Líf í árvekni: Dag í senn, eitt andartak í einu

laugardagur, 9. mars 2013

Dag í senn, eitt andartak í einuÍ dag er 9. mars og mánuður er liðinn frá því að Minn heittelskaði dó. Fjórar vikur. 28 dagar. 672 klukkutímar. Fólk spyr hvernig mér líði og mér vefst tunga um tönn. Finnst ég eigi ekki að leggja það á aðra að vita sannleikann. Hverju væri ég bættari við það? Vil samt ekki segja ósatt. Á listanum yfir ,,Ráð fyrir syrgjendur“ sem hangir á ísskápshurðinni frá sorgarsamtökunum Nýrri dögun segir: ,,Svaraðu hreinskilnislega þegar þú ert spurð um líðan þína.“ Þannig að ég segi að oft líði mér bærilega. Læt það samt yfirleitt ósagt að jafnoft sé söknuðurinn eftir Mínum heittelskaða fullkomlega og algjörlega óbærilegur. 

Síðkvöldin eru erfiðust, þegar verkefni dagsins eru að baki og Skottan er komin í ró uppi í svefnherberginu okkar. Hún sefur í pabba bóli, eins og ég lofaði að hún mætti gera þegar ég sagði henni að hann myndi brátt deyja. Fletti upp í dagbókinni minni og sé að það loforð var gefið 22. janúar.

Ég hef  sterka þörf fyrir að rifja allt sem gerðist upp í minnstu smáatriðum. Fletta því upp hvenær Minn heittelskaði kyssti mig síðast og sagðist elska mig (27. janúar), hvenær hann brosti síðast (5. febrúar), hvenær hann sagði síðasta orðið sitt (,,já“ síðdegis 5. febrúar), hvað og hvenær hann borðaði síðast (munnbiti af prins-póló súkkulaðikexi 6. febrúar). 

Síðasti sólarhringurinn er sem meitlaður í huga mér og ég lifi hann upp aftur og aftur. Vökuna á stofunni númer 2 á Líknardeildinni með börnunum og nánustu ættingjum okkar frá því miðdegis á föstudag þegar hjúkrunarfólkið sagði að nú væri brátt komið að lokunum, og fram til klukkan níu um kvöldið þegar ég ákvað að ráði þeirra að best væri að fólkið okkar færi heim því enn var púlsinn óbreyttur frá því fyrr um daginn og óvíst að andlátið yrði fyrr en jafnvel að sólarhring liðnum. 

Eftir á að hyggja finnst mér að Björgvin hafi ákveðið að bíða þar til við vorum orðin tvö ein og gátum átt síðustu nóttina hans út af fyrir okkur. Hann var aldrei fyrir margmenni, leið langbest þegar við vorum ein heima á kvöldin og höfðum það kósí saman með kúfaða poppskál á borðinu og breskan krimma í sjónvarpinu. Prívat maður, Minn.

Man hversu biksvart myrkrið var fyrir utan gluggann á dánarstundinni, klukkan fimm mínútur í sex laugardagsmorguninn 9. febrúar. Hvernig dögunin kom hægt og hljótt yfir spegilsléttan Kópavoginn, grá í fyrstu, en smám saman birti og það sá í bláan himinn á milli hvítra skýjabólstranna. Hást krunk í hrafni, boðbera válegra tíðinda í þjóðtrúnni. Stuttu síðar garg í grágæsunum sem halda til við voginn. Milt veður, regn á jörðu eftir nóttina, logn og allt kyrrt. Biblían opin á náttborðinu, á 23. Davíðssálmi. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Ég hef haldið þessa dagbók frá því á Þorláksmessu, þegar Minn kom heim eftir fjögurra daga dvöl á krabbameinsdeildinni á Landspítalanum við Hringbraut. Þar hafði hann fengið stóra steraskammta í æð til þess að draga úr sívaxandi einkennum af heilabólgu. Án árangurs.

Í fyrstu skrifaði ég dagbókina til þess að geta haldið krabbameinslækninum upplýstum um gang mála. Skrifaði niður öll einkenni sjúkdómsins og sendi honum með nokkurra daga millibili. Eitthvað nýtt bættist við á hverjum einasta degi. Orðin hurfu hvert af öðru þar til ekkert var eftir nema stöku nafnorð sem ég gat krækt í og búið til tilgátur úr um hvað hann vildi sagt hafa. Og hann jánkaði eða hristi höfuðið eftir því sem við átti. Stöku orð urðu margnota. ,,Frétt“ gat merkt sjónvarp, fjarstýringar, skipta um stöð, dagblaðið, dagskrá, gleraugun. ,,Músík" gat merkt ullarteppi, tónspilara, gosdrykk. Og líka gleraugun.

Getan til alls kyns daglegra verka hvarf á fáeinum vikum: Að taka úr uppþvottavélinni, elda, ganga upp stiga, laga kaffi fyrir okkur, poppa, snúa peysunni rétt, nota hnífapör, tannbursta. Röddin varð ógreinileg og veik, fæturnir neituðu að hlýða.  Hvað af öðru var rifið frá honum, svo hratt að við tókum andköf og horfðum hvort á annað í undrun og vantrú. Og smám saman varð dagbókin ítarlegri og ekki síður haldin fyrir sjálfa mig til að skilja og ná einhverjum tökum á þessari skjálfandi tilveru. Það hjálpar að skrifa, koma orðum yfir hlutina.

