Við Edinborgarar heilsuðum nýja árinu úti í Meadows-garðinum ásamt einhverjum hundruðum samborgara okkar; horfðum þaðan til tveggja af þeim sjö hæðum borgarinnar sem sýnilegar eru þaðan, þ.e. Kastalahæðarinnar og Arthur's Seat, og fylgdumst með því þegar tveimur sjöundu af þremur tonnum af flugeldum var skotið upp frá því að klukkurnar hringdu inn Hogmanay og þar til fjórar mínútur voru liðnar af árinu 2006. Glæsileg sjón þegar himinhvolfið lýstist upp í litadýrðinni og hávaðinn ekki síður vel útilátinn.
Aðrir en við höfðu ekki með sér ábót af skoteldum en innfæddir voru hins vegar vel birgir af lífsins vatni sem ku allra mest ómissandi þegar gamla árið kveður og hið nýja heilsar. Skottan var ekki meira en svo hrifin af fyrirganginum en Stráknum fannst að Skotar hefðu mátt vera ögn ákafari við skothríðina og halda sér lengur að verki. En sinn er siður í landi hverju og þannig er nú það.
Að skoskri trú færir sá fyrsti sem stígur inn fyrir þröskuld heimilisins á nýju ári með sér forspá um það sem árið ber í skauti sér og skiptir miklu að sá sé hávaxinn, dökkhærður karlmaður á besta aldri, hreystin uppmáluð. Slíkum fyrsta-fæti fylgir gæfa og gott gengi, öfugt við það sem hefði mátt búast við ef gamla frú Fersch hefði heiðrað okkur með heimsókn á þessum viðkvæma tímapunkti. Minn heittelskaði gekk því fyrstur inn að loknu fírverkeríinu og tryggði okkur þannig afgerandi velsæld út árið.
Óska ykkur öllum hins sama, og bestu þakkir fyrir þýðingartillögur sem nú verða teknar til gaumgæfilegrar athugunar af til þess bærri dómnefnd. Þeir sem eru enn að brjóta heilann hafa þó enn tækifæri til að taka þátt - fresturinn rennur ekki út fyrr en á þrettándanum...
4 ummæli:
mútter góð, þetta voru 2/7 af ÁTTA tonnum, ekki þremur, samkvæmt fréttunum á ITV!
Til hamingju með bloggið elsku systir, þetta verður spennandi lesning !
Skellti heilanum í bleyti en hef ekki ennþá fundið neina ásættanlega þýðingu , líst þó vel á þær uppástungur sem hafa komið.
Annars er ég svo alþjóðlega þenkjandi að mér finnst ekkert athugavert við það að hafa þetta á ensku ;)
Knúskveðja frá okkur í Fífulindinni
Auður & guðsonurinn
Gledilegt nýtt ár!!!
gleði legt nýtt ár ,kæra stóra systir og til hamingu með bloggið!
Skrifa ummæli