Líf í árvekni

miðvikudagur, 27. mars 2013

Einfætingalíf

Words are ambiguous. To say the patient is getting over it after an operation for appendicitis is one thing; after he’s had his leg off is quite another. After that operation either the wounded stump heals or the man dies. If it heals, the fierce, continuous pain will stop. Presently he’ll get back his strength and be able to stump about on his wooden leg. He has ‘got over it.’ But he will probably have recurrent pains in the stump all his life, and perhaps pretty bad ones; and he will always be a one-legged man. There will be hardly any moment when he forgets it. Bathing, dressing, sitting down and getting up again, even lying in bed, will all be different. His whole way of life will be changed. All sorts of pleasures and activities that he once took for granted will have to be simply written off. Duties too. At present I am learning to get about on crutches. Perhaps I shall presently be given a wooden leg. But I shall never be a biped again.”
― C.S. Lewis, A Grief Observed



Hver dagur færir mér nýja lexíu, nýjar uppgötvanir, ný sorgarefni. Hverja hefði grunað að það gæti verið svona óendanlega sárt að sópa ónotaðri sprautunál undan hjónarúminu? ,,Mér líður ekki svo illa einmitt núna," hugsa ég með mér um leið og ég set sópinn undir rúmið. Það er sól og skjannabjart úti, af neðri hæðinni berst hlátur Skottunnar og vinkonu hennar. Og síðan: Sprautunál. Ætluð  til að dæla morfíni og svefnlyfi í þjáðan líkama. Í líkama sem er ekki til lengur. Í blóð sem streymir ekki framar. 

Að það væri svona erfitt að finna í hillu enn ein lesgleraugun sem verða ekki notuð meir? Hann var alltaf að kaupa ný lesgleraugu, týndi þeim hér og þar um húsið.  Engin þeirra voru nógu góð, sjónin á vinstra auganu aldrei skýr þrátt fyrir enn eina mælinguna hjá augnlækninum og enn ein gleraugun. Nú eru sjö eða átta slík ofan í skúffu í skrifborðinu hans. Sum úr apótekinu, sum úr gleraugnabúðinni, sum úr Hagkaupum. 

Að hugsa til þess sem við gerðum síðast saman? Og enn frekar til þess sem við gerum ekki framar saman. Í jakkavasa finn ég miða frá síðustu leikhúsferðinni okkar. Sýningin Með fulla vasa af grjóti. Okkur fannst hún báðum góð þótt hann hefði reyndar orð á því að hann hefði ekki alveg náð öllu því sem fram fór. Man að ég hló sjálf svo mikið að mig verkjaði í kjálkana, táraðist af samkennd með persónunum. Það var sunnudagurinn 7. október og hann var nýbyrjaður í geislameðferðinni. Ég gekk framhjá Þjóðleikhúsinu í fyrrakvöld, sá að sýningin er enn auglýst þar á skilti. Fékk hnút í magann, kökk í hálsinn. Kyngdi, hélt göngunni áfram.
 

Víst vissi ég samt að það yrði erfitt að tæma skápana hans, eftir að vinir og ættingjar höfðu fengið það sem þeir gátu notað. Jakkaföt, yfirhafnir, spariskór, peysur, buxur. En mig hafði þó ekki órað fyrir því að ég myndi draga það dag eftir dag, viku eftir viku, vegna þess að sú undarlega hugsun sótti stöðugt á mig að ef ég gæfi öll fötin þá hefði hann alls ekkert að fara í ... þegar hann kæmi aftur. Hvernig er hægt að hugsa þannig og vita um leið hversu fáranlegt það er? Á sama tíma og ég hugsa án afláts um að hann komi aldrei aftur?  

Og svo herti ég mig loks upp, dreif það af. Setti fötin í svarta ruslapoka, keyrði út í Sorpu og setti þá í fatagám Rauða krossins. Það var nístandi kalt úti, hvasst og grimmdarfrost, eiginlega of kalt til að standa í þessu einmitt þennan dag. En allt í einu ég gat ekki beðið með þetta eina einustu klukkkustund í viðbót.

