Líf í árvekni: Ekkert hnu með það!

fimmtudagur, 18. janúar 2007

Ekkert hnu með það!

Hef alltaf haldið að femínistinn ég sæi um helming allra húsverka hér á heimilinu. En sé nú að það byggðist á sælum misskilningi.

Það sem hefur verið á minni könnu fram að þessu er að elda þrisvar í viku, þrífa annað baðherbergið á laugardögum og stuva af svona eftir hentugleikum.
Björgvin hefur, auk þess að elda líka þrisvar í viku (heimasætan sér um mánudaga), ryksugað og skúrað á báðum hæðum á laugardögum, farið út með ruslið á hverju kvöldi, sett út endurvinnslubalana út á stétt á tilteknum dögum (sem ég veit ekkert hverjir eru), farið með flöskur í endurvinnslugáminn, sett í þvottavél á hverjum degi, hengt upp, tekið saman og gengið frá þvottinum inn í skáp, poppað fyrir okkur 2-3 í viku fyrir sjónvarps-og vídjógláp, (dáldið mikið, ég veit, en popp er betra en nammi!), séð um að skipta um perur (sem fara alltaf allar í bunu?!), gert við allt sem bilar (raftæki, brotnir hlutir, kyndingin), gert tossalista fyrir vikuinnkaupin, verslað í matinn á netinu, keypt Scotsman og croissant fyrir okkur um hádegisbilið hjá kaupmanninum á horninu, baðað Skottuna á kvöldin, farið með hana á leikskólann og sótt hana oftast líka, lesið fyrir hana kvöldsöguna, trekkt gömlu afaklukkuna á sunnudagskvöldum og, og, og....

Það má eiginlega segja að það síðastnefnda sé afar táknrænt fyrir ástandið á heimilinu þessa dagana; afaklukkan stoppuð og sýnir tíu mínútur yfir tíu út í eitt. Yðar einlæg kann vitanlega ekki á gripinn sem er arfur frá Ingimar heitnum og hefur slegið sinn jafna takt frá því að sambúð okkar hjónakornanna hófst.

Það undarlega er að um þó nokkurt árabil tókst mér þó að reka heimili ein og hjálparlaust með tvö börn og það bara þokkalega, málaði og boraði (með eigin borvél!), eldaði, verslaði, ók bíl, þreif og söng eins og hver önnur Mjallhvít (sjá Disneymynd frá '39). Makalaust hvað það er auðvelt og þægilegt að koma sér fyrir svona í umsjá annarra og láta fara vel um sig. En nú er sem sagt veruleikinn annar - svona út næstu vikuna að minnsta kosti, segir prinsinn og hefur engan hug á að lagfæra þetta illilega áberandi misrétti til frambúðar. Við sjáum nú til með það.

Með góðri hjálp hennar Löggu minnar hefur mér tekist að læra á þvottavélina svo að við setjum í vél flesta daga og í gærkvöldi keypti mín bara alveg sjálf í matinn á netinu. Í dag gengum við prinsinn svo saman til pakistanska kaupmannsins okkar á horninu og keyptum bollur og Scotsman; fyrsta útivistin frá því fyrir aðgerð. Hann vildi koma í kapp til baka (!) en ég var nú bara ákveðin, hélt þéttingsfast í handlegginn á honum og gekk á rólegum og jöfnum hraða ,,og ekkert hnu með það," eins og ung frænka mín myndi segja.

Ég ætla að stinga hér neðst inn mynd sem ég tók síðdegis föstudaginn síðasta og hef ekki sýnt ykkur ennþá, og birti núna mest af því að Björgvin furðaði sig á því, þegar ég sýndi honum hana í gær, að ég skyldi ekki hafa skellt henni inn strax (mín með einhverja óþarfa tillitssemi greinilega!) en líka til að hann hafi það fyrir augunum á sér af hverju hann fær ekki að keppa við mig í hlaupum alveg strax...

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja...hver ands....ég verð greinilega að fara að skoða verkaskiptinguna á mínu heimili!!Ég sem hélt að ég ætti að gera þetta allt sjálf!!!þvílíkur misskilningur....:-D
Gott að heyra að allt gengur vel, hugsa til ykkar áfram, sérstaklega þetta með heimilisst.! og að sjálfsögðu verður síðasti pistill þinn prenntaður út og hengdur á mjög áberandi stað á heimilinu :-)
Bestu kveðjur Alla.

Nafnlaus sagði...

Sumir farnir að brosa! það er góðs viti held ég! Þvílíkur eiginmaður ,von að þér bregði við!Ynnilegar bata kveðjur og bestu óskir gott gengi!
Mamma

Nafnlaus sagði...

I HEAR YOU SISTER!!! oh hvað ég kannast við þetta allt saman. Ég hélt ég vissi líka að það væri ýmislegt sem Þórir minn sæi um á heimilinu, en þegar maður þarf að bæta því öllu á verkefna listann sinn, ásamt því að vera í hjúkkubúningnum, þá varð þetta óendanlegt. Þeir eru líka núna komnir með óendanlega afsökun.....Þórir er enn ekki alveg að muna hvað það var mikið sem hann sá um....ber fyrir sig smá minnisleysi...og hey ekki má gleyma: "ég er nú með heilaæxli!!"
Hang in there!!! Þvotturinn og skíturinn á gólfunum verður alveg þarna á morgun, haltu bara áfram að hugsa um kallinn og njóta samverunnar....göngutúrarnir eru æði!!
kv.
Guðrún Erla

Nafnlaus sagði...

Það er svona með okkur kallana, það tekur enginn eftir öllu því sem við gerum nema við strækum á því. Carry on...

Nafnlaus sagði...

Jess..........þetta var sko ekki slæmt að frétta, Gísli fær sko þennan pistil þinn til yfirlestrar, í þeirri eðlu von að á gamals aldri taki hann á sig eitthvað af heimilisverkunum. Þetta með myndina, ótrúlegt hvað fólki tekst að nota miklar umbúðir, þetta líkist mest hauspoka .... þú ert alveg viss um að það hafi verið Björgvin inni í öllum þessum tuskum? nei ég segi nú bara svona......kveðja Halla frænka.

Nafnlaus sagði...

En gott eintak sem þú átt! smá kvenremba í gangi hjá mér núna. Ég vona að allt gangi eins og í ævintýri héðan í frá.
Það er Þorrablót hjá okkur í þjóðfræðinni 2. feb. Við munum hugsa til þín.
Kv. bryndís í þjóðfræðinni.

Nafnlaus sagði...

Ef þú lítur á heildarmyndina þá er þessi verkaskipting ykkar eðlileg. Sjáðu til þú tekur allan þann tíma sem þú hefur haldið heimili slumpar á þann tíma sem þú hefur átt við þvottavélina og hitt allt. Því næst leggur þú saman þann tíma sem aðrir fjölskyldumeðlimir hanfa eytt í sömu störf og þú átt inni mismuninn. Frá feminsíku sjónarmiði gæti þetta kallast jákvæð mismunun. Gangi ykkur vel. Farið bara í óheinu fötin, látið skítinn liggja, njótið þess að fara göngutúr og lesið góða bók meðan enn er heil pera í húsinu.
kveðja
Matta