Líf í árvekni: Prins verður tröll

þriðjudagur, 20. febrúar 2007

Prins verður tröll

Það var víst ekki nein gubbupest að ganga. Ástæðan fyrir vanheilsu prinsins um helgina var sú að geislarnir ollu bólgu í heilanum og þar með höfuðverkjum og ógleði, ekki ósvipað og gerist við heilahristing.
Okkar ágæta hjúkrunarkona, hún Shanne, afhenti drengnum tvær lyfjadósir fullar með sterum við komuna í geislameðferðina í gær, með þeim orðum að þeir ættu bæði að slá á bólguna og auka honum nokkuð orku.
Og áhrifin hafa ekki látið á sér standa: Prinsinn sem vart hefur lyft höfði frá kodda síðustu daganana spratt á fætur í morgun og var búinn að henda í þvottavél, rífa úr uppþvottavélinni og raða leirtauinu upp í skápa, gera allsherjartiltekt í skrifborðinu sínu, skipuleggja sitt eigið prívatapótek og raða pillum af ýmsum gerðum í þar til gerð vikuskammtabox - þrjú stk. í mismunandi litum, allt eftir tíma dags - fyrir hádegi.
Eftir hádegissnarlið - ,,ég hef nú enga matarlyst ennþá," sagði hann og tróð upp í sig samloku með þykkt skorinni sterkri kryddpylsu á methraða svo að small í hingað til viðkvæmum kjálkanum - var hjólhesturinn tekinn fram og steratröllið geystist upp á spítala á 30 mín. sléttum yfir hálfa borgina, strætó hvað?!
Engin kría tekin í dag náttúrulega, en eftir kvöldmatinn var hjólað á ofurhraða á Blockbuster og leigð spóla svo að manni leiðist nú ekki í kvöld. Og hvaða kvikmynd er svo viðeigandi eftir slíkan sprengidag í orðanna bókstaflegri merkingu? Jú, Superman Returns, nema hvað...!

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aldeilis frábær frammistaða hjá prinsinum!!!'Oskum ykkur góðs gengis áfram! Flottar myndir! mamma og tengdamamma! Baráttukveðjur frá pabba mömmu!

Nafnlaus sagði...

Var eitthvað meira í þessum töflum?
Ég held að ég sé fullfrísk en guð minn góður, ég var orðinn þreytt við lesturinn þegar að prinsinn var farinn að taka til á skrifborðinu!
Spurning um að fá hann til að líta við í Borgartúninu og skipuleggja fyrir mágkonu sína, kann ekki Súperman annars að fljúga?

Ástar og saknaðarkveðjur til ykkar og ég vona að skottunni minni sé farið að líða betur með tjikken pox.

Nafnlaus sagði...

Sniðugar töflur, hvað sagðirðu að þær hétu?
kveðja
Matta

Nafnlaus sagði...

Sæl Bæði tvö

Hvað er menn svo að agnúast út í steranotkun... Þeir eru bersýnilega hollir og auka orku og létta lundu. Mér finnst hinsvegar þú vera að lýsa Björgvini eins og ég þekki hann, kannski hefur hann verið allan tímann á sterum hummm... og þess vegna verið svona góður í Kimewaza.

Annars ástarkveðjur og ég er búinn að lofa sjálfum mér og öðrum að heimsækja ykkur áður en þið flytjið heim (sem er hvenær?)

Nafnlaus sagði...

Hæhæ
Þá er ég líka búin að fá steraskammtinn minn. Verst að við Björgvin erum ekki í sama landi, við gætum sameinast um að koma einhverju stórkostlegu í framkvæmd:)
Gangi ykkur vel í geislastríðinu.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Ég vona að sterarnir hafi ekki rænt prinsinn nætursvefninum; þeir geta átt það til um leið og þeir skjóta mönnum upp í léttmanískt ástand... ;)
Gangi ykkur öllum vel elskurnar.
Bestu kveðjur,
Hrefna og co

Nafnlaus sagði...

Vonandi hafa sterarnir ekki rænt prinsinn nætursvefninum; þeir hafa tilhneigingu til þess um leið og þeir skjóta mönnum upp í léttmanískt ástand ;)
Gangi ykkur öllum sem best.
Kærar kveðjur,
Hrefna og co

McHillary sagði...

Hæ elskurnar.
Hætti allsnarlega að pússa spariskóna fyrir laugardagskvöldið þegar ég fékk að vita að ég er á leiðinni til ÍSLANDS á sunnudaginn í bara 2ja daga reisu. Allt að gerast. Gef rapport við fyrsta tækifæri. Góða skemmtun á blótinu. Knús og kram.