Líf í árvekni: Af blómi sem breytti sögunni

þriðjudagur, 9. maí 2006

Af blómi sem breytti sögunni

Jæja, búin að lesa svo mikið fyrir prófið á morgun að það er farið að leka út úr eyrunum á mér. Kálgarðsbókmenntir, tartanskrímslið, safna-og söfnunarstarf, þjóðarímyndarþras, menningararfsiðnaður og svona áfram og áfram.

Og í miðri lesningu um þjóðernisþras síðustu áratuga hér í landi og það hvernig Láglendingarnir hafa lagt undir sig rómantíseraða útgáfu af hinum göfugu og villtu Hálendingum (sem fram að því voru algjörir sveitalubbar og bláfátækir kúasmalar) mundi ég eftir því að ég átti alltaf eftir að
fletta upp sögunni af því af hverju þistillinn er þjóðarblóm Skota.

Þessi stingandi en þó fagra planta skreytir alls konar túrhesta 'nikknakkerí' í rammagerðarbúðunum á Prinsastræti og Kóngamílu og einhvern tímann hafði ég heyrt að á bak við lægi fögur saga.

Eftir stutta heimildavinnu (gúggl) komst ég að því að sagan sú gerist einhvern tímann í fyrndinni, þegar Norðmenn voru ennþá í heimsvaldastefnunni, og voru búnir að nappa undir sig eyjunum hér fyrir norðan og vestan, og góðum hluta af Katanesi í þokkabót.

Í einni heimild (síðu) er ætlað að sögutíminn sé einmitt árið 1263, en við tökum því nú ekki sem gefnu. Hitt er annað að þistillinn varð að þjóðartákni við ákvörðun Alexanders III Skotakonungs sem var á dögum 1249 -1286.

Nú. Sagan segir að nótt eina hafi víkingaskammir í liði Hákons Noregskonungs (óvíst hvort það var sá ungi, gamli, góði eða háleggjaði) ætlað sér að læðast að grunlausum skoskum (tilvonandi) þjóðhetjum og skera niður við trog þar sem þeir lágu sofandi úti í móum. (Ég veit ekki af hverju þeir sváfu úti þessa nótt, kannski voru þeir búnir að fá sér smáviskí?)

Nojararnir fengu þá snilldarhugmynd að leysa af sér kálfskinnskóna til þess að síður heyrðist til þeirra við læðupokaháttinn og laumast berfættir (já, ég veit! Heyrist í skinnskóm?). En eins og víða í skoskum móum spruttu þar þistlar, þyrnóttir mjög, eins og þistla er vandi. Einhver víkingurinn treður á þessari litfögru plöntu og blómið hefnir sín með því að skilja þyrna eftir í tásunum á honum. Hann rekur vitanlega upp gól, Skotarnir vakna, grípa til vopna, verjast hetjulega og hrekja norsku frekjurnar af höndum sér.

Þannig getur eitt lítið blóm breytt sögu þjóðar - hugsa sér ef Skotland væri útibú frá Noregi og í stað Elísabetar ísdrottningar II, héti þjóðhöfðinginn Haraldur og kynni á gönguskíði?!

Þistillinn á því svo sannarlega skilinn sinn heiðursess, bæði á túristadóti og hermannlegum hetjubrjóstum. Einkunnarorðin sem skráð eru á latínu á heiðursmerkið hér til hægri (Order of the Thistle, stofnuð 1540) "Nemo me impune lacessit", snarast svo á ylhýra: "Enginn skaðar mig án þess að verða refsað fyrir." Skotar sjálfir segja að latínan þýði "Wha daurs meddle wi me" (Hver dirfist að bögga mig). Sannkallað flower-power...

1 ummæli:

Villa sagði...

Hvernig stendur á því að amk norskættaðir/nojaðir lesendur mínir hafa enga skoðun á þessum pistli...?