Hér getur að líta ýmsa þanka sem tengjast því að lifa af árvekni í deginum í dag, til fulls, sjálfrátt, ríkulega, með eftirtekt, af djúphygli, í varurð, í núinu, af gjörhygli ... með öðrum orðum, því að læra að strauja þannig að það verði nautn að sjá krumpurnar hverfa.
þriðjudagur, 12. janúar 2010
Núið er ekki snúið... lengur
Eitt af því ágæta við dagbókarskrif hér í netheimum er að í þeim má fletta aftur í. Lesa sér til um hvað kona var að hugsa og bardúsa þennan dag fyrir ári, tveimur eða jafnvel þremur. Því þótt ég hafi verið með eindæmum blogglöt, sérdeilis frá því að Auður mín kom í veröldina sl. haust, þá skrifa ég þó pistil þann 12. janúar ár hvert.
Færslurnar voru tvær 12.1.2007, báðar í styttri kantinum: Aðgerðadagur og Undir hnífnum...
Þann 12. janúar 2008 var fyrirsögnin Ári eftir aðgerð, langloka mikil með fjöldanum öllum af tenglum og heimspekilegum pælingum. Þann 12. janúar 2009 var yfirskriftin Af ástareldi og heldur í léttúðugri kantinum; nokkrar vangaveltur um mikilvægi þess að brosa að alvarlegum málum og lítilvægi þess að kunna rétt heiti á grænmetistegundum.
Sem sé, 12. janúar er ártíð heilaskurðaðgerðarinnar á Mínum heittelskaða eiginmanni. Inn á skurðstofu um hálfellefuleytið að morgni þessa dags árið 2007, rúllað inn á gjörgæslu með túrban sjö tímum síðar. Um kvöldið kom skurðlæknirinn að sjúkrabeðnum með slæmar fréttir, þó engan veginn þær verstu í stöðunni (konu svimar nú af tilhugsuninni um allar þær skelfingar sem hefðu getað gerst og ég áttaði mig ekki á fyrr en síðar): Heilaæxlið í vinstra gagnauganu var greinilega af ört vaxandi hágráðu, þ.e. illkynja krabbamein, en ekki hægt vaxandi lággráðuæxli eins og vonast hafði verið til.
Aðgerðin gekk hins vegar vel að því leytinu að um helmingur 8 sm. hlunksins var fjarlægður og það án þess að valda skaða á þessu mjög svo vandmeðfarna og viðkvæma líffæri, þannig að ,,drekinn“, einsog við kölluðum illfyglið í hálfkæringi, þrýsti ekki lengur á heilastofninn né heldur á miðlínuna á milli heilahvelanna.
Ströng geislameðferð var framundan og skyndilega þurfti að hugsa lífið upp á nýtt. Framtíðaráætlanir, um doktorsnám Míns í sálfræði og áframhaldandi búsetu í Edinborg, viku fyrir nagandi óvissu og ótal spurningum sem engin svör voru við, hversu lengi sem ég leitaði og las mér til á veraldarvefnum um hvaðeina sem viðkom þessu sjúkdómsheiti sem ég hafði aldrei séð áður: Anaplastic Astrocytoma.
Sú sem oftast var borin upp í hljóði hugans var þessi: Hversu langan tíma fáum við?
Ég er til allrar hamingju fyrir lifandis löngu búin að sætta mig við það að þeirri spurningu fær ekkert okkar svar við, nokkru sinni. Og sem betur fer. Hvað væri varið í þetta líf ef við vissum alltaf hvað væri framundan?
Af og til spyr fólk mig hvað sé títt af Mínum og því svara ég sem satt er: Af honum er allt fínt að frétta. Drekinn er til friðs í hverri segulómunarmyndinni af annarri, ekkert sem gefur til kynna að æxlisvöxtur sé byrjaður aftur, næsta myndataka í haust. Í vor klárar hann seinna árið í cand.psych. námi í sálfræði sem veitir honum starfsréttindi í faginu; landaði bæði áttum og níum í desember. Það var ekki fyrirhafnarlaus glíma, vitanlega ekki. En fyrr mætti nú fyrrvera eftir allt sem á undan er gengið.
En honum gengur alveg ljómandi vel að hjálpa mér að taka hverjum degi með þakklæti og léttlyndu kæruleysi gagnvart mýflugum sem eiga það til að birtast í úlfaldalíki.
En Minn er nú heldur ekkert venjulegur maður...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Megið þið eiga fjölda hamingju ríkra ára framundan ! 'Astarkveðjur mamma og pabbi
12. janúar er einnig stór dagur í mínu lífi. Þann dag kl. 02:35 árið 1994 fæddist frumburðurinn minn hann Kristján Atli :)
Takk kærlega fyrir mótttökurnar, áritunina og spjallið s.l. laugardag.
Kveðja Anna frænka :)
Góður pistill systir kær.
Knús á ykkur xoxo
Auður Lilja
Gott að heyra -. Gott að vita. Gangi ykkur sem best.
Um einstaka menn er sagt... að þær vilja eiga hann margar en við sem höfum þá að láni erum heppnar og deilum þeim ógjarnan. En til að hrósa okkur þá eiga einstakir eiginmenn yfirlett frábærar ektakvinnur þannig að þeir eru jú vel giftir:) Er það ekki?
Inga María
Skrifa ummæli