Líf í árvekni: Gestir í morgunmat

miðvikudagur, 24. janúar 2007

Gestir í morgunmat

Má til að sýna ykkur myndirnar sem ég náði í gær af nokkrum fastagestanna við morgunverðarborðið í bakgarðinum okkar. Íkorninn okkar og rauðbrystingurinn (á stéttinni hægra megin við borðið ) eru stundum mættir áður en morgunsvæfir íbúar þessa heimilis eru búnir að bera fram matinn þeirra, kornflögu- og brauðmylsnu.

Íkorninn er orðinn svo heimaríkur að hann fer ekki frá borðinu fyrr en hann hefur lokið við alla stærstu molana og smáfuglarnir verða að gera sér að góðu þá sem annað hvort falla niður af borðinu eða mylsnuna sem hann lætur svo lítið að skilja eftir fyrir þá. Stundum kemur hingað dúfa líka, og smáfuglar sem við kunnum ekki að nefna, einn svartur með appelsínugulan gogg, annar hvít- og gráskellóttur. Ætli ég verði ekki að fara að fjárfesta í fuglahandbók.

Nú síðdegis eigum við prinsinn stefnumót við prófessor Ian Whittle og Shanne McNamara hjúkrunarfræðing á taugafræðideild Western General Hospital. Við höfum fengið Pál vin okkar, sem er geðlæknir í Lundúnum, til að vera með í för og snúa fyrir okkur á íslensku læknalatínunni sem viðbúið er að flæði fram við lýsingar á niðurstöðunni úr vefjarannsókn á heilaæxlinu sem var fjarlægt úr höfði Björgvins fyrir tólf dögum. Í dag fær drekinn sem sé nafn og kannski verða fundin einhver ráð með að losna við halann á honum sem varð eftir í aðgerðinni.
Er reyndar að velta fyrir mér hvort þetta sé rétta nálgunin, að kalla æxlisskömmina dreka. Kannski er ég þá að auka því kraft (?), í anda lögmálsins um aðdráttaraflið sem ég er að lesa um þessa dagana.
Nei annars, þið sem þessar línur lesið verðið bara að útvega ykkur Söguna af undurfögru prinsessunni og hugrakka prinsinum hennar, fletta upp á myndinni af drekanum þeirra og hafa hana í huganum. Hann er óttalega ræfilslegur og langt í frá ógnvekjandi, tala nú ekki um þegar prinsinn hefur kýlt hann kaldan.
Batakortið hér til vinstri er eitt af þremur kortum sem prinsinum hafa borist frá skoskum vinum okkar og alveg örugglega það stærsta sem sést hefur á byggðu bóli. Þau bjuggu þetta til, Regnbogabörnin, þ.e. Skottan og leiksystkini hennar á Rainbow Kindergarten. Hún er búin að sýna okkur svona nokkurn veginn hver á hvaða hendi - sjálf á hún bláa lófann í miðjunni.



7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Prinsarnir sigrast alltaf á drekunum svo þú gefur þessu fullkomið nafn.

Ferlega skemmtilegar myndir.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ. Gaman að heyra (lesa) að allt gengur vel. Þó ég sé löt að kommenta þá fylgist ég alltaf með ykkur hér. Kveðja frá Akureyri, Aldís María

Nafnlaus sagði...

Sælinú,

ég vil bara benda á að þetta eru að mestu kvenmannsverk sem talin voru upp og Björgvin er svo sannarlega búinn að sýna að hann er sko engin kelling :-)

Það verður gott að nota þessa "ístraumtækni", sé fyrir mér að koma aldrei framar heim með krekjuna í rassinum og m.fl....

Bestu kveðjur af Skeljagranda,

Kiddi

McHillary sagði...

Hae elskurnar, er buin ad vera mikid ad hugsa til ykkar.Vona ad thad hafi gengid vel i gaer.
Risaknus ur Shandwick Place.

Nafnlaus sagði...

Vona að allt gangi vel. Ég sé að það er búið að setja metfjölda í kommentum á bloggið systir góð svo að ég ætla að hjálpa til við að bæta ofan á það :-)

kveðja úr snjóleysinu vestur á Ísafirði. - Bjössi

Nafnlaus sagði...

Vonandi eigið þið góðan dag í flæðinu.
Sveitakonunni hlýnaði um hjartarætur að sjá að þið eruð komin með búskap þarna í Edinborg, sjálf el ég krumma og snjótittlinga í mínum garði kettinum mínum til ómældrar ánægu.
Hérna á Ísafirði erum við að vonast eftir sólinni í dag, en 25. febrúar ætti sólin að geta sést í Sólgötu og þá hlaupa allir vopnfærir til og baka (sólar)pönnukökur.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Landins forni fjandi er að fylla Dýrafjörðinn,ég vona að drekafjandin fari sem fyrst út í hafsauga,og komi þaðan aldrei aftur,þinn bróðir. Daddi