Líf í árvekni: Hér er hún

föstudagur, 10. febrúar 2006

Hér er hún


Sem sagt myndin af krókusunum sem skarta sínu fegursta í jaðri Engjanna og brostu til mín sem ég skeiðaði hringinn í dag í glampandi sól... og skítakulda reyndar. Tók myndavélina táningsdótturinnar traustataki einu sinni sem oftar í dag og hafði með mér á fyrirlestur hjá Karen hinni dönsku sem talaði um forlögin og forlagatrúna með skemmtilega skoska hreimnum sínum og vitnaði í bæði Blixen og Kierkegaard á frummálinu svo að unun var á að hlýða.

Þessir vikulegu fyrirlestrar póstgradjúeita skólans eru alltaf fluttir í þessari sömu litlu og hlýlegu stofu þar sem ég hef verið í tímum frá í haust. Aðeins eitt fag er kennt í stórum fyrirlestrasal spottakorn frá híbýlum SSS, grunnkúrsinn í skoskri þjóðfræði sem er mjög vinsæll meðal gestkomandi námsmanna og koma flestir frá Ameríkunni. Hér til vinstri er svo góðvinkona mín, bókavörðurinn Arnot, sem er fararstjóri okkar í næstu viku á japanskan trommudans og japanska veitingahúsið Bonsai. Meira um það þegar þar að kemur en talandi um útstáelsi - þorrablót Íslendinga í Skotlandi er framundan, þann 25. febrúar og allir í fjölskyldunni sem hafa aldur til ætla vitanlega í súrmatinn og slátrið. Reyndar verður þetta í fyrsta skipti sem við mæðgurnar förum á þorrablót, ef frá eru talin hangikjöts-harðfisks- og sviðasultubita-blót á bekkjarkvöldum í Vesturbæjarskóla í eldgamladaga.

Punta blogg dagsins svo í lokin með myndum frá Georgstorgi, inngangurinn að School of Scottish Studies lengst t.v.

P.s. Ef einhver skyldi reka hér inn augun og nefið sem fylgist með Júróvisjón undankeppninni á Íslandi þætti mér gaman að fá fréttir af gengi Silvíu Nætur. Ógisslega töff, sú!

5 ummæli:

Alda sagði...

Tja - þú hefur allavega fundið fréttirnar af Sylvíu! ;) - Gaman að sjá að þú ert með bloggsíðu og svona líka flotta og skemmtilega. Les meira...

McHillary sagði...

Sæl og bless og takk for sidst! Þetta er mjög smart að myndskreyta þetta svona, þið mæðgur verðið nú að fara að kenna mér svo ég geti farið að herma... Góða helgi!

Nafnlaus sagði...

Halló frænka, nýbúin að uppgötva bloggið þitt, gott að geta séð aðeins til ykkar....Kveðja Halla

Nafnlaus sagði...

Halló!stóra systir,heirðu hún Sylvía Nótt sigraði með 70,000 atkvæðum i gærkvöldi,annars er gaman að lesa bloggið ykkar mæðkyna,fræbært!!!!!

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Frábært, 70.000 atkvæði - það eru næstum því hvert einasta heimili á landinu! Til hamingju Ísland!