Núna sit ég við að fara yfir tölvupóstinn minn allt frá því í ágúst þegar við urðum fyrst vör við að drekinn væri farinn að slá til halanum aftur, fimm og hálfu ári eftir heilaskurðaðgerðina í Edinborg í janúar 2007. Les pósta frá því um verslunarmannahelgi þegar Minn fékk skyndilega skrítnu gagnaugablaðsflogin sín á klukkutímafresti frá því síðdegis á föstudegi þar til síðdegis á mánudegi þegar þau duttu niður aftur. Finn bréf til vinkvenna og vina og til læknisins, og skeyti þeim inn í dagbókina, fylli út myndina af göngu okkar með drekanum. Í bók sem ég las í haust um þjóðsagnir af breskum drekum fann ég dæmi þess að á banastundinni spjó drekinn eldi yfir hetjuna hugrökku sem felldi hann og hún lét lífið um leið og hann. Þannig var það í okkar ævintýri.

Fólk segir mér að ég eigi að halda áfram að skrifa á þessar skjásíður, það hjálpi mér að láta huggast og jafnvel öðrum sem líka hafa misst. Það segir að það þurfi að tala upphátt um sorgina ekki síður en dauðann. Og ég hugsa með mér: Hvað er til huggunar, hvað styrkir og hjálpar? Hvernig tekst kona á við lífið þegar allt er öðruvísi en það ætti að vera? Hvernig er hægt að taka við lífinu með opnum örmum þegar það er svona óendanlega sárt? Hvað myndi Björgvin segja við slíkum spurningum? Og ég veit hver svör hans yrðu, svona nokkurn veginn. Í byrjun janúar, þegar við mér blöstu fjórar bókanir á fyrirlestrum um bækurnar mínar í febrúar og mars, og ég spurði hann hvort ég ætti ekki að blása þetta allt saman af svaraði hann afdráttarlaust neitandi. Hafði á þeim tíma varla neina getu lengur til að smíða heilar setningar en bætti þó við skýrt og ákveðið: ,,Lífið heldur áfram.“

Ég sé til. Dag í senn, eitt andartak í einu. 

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku vinkona, vildi að ég ætti nogu sterkt og falleg orð til líkna og lina sorgina sem þú upplifir. Sendi þér og þínum allar mína bestu kveðjur og orku frá fjöllunum okkar.
þva M

Nafnlaus sagði...

Kæra Vilborg.
Mig langar til að senda þér hlýjar hugsanir og stórt faðmlag.
Kær kveðja Anna Guðrún.

Ragga sagði...

Elsku Villa, vinkona mín.
Megi Veran leiða þig í gegnum sorgina og gefa þér allt sem þú þarfnast.
Knús og kossar í Kastalann,
Raggan.

mags sagði...

“For this is one of the miracles of love; it gives -- to both, but perhaps especially to the woman -- a power of seeing through its own enchantments and yet not being disenchanted.” ―
C. S. Lewis, A Grief Observed

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa, ég á engin orð.
Ég sendi þér knús í kastalann.
Lóa

Nafnlaus sagði...

Elsku frænka, aðstæður þínar eru þyngri en tárum taki. En oft grátum við vegna þess sem eitt sinn var gleði manns og minningarnar tekur enginn frá manni. Sorgin og gleðin eru systur, sofi önnur ... vakir hin.
Kveðjur að norðan í kastalann ... frænka.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki öllum gefið að geta orðað hugsanir og tilfinningar á jafn skýran og næman hátt og þú gerir, Vilborg. Mörg okkar standa í svipuðum sporum og þú en eigum bágt með koma orðum að líðan okkar eða greina tilfinningarnar. Þá er ómetanlegt að fá að lesa skrif þeirra sem hafa til þess hæfnina. Skáld gera meira en að segja sögur, skemmta og uppfræða. Þau eru undanfarar sem feta slóðann, lýsa leiðinni og nefna það sem fyrir augu ber. Það auðveldar okkur hinum að rata. Ég votta þér mína dýpstu samúð og þakka þér skrifin.

Alda sagði...

Elsku Vilborg, ég var að finna þennan pistil, einhvernvegin fór hann framhjá mér þegar hann birtist. Tek undir allt sem sagt var hér á undan mér. Að gefa öðrum hlutdeild í sorg þinni og sorgarferli er ekki síður gefandi fyrir þá sem þiggja. Megi guð gefa þér styrk, einn dag í einu. Kærleiksknús.

appu sagði...RRB NTPC Result 2016
SSC CGL 2016 Result
Happy New Year 2017 Wishes
IBPS PO Result 2016
GCSE Results 2016
SBI PO Result 2016
NEET 2016 Result
New Year 2017 Wallpaper
Good Morning Quotes
Merry Christmas wishes Christmas wishes