Og sem ég lagði pokana ofan á staflann sem fyrir var í gámnum sló þeirri hugsun niður í mig að mikið af fötunum sem eru seld í búðum Rauða krossins og Hjálpræðishersins eru vitanlega af dánu fólki. Af hverju hef ég aldei hugsað út í það fyrr? Ekki í eitt einasta sinn leitt hugann að öllum þessum  manneskjum sem hafa staðið í einmitt þessum sömu sporum. Farið með svarta ruslapoka fulla af fötum í gám Rauða krossins. Reynt að hugga sig við að þótt ástvinurinn hafi ekki not fyrir föt framar þá muni þau koma einhverjum öðrum að gagni, einhvers staðar.

Í fyrstu fannst mér svo óraunverulegt að hann væri horfinn úr lífi mínu að í nokkur andartök á hverjum degi tókst mér að ímynda mér að hann hefði aðeins skroppið frá. Væri á uppáhaldskaffihúsinu sínu í Bankastræti, sötrandi kaffi með súkkulaðihjarta í mjólkurfroðu og kæmi rétt strax aftur. Kæmi kannski við í Bernhöftsbakaríi og keypti rúnnstykki handa okkur og croissant hjá pólsku afgreiðslukonunum þar sem eru alltaf svo notalegar í viðmóti. Eða væri kannski úti í Brynju að kaupa skrúfur og skoða verkfærakassa. Hann hafði einstaklega gaman af að skoða verkfærakassa, gat tekið sér góðan tíma í það. Jafnvel enn meira gaman af því en ég að skoða kventöskur - og er þá mikið sagt.

En blekkingin varir aðeins skamma stund og er aldrei þess virði þótt hún færi huganum augnablikshvíld því sársaukinn hellist fljótt yfir aftur, enn hrárri en fyrr. Eins og þessi litla stund sem kvölin víkur sé til þess eins fallin að margfalda hana, endurtaka áfallið hvað eftir annað. Samt gríp ég þessa sjálfsblekkingarhugsun aftur og aftur, í örvæntingarfullri leit að miskunn, þótt hún vari skemur í hvert sinn. Og þau skipti sem hún gefur kost á sér verða æ færri eftir því sem frá líður. 

,,Í fyrstu" og ,,eftir því sem frá líður". Einkennilegt að nota þessi orð. Aðeins rúmar sex vikur liðnar frá laugardeginum 9. febrúar. Það er enginn tími.

Sem ég les yfir orð mín að ofan finnst mér nóg um sjálfsvorkunnina og dramatíkina. Er það einhver sjálfspínslahvöt sem ræður för? ,,Vandi kvenna er sá að þið hugsið of mikið," sagði Minn heittelskaði stundum þegar ég var að velta vöngum yfir einhverju sem olli mér þungu lyndi. Vildi meina að okkur hætti um of til að jórtra á kvíðafullum hugsununum sem aftur leiddi til þess að kvíðinn og vanlíðanin ykist í stað þess að sjatna. Jórturhugsanir.



Og mér verður hugsað til orða enska rithöfundarins C.S. Lewis í A Grief Observed, bók sem hann skrifaði árið eftir að kona hans dó, þar sem hann segir eitthvað í þá veru að ekki sé nóg með að syrgjandinn sé fullur sorgar, heldur finnur hann sig knúinn til að hugsa líka án afláts um að hann sé fullur sorgar.

Eða er það von um létti sem veldur? Það er fró í því að koma í orð því sem hringsólar í huganum. Þótt orðin séu vanmáttug. Það svíar að lesa bækur og texta um sorg annarra, máta sig í sporin þeirra, kanna hvaða leið þau fóru í gegnum þennan dimma skóg. En tónlist tjáir samt sterkar tilfinningar betur en nokkur orð. Hlustaði á sópransöngkonu í gærkvöldi syngja í Kaldalónssal Hörpu ljóðið Í fjarlægð. Lagið er samið af tónskáldinu Karli O. Runólfssyni eftir dauða fyrri konu hans, frumflutt í útförinni hennar. Ljóðið samið að ósk hennar á banasænginni og í hugarstað því hún náði ekki að kveðja hann, af hagmæltum manni, Cæsar, sem lá með henni á Kristneshæli. 
 
Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?
Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina,
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

Megi mátturinn vera með ykkur.

laugardagur, 9. mars 2013

Dag í senn, eitt andartak í einu



Í dag er 9. mars og mánuður er liðinn frá því að Minn heittelskaði dó. Fjórar vikur. 28 dagar. 672 klukkutímar. Fólk spyr hvernig mér líði og mér vefst tunga um tönn. Finnst ég eigi ekki að leggja það á aðra að vita sannleikann. Hverju væri ég bættari við það? Vil samt ekki segja ósatt. Á listanum yfir ,,Ráð fyrir syrgjendur“ sem hangir á ísskápshurðinni frá sorgarsamtökunum Nýrri dögun segir: ,,Svaraðu hreinskilnislega þegar þú ert spurð um líðan þína.“ Þannig að ég segi að oft líði mér bærilega. Læt það samt yfirleitt ósagt að jafnoft sé söknuðurinn eftir Mínum heittelskaða fullkomlega og algjörlega óbærilegur. 

Síðkvöldin eru erfiðust, þegar verkefni dagsins eru að baki og Skottan er komin í ró uppi í svefnherberginu okkar. Hún sefur í pabba bóli, eins og ég lofaði að hún mætti gera þegar ég sagði henni að hann myndi brátt deyja. Fletti upp í dagbókinni minni og sé að það loforð var gefið 22. janúar.

Ég hef  sterka þörf fyrir að rifja allt sem gerðist upp í minnstu smáatriðum. Fletta því upp hvenær Minn heittelskaði kyssti mig síðast og sagðist elska mig (27. janúar), hvenær hann brosti síðast (5. febrúar), hvenær hann sagði síðasta orðið sitt (,,já“ síðdegis 5. febrúar), hvað og hvenær hann borðaði síðast (munnbiti af prins-póló súkkulaðikexi 6. febrúar). 

Síðasti sólarhringurinn er sem meitlaður í huga mér og ég lifi hann upp aftur og aftur. Vökuna á stofunni númer 2 á Líknardeildinni með börnunum og nánustu ættingjum okkar frá því miðdegis á föstudag þegar hjúkrunarfólkið sagði að nú væri brátt komið að lokunum, og fram til klukkan níu um kvöldið þegar ég ákvað að ráði þeirra að best væri að fólkið okkar færi heim því enn var púlsinn óbreyttur frá því fyrr um daginn og óvíst að andlátið yrði fyrr en jafnvel að sólarhring liðnum. 

Eftir á að hyggja finnst mér að Björgvin hafi ákveðið að bíða þar til við vorum orðin tvö ein og gátum átt síðustu nóttina hans út af fyrir okkur. Hann var aldrei fyrir margmenni, leið langbest þegar við vorum ein heima á kvöldin og höfðum það kósí saman með kúfaða poppskál á borðinu og breskan krimma í sjónvarpinu. Prívat maður, Minn.

Man hversu biksvart myrkrið var fyrir utan gluggann á dánarstundinni, klukkan fimm mínútur í sex laugardagsmorguninn 9. febrúar. Hvernig dögunin kom hægt og hljótt yfir spegilsléttan Kópavoginn, grá í fyrstu, en smám saman birti og það sá í bláan himinn á milli hvítra skýjabólstranna. Hást krunk í hrafni, boðbera válegra tíðinda í þjóðtrúnni. Stuttu síðar garg í grágæsunum sem halda til við voginn. Milt veður, regn á jörðu eftir nóttina, logn og allt kyrrt. Biblían opin á náttborðinu, á 23. Davíðssálmi. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Ég hef haldið þessa dagbók frá því á Þorláksmessu, þegar Minn kom heim eftir fjögurra daga dvöl á krabbameinsdeildinni á Landspítalanum við Hringbraut. Þar hafði hann fengið stóra steraskammta í æð til þess að draga úr sívaxandi einkennum af heilabólgu. Án árangurs.

