda þennan hundraðasta pistil Mindful Living með mynd af mínum heittelskaða að störfum í garðinum; ekki víst hvort myndatextinn við þessa ætti að vera Vorverkin hafin eða Haustverkunum lokið.
En ég get sagt ykkur, og þá sérdeilis móður minni ef hún skyldi rekast hér inn aftur frá Kanaríeyjunum, að krókusarnir bæði og páskaliljurnar eru sprungnar út og skoska vorið þar með opinberlega hafið.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég þekki ykkur ekki neitt en nú verð ég að kvitta. Þið eruð stórkostleg! Mér finnst eins og ég sé að lesa ókeypis framhaldssögu. Ævintýralegt að fylgjast með ykkur!

Ég óska ykkur gæfu og áframhaldandi gleði í framtíðinni.
Kær kveðja
Dísa

Nafnlaus sagði...

Var að skoða yfirlit yfir hitastig á heimsóknartímanum okkar. Rétt um 10 gráður. Jæja, við verðum þá að njóta vorsins eins og það kemur! Takk fyrir alla hundrað og til samanburðar við vorverk Björgvins þá var ég að moka 60sm af snjó af veröndinni að neðanverðu, sú að ofanverðu er enn með sína hundrað sentimetra og má bera enn um sinn.

Nafnlaus sagði...

Tolvuskommin er buina ad vera bilud sidan sidast,spanverjinn er nu ekki ad flyta ser!!!Bjorgvin ber sig fagmannlega vid gardverkin!Postkort a leidinni Astarkvedjur!Sama blidan. vonum ad allt gangi vel ! Mamma.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með hundraðasta bloggið. Ótrúlegt - hafandi lesið hvert einasta þeirra síðasta eina og hálfa árið eða svo, en fyrir vikið finnst mér ég hafa heimsótt ykkur miklu oftar en tvisvar! Og sammála Dísu ókunnugu - þið eruð STÓRKOSTLEG. Ef hún bara þekkti ykkur þá gæti hún sagt það með stórum stöfum!

Nafnlaus sagði...

Hæ. Og hér snjóar í logni. Sjáumst. Bjössi bróðir.

Unknown sagði...

Skal með gleði gefa honum derhúfu, minn á þær í tugavís, enda hárvöxturinn ekki mikill á þeim bænum. Hef verið að fylgjast með ykkur upp á síðkastið, og hugsað til ykkar. Við höfum vonandi tíma til að hittast þegar þið komið heim, bestu kveðjur, Sigga J.

Nafnlaus sagði...

Frábærlega vel skrifaðar frásagnir um lífið ykkar,sjúkdóminn,hvernig þið tæklið erfiðleikana á undursamlegan máta.
Þetta er gífurleg lífsreynsla,sem þið hafið verið að ganga í gegnum undanfarna mánuði.
Óska ykkur allra heilla með framhaldið við að berjast við drekann vonda. Vonandi er hann nú dáinn fyrir fullt og kemur aldrei aftur.Gleðilega páska yndislega fjölskylda og velkomin heim í júní.Ég hlakka til að sjá ykkur þá. Lifið heil. Daddi