Líf í árvekni: Liljurnar þremur vikum síðar

miðvikudagur, 22. mars 2006

Liljurnar þremur vikum síðar

Páskaliljurnar handan götunnar okkar eru byrjaðar að springa út þótt ekki séu þær allar í fullum blóma ennþá - og kannski ekki von, því sólin hefur ekkert verið að sýna sig nema í miklu hófi að undanförnu og hitinn varla nema þetta 4-5 stig og næðingur flesta daga. Óskaplega kalt og viðeigandi þetta orð: Næðingur. Brrr! Stóla á að næsta fimm daga spá standist því samkvæmt henni á hitastigið loksins að skríða upp í tveggja stafa tölu á sunnudaginn og fara upp í heilar þrettán gráður. Væri svo sem ekki að kvarta þetta nema bara af því að heimili okkar er óttaleg kuldakista og ef blæs að austan í 5 stiga hita er ekki vært fyrir kulda áveðursmegin.

Hér eru svo fleiri ljósmyndir úr deginum, af skottunni í boltanum á Meadows-túninu, skammt frá Skóla skoskra fræða. Hún er orðin nokkuð lunkin með boltann, tekur iðulega kraftspyrnur og heldur boltanum á lofti og sparkar um leið og hún sleppir honum, afleiðingin reyndar stundum sú að jafnvægið fer fyrir lítið við tilfæringarnar og frökenin dettur á bossann. Hún lætur það vitanlega ekkert á sig fá og heldur ótrauð áfram.

Orðaforðinn eykst stöðugt eins við er að búast, skottan enda orðin 22 mánaða. Hún reynir þó ekki við eigið nafn og segir bara ,,baddnið" um sjálfa sig, jafnt og öll önnur börn sem fyrir augu ber. Fyrir áhugafólk um málþroska er kominn listi yfir það sem stúlkan hefur orð yfir hér, reyndar ekki glænýr og vísast eitthvað komið í viðbót síðan. Að minnsta kosti ,,botti." Og ,,Ókei!", sem er alltaf sagt í afar sérstæðum mæðutóni, líkt og skottan láti sig hafa það að samsinna því sem sagt er með miklum þrautum. Og skiptir þá engu hvort verið er að bjóða henni hreina bleiu eða uppáhalds kexið sitt.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir síðast! Það verður fallegt um að litast á sunnudaginn ef spáin rætist ,hér er 7 stiga frost svo að eg tók inn nokkrar páska liljur áður fraus og þær opna sig núna inn í eldhúsi! bestu kveðjur Mamma.

Nafnlaus sagði...

Smá kvitt fyrir innlitið frá mér, knúskveðja Auður ..