Líf í árvekni: Minjar og menning á vörutalningardaginn

mánudagur, 2. janúar 2006

Minjar og menning á vörutalningardaginn

Það var eitthvað heimilislegt við að koma að læstum dyrum kaupfélagsins okkar í dag, 2. janúar; greinilega vörutalningardagur hér í Skotlandi líkt og heima á Klakanum. Vorum samt dálítið svekkt þegar við sáum að bakaríið var líka lokað - þarf virkilega að telja brauðbirgðir líka?! Við urðum því af okkar daglega krossanti og undirrituð sömuleiðis af sínu vikulega andlega brauði, því svo hátíðlega er vörutalningardagurinn tekinn hér að meira að segja Klaustur heilagrar Katrínar og miskunnseminnar hafði lokað dyrum sínum í kvöld. ,,It's the second of January," sagði húsvörðurinn til skýringar þegar ég hváði yfir lokuninni, álíka hissa á svipinn og ég.

Til allrar hamingju var þjóðminjasafnið skoska þó opið því áætlað hafði verið að heimsækja það á annan í nýári og við það var staðið; við Strákurinn og Táningsdóttirin gengum þó nokkra kílómetra um bæði The National Museum og The Royal Museum of Scotland á 2-3 klst. og skoðuðum þó vart nema helming þess sem þar er boðið upp á. Aðspurður var Strákurinn mest hrifinn af rómverskum minjum; meðal annars miklum silfursjóði frá tímum Rómverja en Táningsdótturinni þótti einna mest koma til bjarnanna miklu í sal hinna uppstoppuðu, útdauðu og næstum útdauðu dýra. Hún ég horfði með hrolli á fallöxina sem var tekin úr notkun eftir að hafa ,,aðeins" afhausað 120 glæpona og pólitíska andstæðinga skoskra/breskra valdhafa á síðmiðöldum en þótti þó enn verra að berja augum hina hroðalegu gaddahálskraga og þumalskrúfur sem beitt var til að knýja fram játningar meintra galdranorna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Meðvera? Huglíf? eða eins og einhver sem ég þekki ekki myndi segja "Mændfúl læf"

Nafnlaus sagði...

Eg myndi seija að það þýddi meiningsfullt líf eða líf með meiningu