Líf í árvekni: ,,Oh, dear, oh, dear..."

mánudagur, 19. febrúar 2007

,,Oh, dear, oh, dear..."

Ofangreind tilvitnun er í Skottuna sem kom heim úr leikskólanum á föstudag, útsteypt í því sem hún tilkynnti okkur mæðuleg á svip að væri ,,tjikken-poggþ." Hlaupabólan mætt, sem sé.

Sú stutta var orðin hreinasta Bólu-Skotta á svipstundu, bólurnar hlaupandi um allan búk, andlitið, hársvörðinn, tunguna, meira að segja ein í öðrum lófanum. Lítið sofið aðfaranótt föstudagsins þrátt fyrir kamomíluáburð og mixtúruþamb, og laugardagurinn lítt skárri.

Í ofanálag bilaði síðan kyndingin svo að hér var hitastigið eins og í íslenskum, ókyntum sumarbústað í febrúar og í ofanálag við það var prinsinum svo óglatt, líkast til af geislunum, að yðar einlægri var allri lokið og hringdi bæði á kyndingarviðgerðamann og lækni.

Báðir brugðust til allrar hamingju fljótt við, kyndingarviðgerðamaðurinn losaði á skammri stundu stíflu úr einhverju sem heitir "pilot" í "boilerinum" og læknirinn, indæl og háólétt, ung kona, sprautaði ógleðimeðali í prinsinn, svo að hvort tveggja lagaðist til muna.

Sunnudagurinn var síðan snöggtum betri á öllum vígstöðvum, Skottan vitanlega verulega bólótt en ekki nándar nærri eins kvartsár, funheitt í húsinu og prinsinn farinn að halda niðri næringunni eins og vera ber. Fjórði geislatími núna á eftir og þá fær hann væntanlega einhverjar pillur við ógleði næstu vikurnar, þ.e. ef framhald verður á þvílíku. Nema náttúrulega að hér sé bara í gangi gamaldags gubbupest, sem getur svo sem allt eins verið því prinsessunni undurfögru, sem hér slær á lykla, er eiginlega dáldið bumbult líka. Á því gæti svo aftur verið sú skýring að Bólu-Skottan óskar reglulega eftir kossum á öll sín ,,meiddi," og fær vitanlega allt sem hún biður um... ;o)

May the Force be with you all.
Kveðja úr kastalanum bóluhersetna.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku skottan! vonandi batnar þetta fljótt! 'Astarkveðjur Amma

Nafnlaus sagði...

Og megi Krafturinn ótrúlegi, sem fram kemur í skrifunum, áfram vera með ykkur !! Ástarkveðja,

Nafnlaus sagði...

Hvað er að vita !litla skottið. Veistu að mín er ný staðinn upp úr þessu og ég notaði ráðið sem mamma notaði á mig þegar ég fékk halupabólu á fermingarárinu. Það er gamla húsráðið að bera kattöflumjöl á bólurnar. Ég man hvað það var gott þega mamma helti úr pokanum í rúmið hjá mér.(var svolítð illa haldinn)Sko segjum svo að þjóðfræðin og húsráðin nýtist ekki. Vonandi gengur ykkur öllum vel. Hugsa oft til ykkar og dáist að dugnaðinum.
Góðar kveðjur frá Selfossi
Magga.
Rebba ættingjarnir ykkar, sem búa með mér biðja að heilsa.

McHillary sagði...

Hæ darling! og takk fyrir síðast, við slógum fyrra met í maraþonspjalli og drengjunum mínum fannst mikið til koma, eigum við að setja markið á 8 tíma næst ?? (Þá erum við komnar í heilan vinnudag en ekki bara skóladag)

Slæmt að heyra með hlaupabóluna, en gvvuð hvað það er gott fyrir hana að fá þetta núna en ekki þegar hún verður 17 eins og ég, úfff. En jæja, hitti prinsinn á hjólinu á þessum fallega degi eldsprækann á Bruntsfield Place. Hann sagði að þið væruð alveg gallhörð á því að blótast á laugardagskveldið. Held ég byrji bara líka að pússa spariskóna.
Heyrumst fyrir helgi.
Luv, Hilla

Nafnlaus sagði...

ja hér kannski hét unga læknisdaman Stella Mac?eitthvað en sú sem ég leigði 117 af er einmitt læknir og kasólétt í þokkabót. Bestu kveðjur úr Hlíðunum til allra :) Kolbrún