Í fyrstu skrifaði ég dagbókina til þess að geta haldið krabbameinslækninum upplýstum um gang mála. Skrifaði niður öll einkenni sjúkdómsins og sendi honum með nokkurra daga millibili. Eitthvað nýtt bættist við á hverjum einasta degi. Orðin hurfu hvert af öðru þar til ekkert var eftir nema stöku nafnorð sem ég gat krækt í og búið til tilgátur úr um hvað hann vildi sagt hafa. Og hann jánkaði eða hristi höfuðið eftir því sem við átti. Stöku orð urðu margnota. ,,Frétt“ gat merkt sjónvarp, fjarstýringar, skipta um stöð, dagblaðið, dagskrá, gleraugun. ,,Músík" gat merkt ullarteppi, tónspilara, gosdrykk. Og líka gleraugun.

Getan til alls kyns daglegra verka hvarf á fáeinum vikum: Að taka úr uppþvottavélinni, elda, ganga upp stiga, laga kaffi fyrir okkur, poppa, snúa peysunni rétt, nota hnífapör, tannbursta. Röddin varð ógreinileg og veik, fæturnir neituðu að hlýða.  Hvað af öðru var rifið frá honum, svo hratt að við tókum andköf og horfðum hvort á annað í undrun og vantrú. Og smám saman varð dagbókin ítarlegri og ekki síður haldin fyrir sjálfa mig til að skilja og ná einhverjum tökum á þessari skjálfandi tilveru. Það hjálpar að skrifa, koma orðum yfir hlutina.

Núna sit ég við að fara yfir tölvupóstinn minn allt frá því í ágúst þegar við urðum fyrst vör við að drekinn væri farinn að slá til halanum aftur, fimm og hálfu ári eftir heilaskurðaðgerðina í Edinborg í janúar 2007. Les pósta frá því um verslunarmannahelgi þegar Minn fékk skyndilega skrítnu gagnaugablaðsflogin sín á klukkutímafresti frá því síðdegis á föstudegi þar til síðdegis á mánudegi þegar þau duttu niður aftur. Finn bréf til vinkvenna og vina og til læknisins, og skeyti þeim inn í dagbókina, fylli út myndina af göngu okkar með drekanum. Í bók sem ég las í haust um þjóðsagnir af breskum drekum fann ég dæmi þess að á banastundinni spjó drekinn eldi yfir hetjuna hugrökku sem felldi hann og hún lét lífið um leið og hann. Þannig var það í okkar ævintýri.

Fólk segir mér að ég eigi að halda áfram að skrifa á þessar skjásíður, það hjálpi mér að láta huggast og jafnvel öðrum sem líka hafa misst. Það segir að það þurfi að tala upphátt um sorgina ekki síður en dauðann. Og ég hugsa með mér: Hvað er til huggunar, hvað styrkir og hjálpar? Hvernig tekst kona á við lífið þegar allt er öðruvísi en það ætti að vera? Hvernig er hægt að taka við lífinu með opnum örmum þegar það er svona óendanlega sárt? Hvað myndi Björgvin segja við slíkum spurningum? Og ég veit hver svör hans yrðu, svona nokkurn veginn. Í byrjun janúar, þegar við mér blöstu fjórar bókanir á fyrirlestrum um bækurnar mínar í febrúar og mars, og ég spurði hann hvort ég ætti ekki að blása þetta allt saman af svaraði hann afdráttarlaust neitandi. Hafði á þeim tíma varla neina getu lengur til að smíða heilar setningar en bætti þó við skýrt og ákveðið: ,,Lífið heldur áfram.“

Ég sé til. Dag í senn, eitt andartak í einu.