Hef upp á síðkastið verið að kynna mér matarræði dreka eins og þess sem býr í kolli míns heitt- elskaða. Hvað þeim finnst gott og lætur þá fitna og hvað þeim þykir ekki gott og fær þá til að horast niður úr öllu valdi.
Komin með bækur um efnið frá Amasónu, fleiri en eina og fleiri en tvær. Eina líka skrifaða af drekabana, amerískum, sem er sálfræðiprófessor oná önnur afrek.
Sé nú þegar, þótt ég sé nú ekki búin með þær spjaldanna á milli allar saman, að drekar hafa áþekkan smekk og við mörg hver höfum á unga aldri. Þeim finnst allt sætt óskaplega gott og fitna af því eins og púkar á fjósbita og skiptir þá ekki hvort það er hvitur sykur eða brúnn, sýróp, glúkósi, mólassi, gervisykur og hvað þetta nú allt heitir, en fussa hins vegar við hollustufæði eins og lýsi, feitum fiski og gufusoðnu brokkolí og rósakáli (sem sumir sveia nú við fram eftir öllum aldri...) Mömmurnar okkar hafa víst haft rétt fyrir sér allan tímann.
Minn heittelskaði slær eigin hraðamet daglega á hjólreiðatúrnum í geislana fyrir töfra hvítu pillanna sem hann bryður á hverjum morgni. Fyrsta ferðin tók 40 mínútur (í síðustu viku, fyrir stera), önnur hálftíma, sú þriðja 24 og hálfa mínútu (já, hann er með skeiðklukku!) og í dag... 19 mínútur! Við því að búast að metið verði enn slegið í næstu viku þar sem síðdegis var fjárfest í aðsniðnum, afar sportlegum, fagurbláum, vatns-og vindheldum hjólreiðajakka sem auk þess að draga úr vindmótstöðu dregur andann (?!), eða svo er mér sagt.
Það hjálpar vísast líka gegn vindinum að drengurinn hlýddi skipun frá breska heilbrigðiskerfinu - sem mælti með munni dr. Önnu Gregor geislalæknis - og keypti sér loksins hjálm á höfuðið, með hvössum oddi sem klýfur loftið. Einstaklega viðeigandi reyndar, þegar ég spái í það, að prinsinn minn hafi hjálm á höfði þegar hann mætir til hinnar daglegu atlögu við drekann, ríðandi á eigin fák í onálag.
Eftir ólán undanfarinna daga og vikna hef ég ákveðið að lukkan hafi snúist á okkar band. Snýst auðvitað allt um viðhorf. Eins og að gleðjast yfir hruni hraðametanna í stað þess að bölsótast yfir ótætis svefnleysinu sem fylgir sterunum – enda stendur það nú til bóta innan tíðar; í konunglega póstinum er nefnilega á leið til okkar frá Lundúnaborg dálítið sem auk þess að bæta svefn er mikið ómeti fyrir dreka. Eitt af þessu sem er skrifað um í ofangreindum næringarfræðum, heitir melatónín.
Lögmál aðdráttaraflsins, sem um var ritað hér fyrir sirka mánuði, lætur ekki að sér hæða. Undanfarnar tvær vikur eða svo hef ég verið að tína upp penní sem almættið, með hjálp annars fólks, hefur lagt í götu mína. Hef alltaf litið svo á að ekki megi foragta það smáa sem Hún sendir manni, því slík óvirðing við gefandann gæti haft í för með sér að engar stærri gjafir komi þá heldur í veg fyrir mann. Auk þess sem það hlýtur að teljast argasti dónaskapur að stíga bara yfir andlitið á sjálfri drottningunni og láta eins og maður sjái það ekki.
Þetta er þegar farið að skila sér. Í fyrradag fékk ég gluggabréf frá Gasveitunni sem innihélt ekki reikning eins og vanalega heldur ávísun upp á 10 pund og 20 pens. Skemmtileg tilbreyting, sem styrkti enn trú mína á merkingu allra þessara pennía á götum borgarinnar. Í gær komu svo sjúkradagpeningarnir að heiman. Ekki stórfé en munar þó vissulega um það, borgar ríflega hálfan matarreikninginn á mánuði, gæti ég trúað. Í dag fékk ég svo borgaða restina af greiðslunni fyrir barnavagninn sem við seldum í haust og ég var búin að gleyma að ég átti ennþá inni. Tíkall þar og munar um minna ;o)
Þetta er þegar farið að skila sér. Í fyrradag fékk ég gluggabréf frá Gasveitunni sem innihélt ekki reikning eins og vanalega heldur ávísun upp á 10 pund og 20 pens. Skemmtileg tilbreyting, sem styrkti enn trú mína á merkingu allra þessara pennía á götum borgarinnar. Í gær komu svo sjúkradagpeningarnir að heiman. Ekki stórfé en munar þó vissulega um það, borgar ríflega hálfan matarreikninginn á mánuði, gæti ég trúað. Í dag fékk ég svo borgaða restina af greiðslunni fyrir barnavagninn sem við seldum í haust og ég var búin að gleyma að ég átti ennþá inni. Tíkall þar og munar um minna ;o)
Þetta var allt saman þessir þrír pennípeningar sem ég tíndi upp af gangstéttunum. Í næstu viku geri ég fastlega ráð fyrir að aðdráttaraflið skili okkur því sem FIMM pennía peningurinn, sem ég fann á róló um daginn, boðaði. Það verður gaman að sjá hvað það verður...
6 ummæli:
Er skottið búið að jafna sig á hlaupabólunni?
Kær kveðja
Það er sem ég segi,allt er vænt sem vel er grænt! Margt smátt gerir eitt stórt! 'Astarkveðjur mamma.
Hlaupabólufréttir eru þær helstar að bólufarganið fór á örskotshraða í gegnum ferlið bóla-vatnsbóla-hrúðruð bóla á mánudag/þriðjudag, og á fimmtudag fór Skottan alsæl í leikskólann að hitta félaga sína, sem eru vitanlega öll búin að standa í sama tsjikkenpoggþinu að undanförnu. Ennþá dáldið skrautlega dílótt en allt tekur enda á endanum, sem betur fer :)
Ég sem var að vona að ég fengi skottuna með í sendingunni :o)
En það verður víst að bíða vorsins.
Knúskveðja frá okkur
Ekki er ég nú viss um að skottan hefði talið þetta eðlilegan sendingarmáta, vísast hefur hún lagst til svefns í kassanum. Hún er ekki ein um það í ættinni að velja sér skrýtna svefnstaði, spyrjið bara Jökul Snæ.
Gangi ykkur allt í hag í baráttunni við drekann, kveðja frá okkur Gísla, Halla frænka.
Awww I remember playing in cardboard boxes...
Dave.
Skrifa ummæli