Líf í árvekni: Plágupælingar og golf í 271 ár

fimmtudagur, 23. mars 2006

Plágupælingar og golf í 271 ár

Ég nefndi það um daginn að hafa heyrt að fjöldi fórnarlamba plágunnar miklu, Svarta dauða, hefði verið grafinn undir golfvellinum hér handan götuhornsins, og ákvað að kanna hvort eitthvað væri um þetta að finna á Netinu. Fann þar ágæta grein í Scotsman þar sem fram kemur að þetta á við nokkur rök að styðjast. Og líka að golfvöllurinn, Bruntsfield Links, er ekki bara plágupyttur heldur líka elsti 9 holu golfvöllur heims, lagður árið 1735!

Á miðöldum voru þessi engi, og raunar mun stærra svæði sunnan þáverandi borgarmúra, vaxið eikarskógi sem kallaðist Burgh Muir. Þegar plágan herjaði á Edinborgara með reglulegu millibili frá 15. öld til þeirrar 17. voru smitaðir reknir í sóttkví út í þennan skóg og áttu sér þar skjól í kofum umhverfis kapellu st. Roche, verndardýrlings plágusjúklinga, þar til dauðinn sótti þá. Hann var reyndar stundum svo fljótur í förum að fólk dó á leiðinni og var þá grafið í vegkantinum. Beinaleifar hafa iðulega komið upp úr grænmetisbeðum góðborgara hér í hverfinu og í einum garði er m.a.s. legsteinn hjóna sem önduðust úr plágu á því herrans ári 1645.

Talandi um garðyrkju - ég var einmitt að setja í potta kóríanderfræ og steinselju sem ég ætla að planta út í litla blettinn hér baka til, þ.e.a.s. ef gamla frú Fersch leyfir, en hún á hefðarrétt að öllu sem að garðyrkju lýtur í þessu húsi, að manni skilst, hafandi búið hér á 3. hæðinni í 27 ár. Sem er svo sem ekki langur tími, þegar litið er til sögunnar sem hér er allt í kring....

6 ummæli:

McHillary sagði...

Hæ Villa mín. Mikið er maður nú heppin að þú sért að grúska í þessum fróðleik. Nafn gagnfræðiskólans Borougmuir hlýtur þá að vera komið frá þessum eikarskógi. En jæja, sit alltaf alveg sveitt og nú eru mamma og pabbi að koma til mín í dag til að taka stjórnina hérna á heimilinu. Veist þú hvenær þeir flýta klukkunni? var að reyna að finna út úr því á netinu en varð ekki ágengt. Það er víst betra að vera með það á hreinu....
Kveðja frá Hillu.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Já, ætli skólanafnið sé ekki þaðan, var nú ekki búin að fatta það! Skyldi hann þá heita Borgarmýrarskóli upp á ástkæra?
Fletti upp á sumartímanum - var ekkert farin að spá í hann - og fann það hér http://wwp.greenwichmeantime.com/info/bst.htm að hann hefjist klukkan 1. eftir miðnætti þann 26.mars, síðasta sunnudag í mars, og þá á víst að færa klukkuna fram um klukkutíma. Hmm.. töpum við þá einum eða græðum einn? Get aldrei fattað þetta!

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Muir er auðvitað ekki mýri! Skoska orðabókin segir að það sé heiði: 1. Barren open country, moorland, heath.

En talandi um skosku: Í vikunni lærði ég nýtt skoskt orð, a poke. Það þýðir poki.

McHillary sagði...

hæ Villary! ég nota skó nr. 39-40 og því miður eru tátiljurnar sennilega of litlar á mínar bífur líka, ég hefði sko tekið þeim feginshendi því mér hefur verið freezing kalt undanfarið. Núna, fer nú vonandi að hlýna...
Já, það er nú meira hvað maður er búin að vera bissííí, enda er maður grár eins og malbik og búin að bæta á sig nokkrum ritgerðarkílóum, það dugar ekkert minna en extreme meikover að þessu öllu loknu. (það er sko verðlaunastofan um næstu helgi..)Við verðum endilega að slá bara í aðra rauðvín (jafnvel tvær...)og fá okkur vel í tánna þegar ég kem úr Möltureisunni, múhahahahah...heyrðu vissirðu það að Malta er 15x27 km að stærð og á þessu frímerki búa actually 400 þús manns. Þeim hlýtur að líða vel saman því þarna er hæsti hamingjustuðull í heimi...fékk alveg flog þegar áttaði mig á því hvað þetta er lítið.
Jæja, best að halda áfram.
Bestustu kveðjur til Mattans líka. Við skulum nú endilega heyrast í páskafríinu.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ, bara að kvitta fyrir mig.
Kveðja
Gerður.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Takk fyrir kveðjur, óskaplega gaman að vita hverjir reka hér inn nefið! Má svo einnig til með að deila því með umheiminum að skattaskýrslan er að baki, jessmann! Í verðlaun fengum við framteljendurnir heimatilbúinn rjómaís með síríus-súkkulaðibitum og hnetum, namminamm!