Líf í árvekni: Um Mindful Living, Hannes frænda og Pollýönnu

mánudagur, 2. janúar 2006

Um Mindful Living, Hannes frænda og Pollýönnu


Þó nokkrar ágætar þýðingartillögur komnar á yfirskriftina; engin þó sem nær fyllilega sömu merkingu og engilsaxneska hugtakið og ekki von þar sem bloggari hefur ekki enn náð að útlista það svo nokkru nemi, nema rétt í undirtexta. Hér verður reynt að bæta ögn úr og þó er varla að Hún ég búi sjálf yfir fullkomnum skilningi, hef enda ekki fengið nema stuttan úrdrátt í munnlegri frásögn Míns heittelskaða á innihaldi mikils doðrants um efnið sem liggur á náttborði hans með bókarmerki um miðbikið. En víkur þá máli að skýringardæmi sem ætti að varpa enhverju ljósi á mindful living og vanda þess sem hyggst hafa lögmál þess að leiðarljósi.

Markmiðið er sem sé lifa með fullri athygli í núinu og um leið í yfirveguðu æðruleysi, að láta hvorki streitu né fúllyndi ná tökum á sér, hafa það að leiðarljósi að ávallt sé um fleiri en einn kost að velja í hverri stöðu og komast þannig í gegnum daginn með rólyndislegt bros á vör og fullkomna stjórn á skapinu. Glætan, spætan! segir þú og ég tek undir það. Það sagði enginn að þetta yrði auðvelt.

Sem ég til dæmis skrúfa frá útvarpsfréttum á Rás 2 á Netinu í dag dynja á mér þær fréttir að a) Forstjórar í Flug Leiðum Grúpp fái borgaðar hundruðir milljóna fyrir að hætta og Hannes Smárason núverandi forstjóri hinna flugleiðu fái fjórar millur á mánuði (væntanlega fyrir að gera helst ekki mikið) og b) eignaskattur sé felldur niður á lýðveldinu Íslandi og hátekjuskattur lækkaður.

Eins og ávallt eru einhverjir kostir í hverri stöðu. Hér gildir að hugsa jákvætt og halda þéttingsfast utan um sína innri Pollýönnu. Eftir dálitla umhugsun kom mér í hug að Minn heittelskaði gæti t.d. ræktað betur sambandið við Hannes frænda sinn og bætt honum hið snarasta á jólakortalistann okkar, sent kort í hvelli (jólakort koma oft eftir jól frá Bretlandi, allir vita að það er póstþjónustunni að kenna) og boðið honum í leiðinni gestaherbergið ef hann á leið um Edinborg, til afslöppunar frá erfiðum hluthafafundum og kvabbi óánægðra flugfarþega sem þurfa að borga offjár fyrir að fara á milli Íslands og útlanda (t.d. Skotlands) og rífa sig á lappir fyrir allar aldir til flugferða hvert á annað land sem farið er. Hver veit nema hann verði rekinn bráðum og verði þá enn ríkari en fyrr og þá er ekki ónýtt að eiga hönk upp í bakið á frænda...

Minn heittelskaði benti mér síðan á annan kost og þóttist góður: Einfaldast væri að strengja það áramótaheit (öðrum til viðbótar, meira um þau síðar) að sleppa því að lesa/hlusta á fréttir frá Íslandi, enda gerðu þær ekki annað en að pirra mann og svipta mann æðruleysinu. Nú er spurning hvor kosturinn er betur í samræmi við mindful living prinsippið, og á því mun Hún ég sofa í nótt.

p.s. Hafirðu skoðun, deildu henni þá endilega inn um þar til gerðan glugga.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heil og sæl vinkona og til hamingju með bloggsíðuna!!

Bókin er frábær (segji þér meira í e-mail!!! ;-)

Mindful Living hummm er það ekki bara að lifa lífinu lifandi? eða vakandi?

Læt heyra í mér fljótlega

Koss og knús

Hlíf Ragnarsdóttir

Nafnlaus sagði...

Heil og sael Vilborg!
Til hamingju med siduna.Gaman ad lesa skrifin thin,eg mun fylgjast med."Mindful living" finnst mer vera "Ad lifa i varurd".Thad a best vid lysinguna sem er gefin.
Varurd er ad lifa i fullri athygli i nuinu.
Hulda i finnaskogum