― C.S. Lewis, A Grief Observed
Hver dagur færir mér nýja lexíu, nýjar uppgötvanir, ný sorgarefni. Hverja hefði grunað að það gæti verið svona óendanlega sárt að sópa ónotaðri sprautunál undan hjónarúminu? ,,Mér líður ekki svo illa einmitt núna," hugsa ég með mér um leið og ég set sópinn undir rúmið. Það er sól og skjannabjart úti, af neðri hæðinni berst hlátur Skottunnar og vinkonu hennar. Og síðan: Sprautunál. Ætluð til að dæla morfíni og svefnlyfi í þjáðan líkama. Í líkama sem er ekki til lengur. Í blóð sem streymir ekki framar.
Að það væri svona erfitt að finna í hillu enn ein lesgleraugun sem verða ekki notuð meir? Hann var alltaf að kaupa ný lesgleraugu, týndi þeim hér og þar um húsið. Engin þeirra voru nógu góð, sjónin á vinstra auganu aldrei skýr þrátt fyrir enn eina mælinguna hjá augnlækninum og enn ein gleraugun. Nú eru sjö eða átta slík ofan í skúffu í skrifborðinu hans. Sum úr apótekinu, sum úr gleraugnabúðinni, sum úr Hagkaupum.
Að hugsa til þess sem við gerðum síðast saman? Og enn frekar til þess sem við gerum ekki framar saman. Í jakkavasa finn ég miða frá síðustu leikhúsferðinni okkar. Sýningin Með fulla vasa af grjóti. Okkur fannst hún báðum góð þótt hann hefði reyndar orð á því að hann hefði ekki alveg náð öllu því sem fram fór. Man að ég hló sjálf svo mikið að mig verkjaði í kjálkana, táraðist af samkennd með persónunum. Það var sunnudagurinn 7. október og hann var nýbyrjaður í geislameðferðinni. Ég gekk framhjá Þjóðleikhúsinu í fyrrakvöld, sá að sýningin er enn auglýst þar á skilti. Fékk hnút í magann, kökk í hálsinn. Kyngdi, hélt göngunni áfram.
Víst vissi ég samt að það yrði erfitt að tæma skápana hans, eftir að vinir og ættingjar höfðu fengið það sem þeir gátu notað. Jakkaföt, yfirhafnir, spariskór, peysur, buxur. En mig hafði þó ekki órað fyrir því að ég myndi draga það dag eftir dag, viku eftir viku, vegna þess að sú undarlega hugsun sótti stöðugt á mig að ef ég gæfi öll fötin þá hefði hann alls ekkert að fara í ... þegar hann kæmi aftur. Hvernig er hægt að hugsa þannig og vita um leið hversu fáranlegt það er? Á sama tíma og ég hugsa án afláts um að hann komi aldrei aftur?
Og svo herti ég mig loks upp, dreif það af. Setti fötin í svarta ruslapoka, keyrði út í Sorpu og setti þá í fatagám Rauða krossins. Það var nístandi kalt úti, hvasst og grimmdarfrost, eiginlega of kalt til að standa í þessu einmitt þennan dag. En allt í einu ég gat ekki beðið með þetta eina einustu klukkkustund í viðbót.
Og sem ég lagði pokana ofan á staflann sem fyrir var í gámnum sló þeirri hugsun niður í mig að mikið af fötunum sem eru seld í búðum Rauða krossins og Hjálpræðishersins eru vitanlega af dánu fólki. Af hverju hef ég aldei hugsað út í það fyrr? Ekki í eitt einasta sinn leitt hugann að öllum þessum manneskjum sem hafa staðið í einmitt þessum sömu sporum. Farið með svarta ruslapoka fulla af fötum í gám Rauða krossins. Reynt að hugga sig við að þótt ástvinurinn hafi ekki not fyrir föt framar þá muni þau koma einhverjum öðrum að gagni, einhvers staðar.
Í fyrstu fannst mér svo óraunverulegt að hann væri horfinn úr lífi mínu að í nokkur andartök á hverjum degi tókst mér að ímynda mér að hann hefði aðeins skroppið frá. Væri á uppáhaldskaffihúsinu sínu í Bankastræti, sötrandi kaffi með súkkulaðihjarta í mjólkurfroðu og kæmi rétt strax aftur. Kæmi kannski við í Bernhöftsbakaríi og keypti rúnnstykki handa okkur og croissant hjá pólsku afgreiðslukonunum þar sem eru alltaf svo notalegar í viðmóti. Eða væri kannski úti í Brynju að kaupa skrúfur og skoða verkfærakassa. Hann hafði einstaklega gaman af að skoða verkfærakassa, gat tekið sér góðan tíma í það. Jafnvel enn meira gaman af því en ég að skoða kventöskur - og er þá mikið sagt.
En blekkingin varir aðeins skamma stund og er aldrei þess virði þótt hún færi huganum augnablikshvíld því sársaukinn hellist fljótt yfir aftur, enn hrárri en fyrr. Eins og þessi litla stund sem kvölin víkur sé til þess eins fallin að margfalda hana, endurtaka áfallið hvað eftir annað. Samt gríp ég þessa sjálfsblekkingarhugsun aftur og aftur, í örvæntingarfullri leit að miskunn, þótt hún vari skemur í hvert sinn. Og þau skipti sem hún gefur kost á sér verða æ færri eftir því sem frá líður.
,,Í fyrstu" og ,,eftir því sem frá líður". Einkennilegt að nota þessi orð. Aðeins rúmar sex vikur liðnar frá laugardeginum 9. febrúar. Það er enginn tími.

Og mér verður hugsað til orða enska rithöfundarins C.S. Lewis í A Grief Observed, bók sem hann skrifaði árið eftir að kona hans dó, þar sem hann segir eitthvað í þá veru að ekki sé nóg með að syrgjandinn sé fullur sorgar, heldur finnur hann sig knúinn til að hugsa líka án afláts um að hann sé fullur sorgar.
Eða er það von um létti sem veldur? Það er fró í því að koma í orð því sem hringsólar í huganum. Þótt orðin séu vanmáttug. Það svíar að lesa bækur og texta um sorg annarra, máta sig í sporin þeirra, kanna hvaða leið þau fóru í gegnum þennan dimma skóg. En tónlist tjáir samt sterkar tilfinningar betur en nokkur orð. Hlustaði á sópransöngkonu í gærkvöldi syngja í Kaldalónssal Hörpu ljóðið Í fjarlægð. Lagið er samið af tónskáldinu Karli O. Runólfssyni eftir dauða fyrri konu hans, frumflutt í útförinni hennar. Ljóðið samið að ósk hennar á banasænginni og í hugarstað því hún náði ekki að kveðja hann, af hagmæltum manni, Cæsar, sem lá með henni á Kristneshæli.
Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur
og fagrar vonir tengdir líf mitt við,
minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,
er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.
Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?
Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?
Þú fagra minning eftir skildir eina,
sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.
Megi mátturinn vera með ykkur.