Það er svo margt mannanna meinið. Sem ég var á leið heim að húsinu okkar laugardagskvöld fyrir stuttu (úr einkar skemmtilegu tveggja kvenna samsæti í Bruntsfieldgörðum nr. 39)
var í sama bili á leið inn um dyrnar útigangsmaður, drukkinn og illa til reika og hafði svartan ruslapoka um öxl, vísast með veraldlegum eigum sínum í.
Útihurðin okkar rauða, sem á alltaf að vera í lás, hafði ekki lagst fyllilega að stöfum svo að karlræfillinn komst inn með því einfaldlega að ýta á hana. Við áttum stuttar samræður þarna í dyrunum um það hvort hugsast gæti að David, en svo kynnti hann sig, ætti vini á efstu hæðinni sem hann væri á leið í heimsókn til (fjórir námsmenn þar á unglingsaldri) sem lauk með því að hann lufsaðist út með vesældarlegu ,,mér-þykir-það-leitt" - tauti í bakið frá undirritaðri.
David var þó ekki búinn að kveðja fyrir fullt og allt því að í morgun lagði óþef upp um stigaganginn og þegar ég gáði betur að sá ég að bæli hafði verið gert ofan í kjallara. Eftir stutt samráð við minn heittelskaða ákváðum við að ,,sjá aðeins til" (gungurnar) og athuga hvort hin 92 ára gamla frú Fersch fyrir ofan okkur myndi ekki ganga í málið. Sem til allrar hamingju kom á daginn núna um kvöldmatarleytið, þegar sú gamla bankaði upp á og sagði okkur að hún hefði látið unglingsnámsmennina hirða bælisdruslurnar og fara með í Shelter-búðina í næstu götu, og hefði þegar gert ráðstafanir til þess að láta hliðið sem lokar (eða ætti að loka) leiðinni niður í kjallaraganginn yrði hækkað. Svo verðum við öll að passa að útihurðin læsist á eftir okkur, þótt það kosti kannski eins og 10 sekúndna bið eftir hurðapumpan vinni verk sitt.
Og hvað getur maður svo sem sagt... eða gert? Á hálftíma labbi héðan og niður Prinsastræti fer maður hjá tveimur til þremur útigangsmönnum - og hjá Kaupfélaginu er stundum kona sem heitir Lee (ég spurði hana um daginn) - með pottlok á stéttinni með nokkrum penníum í, sígarettu á milli vara og kannski fleyg, stundum pappaspjald líka þar sem þeir lýsa eymd sinni með skýrum blokkstöfum. Held að ég hafi kannski séð David áður við hraðbankann í Home Street þegar ég hugsa um það; karlinn þar brosir alltaf til Skottunnar í kerrunni - enda í mátulegri sjónhæð við kerrubörn - svo að skín í svartar og brunnar tennur.
Hann átti eitt sinn fjölskyldu já bæði bíl og hús
Bakkus tók það frá honum nú eru þeir tveir dús.
Fólki er svo sem sama þótt róni spræni í brók
og stolt hans var það fyrsta sem hann Bakkus gamli tók.
Æ, já.... á maður bara að venjast þessu? Jæja, má ekki vera að þessu - þarf að fara að horfa á Aðþrengdar eiginkonur, 6. þáttinn í nýju seríunni. Viljið þið vita hvað gerist næst...?!
4 ummæli:
flott vísa! hver samdi hana? varst það kannski þú?
Darling McVilla!
Hvernig líst þér á að hittast fyrir utan bókasafnið á morgun kl.11?Þá getum við stímt þaðan á Elephantinn. Átt þú ekki að mæta í tíma kl.13? Hlakka mega mikið til..
Dóttir góð, þú þarft að fara að kynna þér íslenskan kveðskap. Þennan slagara, Undir gömlum árabát- http://www.snerpa.is/?pageID=18&songID=224 - eftir Magnús Eiríksson raulaði móðir þín með vinkonum sínum í heimavistarpartíunum næturnar langar "in the Eighties..."
MacHillary my dear!!
Líst ljómandi vel á 11 utan við safnið á morgun - fer svo kl. 13 á fyrirlestur hjá danskri vinkonu sem ber yfirskriftina: Do You Believe in Fate? Sú er að skrifa doktorsritgerð um örlaganornir eddukvæðanna.
Skrifa ummæli