Þá eru krakkastýrin (tvö af þremur) flogin heim á landið bláa og þar er víst svoddan blástur í dag að flugvélin mátti hringsóla yfir Reykjanesbæjarflugvelli í hálfa stund áður en hægt var að lenda. Og vefmiðlarnir heima birta flóðamyndir í dag sem hefðu sem hægast getað verið teknar hér í Skotlandi fyrir stuttu. Konu bara krossbregður.
En það er náttúrulega að áhrifa af hlýnun heimsins gæti norður við Ballarhaf rétt eins og annars staðar. Vona bara að það verði flugfært að sunnan og vestur á firði fyrir jólin fyrir roki og rigningu. Eða þoku - allt flug frá Lundúnum í lamasessi í dag og í gær út af svartaþoku; hún gæti sosum laumast norður eftir líka eins og rigningin.
Skoska sjónvarpið ætlar að sýna okkur í kvöld þátt sem ber yfirskriftina The Year of Weird Weather; það verður fróðlegt að sjá. Alls konar met slegin, hlýjasta árið og það blautasta og svo framvegis.
Hér í Edinborg er reyndar fyrirtaksveður í dag; lítils háttar gola og sjö stiga hiti, alveg mátulegt bara. Sást m.a.s. til sólar fram yfir hádegi og við skötuhjúin litum í tilefni þess á þýska jólamarkaðinn, garðmegin við Prinsastræti, keyptum okkur þar vöfflur með súkkulaðisósu og köngul af áströlsku júkalyptus-tré.
Jólaverkin eru svo gott sem að baki; búið að kaupa og senda allar gjafir, skreyta tréð og fylla kökudunkana (og hálftæma þá líka...) svo að nú mega jólin bara fara að síga í garð. Tókum reyndar dálítið forskot á sæluna í gærkvöldi með litlum jólum áður en Snúðurinn og Heimasætan flugu af landi brott.
4 ummæli:
Fínt Jólatré hjá ykkur! Það verður líklega ekki borðuð skata hjá ykkur þessi jólin!
Skottan og snúðurinn taka sig vel út við jólatréð! Vona að pakkinn hans hafi skilað sér!'Astarkveðjur Mamma.
Pakkinn skilaði sér og var vel fagnað, mikil gleði með Geiminn! Hér verður engin skata á Þorlák heldur skötuselur, namminamm...
Gleðileg jól og til hamingju með glæstan árangur í erfiðleikum og torfæru ákveðins áfanga! Takk fyrir góðan úrdrátt sem kom sér vel í munnlega... ég sló í gegn með því að lýsa habitusnum sem formi sem hægt væri að setja á hakkavél. Þá spurði Valdimar: "Og hvert er þá hráefnið?" ... ég hafði ekki hugsað út í það en ég held að ég hafi reddað svarinu ágætlega.
Bryndís úr þjóðfræðinni
Veðurfar er ennþá bara stórskrýtinn! Allan desember var í Suður-finnlandi yfir núll að degi til og miklar rigningar, og eru reyndar enn! Nema var bjart og +5 á jólum! Desember var hlyjasti siðan mælingar hófust, segja veðurfræðingar.
Skrifa ummæli